Traust og taumhald

eftir Birkir Grétarsson

Þann 26. febrúar síðastliðinn, tveim dögum áður en fyrsta staðfesta tilfelli COVID-19 veirunnar greinist á Íslandi, birti Gallup Þjóðarpúls sinn, þar sem finna mátti árlega könnun Gallup á trausti Íslendinga til ríkisstofnana. Þrátt fyrir að traust landans til stofnana samfélagsins flökti á milli mælinga hafa niðurstöður síðustu ára verið á eina leið: Íslendingar bera almennt lítið traust til stofnana ríkisvaldsins. Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til lögreglunnar lækkaði milli ára og mældist 73%, sem þykir tiltölulega gott, sérstaklega með tilliti til allra svarenda sem fengið hafa hraðasekt í gegnum tíðina og loks gefist tækifæri að svara fyrir sig þegar Gallup hringir. Einungis sex af tíu báru mikið traust til heilbrigðiskerfisins, það helgast kannski af fréttaflutningi vetursins af plássleysi og fullum göngum af sjúkrarúmum sem Íslendingar geta vart beðið eftir að verma í ellinni. Þetta eru engar sláandi tölur en þessar stofnanir sinna tiltölulega skýrum verkefnum og lúta ákvörðunum stjórnvalda og stjórnmálamanna hvað snertir fjármagn og framkvæmd. Aðra sögu er að segja af Alþingi. Alþingi Íslendinga reið ekki feitum hesti úr könnuninni en einungis 23% Íslendinga bera mikið traust til Alþingis. Á sama tíma bar rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar mikið traust til ríkisstjórnarinnar.

Efla traust á stjórnmál og stjórnsýslu

Eitt af yfirlýstum markmiðum stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar er að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Ástandið er svo slæmt að ríkisstjórnin sér sig knúna til að vinna jafnt og þétt að bæta traust borgaranna til sín, í stað þess að vona að aukið traust muni fylgja réttri breytni. Slíkt markmið ætti kannski ekki að þurfa að skrifa á blað, stjórnmálamenn sitja jú í umboði landsmanna og daglegt verkefni þeirra er að vinna að auknum hag landsmanna í sátt og samlyndi við þjóðina. Það er sannarlega snúið verkefni að samþætta stefnumál allra flokka og skyldu þeirra gagnvart sínum kjósendum. Það breytir því ekki að meginmarkmið hverrar ríkisstjórnar ætti að vera að efla traust þjóðarinnar með gjörðum sínum, ekki yfirlýstum markmiðum um aukið traust.

En af hverju sit ég yfir gömlum Þjóðarpúlsi og röfla um traust til ríkisstofnana?

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Þjóðarpúlsinn birtist. Gíraðir skíðagarpar blésu í partíflautu á bar í Austurrísku Ölpunum og COVID barst til landsins, tveim dögum eftir að Gallup birti sínar niðurstöður. Við þekkjum þessa sögu vel. Landinu var lokað, samkomur voru bannaðar og fjarlægð skyldi vera 2 metrar á milli manna. Hvísluleikurinn var afnuminn með reglugerð. Að endingu dúkkaði upp app til að rekja ferðir fólks. Allt eru þetta aðgerðir sem helgast af miklu inngripi í daglegt líf fólks í landinu. Auðvitað var gripið til þessara aðgerða af mikilli neyð í algjöru óvissuástandi (eða sökum „fordæmalausra aðstæðna“), til þess að dempa höggið af heimsfaraldri sem þegar var í uppsiglingu. Hryllingssögur bárust utan úr heimi, engin vissi í hvað stemmdi og fólk var skelkað, útlitið var alls ekki gott.

Þegar rykið fer að setjast

Nú þegar nokkuð er liðið frá fyrstu smitunum hér á landi er fyrst hægt að meta árangur viðbragðsaðgerða stjórnvalda. Þær aðgerðir sem ráðist var í kostuðu sitt og munu halda áfram að kosta um ókomna tíð, en þær björguðu líka að öllum líkindum mannslífum. Daglega voru haldnir upplýsingafundur á vegum almannavarna þar sem línur voru lagðar og þjóðin fylgdi á eftir. Það myndaðist töluverður félagslegur þrýstingur að brjóta ekki leikreglur þríeykisins Þórólfs, Víðis og Ölmu auk þess sem sektaraðgerðir voru boðaðar fyrir brot á sóttvarnarlögum. Með aðgerðunum tókst óneitanlega að draga úr smitum á COVID-19. Hvað traust almennings í garð stjórnvalda varðar virðast aðgerðirnar hafa haft það í för með sér að traust hefur almennt aukist, að minnsta kosti til skamms tíma litið eða þangað til annað kemur í ljós.

Veirufræðingar víðsvegar um heiminn hafa haldið því fram að kórónaveiran sé mögulega komin til að vera, líkt og HIV vírusinn. Að vísu hefur starfshópur um upplýsingaóreiðu ekki staðfest þær staðhæfingar, en verði það raunin, er rakningarappið þá líka komið til að vera? Verða allir sem koma til landsins um ókomna tíð skyldaðir til að sækja app sem skráir ferðir þeirra? Það er að minnsta kosti vonandi að almenningur geti farið fram á jafn mikið gagnsæi af hálfu ríkisins og það ætlast til af borgurum sínum.

Næstu skref


Að öllum líkindum þarf ekki að hafa áhyggjur af því að appið heyri sögunni til þegar áhrif veirunnar sjatna. Slíkt þarf þó að passa, því til langs tíma litið mun það óneitanlega hafa áhrif á hegðun og ákvarðanatöku fólks að vita að hægt verði að yfirfara ferðir þeirra aftur í tímann leiki á grunur um smit. Það er ekki til þess gert að efla traust almennings til ríkisins. Traustið þarf að vera gagnkvæmt sé markmiðið slíkt.

Komandi misseri og afléttingaferli Covid-reglanna verður snúið. Á meðan óvissuástandið ríkti og hræðsla greip um sig meðal þjóðarinnar var fólk tilbúið að kasta á glæ allskyns réttindum sem við tökum að jafnaði sem gefnum. Núna tekur við vinna af hálfu stjórnvalda í samráði við fólkið í landinu um hver næstu skref skulu vera. Þær ákvarðanir sem bíða verða ekki einvörðungu teknar af sérfræðingum, líkt og þegar óvissan ríkti, heldur verða þær pólitísks eðlis og þurfa einnig að taka mið af vonum og væntingum almennings í landinu um komandi tíð.

Birkir Grétarsson

Pistlahöfundur

Birkir er Stjórnmálafræðinemi við Háskóla Íslands. Hann er aðkomumaður í Reykjavík af Suðurlandinu. Birkir hefur gaman af fólki, ferðalöngum og diplómasíu. Samneyti fólks, sátt og samlyndi eru Birki ofarlega í huga en skrif hans fyrir Róm munu að mestu snúast um samfélagslegar vangaveltur líðandi stundar.