Torg í Borg

eftir Arnór Bragi Elvarsson

Þessa grein tekur 3 mínútur að lesa

HM-torgið í Hljómskálagarðinum er eitt af því sem staðið hefur uppúr hjá mér síðastliðna daga. Ég ásamt hundruðum í viðbót stóð úti í forlátaregn-ponchoi og fagnaði framgangi okkar manna gegn Argentínu. Torgið var útbúið flatskjá, sviði og veitingavögnum sem áttu erfitt með að anna eftirspurn. Þrátt fyrir kaffileysi get ég ekki sagt annað en að vel hafi verið að þessu staðið. Það myndaðist frábært andrúmsloft sem margar borgir keppast við að fá í sín opinberu rými.

Torg eru miðpunktur

Torg hafa frá upphafi nútímasamfélags verið miðpunktur menningarlífs, þá einkum markaðstorg. Áður fyrr klæddi fólk sig upp til þess að selja uppskeru vikunnar, sýna nautgripi sína, kaupa inn ferskt flesk fyrir vikuna eða einfaldlega til að skiptast á sögum. Þá var mikilvægt að í návist torgsins væru veitingar svo hægt væri að njóta stundar milli stríða með sínu fólki og næra sig fyrir viðskipti seinni hluta dags.

Markaðstorg hafa einnig verið miðpunktur borga í tímanna rás, og aðgengileiki þeirra er ein aðalástæðan fyrir staðsetningu borga. Hið einfalda lögmál Hotelling segir að sölustaðir eru í jafnvægi í miðju markaðssvæðisins. Seljendur vilja ná til sem flestra kaupenda, og kaupendur vilja stytta ferðatíma sinn til sölustaða. Þess vegna hafa sölustaðir af mismunandi stærð orðið til nokkuð jafnt dreift á evrópska meginlandinu. Hið afar merkilega lögmál Zipfs segir að log-log samband mannfjölda borga og sætaröðun borga eftir stærð gefur u.þ.b. hallatölu -1. Sambandið heldur fyrir evrópska meginlandið, Bandaríkin og mörg önnur landsvæði. Þetta er áhugaverð stærðfræðileg tilviljun um hvernig íbúar dreifa sér milli borga, sem áhugamenn um skipulag klóra enn hausnum yfir. Enn fremur ýtir tilviljunin undir það að flókin félagshagfræðileg öfl ráða för við búsetuval einstaklinga.

Fólk eru félagsverur

Í dag eru aðrir tímar; við kaupum mikið af vörum á netinu og getum skutlast í Costco á fjölskyldubílnum ef okkur vantar vörubretti af klósettpappír. Þrátt fyrir að við þurfum ekki lengur að versla inn fyrir alla vikuna á laugardögum á torginu, þá spilar félagslegi þátturinn enn stóran hlut í lífi okkar. Fólk sækist í að eyða stundum sínum í nærveru annars fólks. Þess vegna hópast fólk á Austurvöll á dögum sem sólin skín eða á jólamarkað á Ingólfstorgi í blindbyl. Ákveðinn meðalvegur virðist hafa fundist á Mathöll á Hlemmi og á Granda þar sem torg hafa verið mynduð innanhúss.

Úr bæ í borg á HM

Í Skeifunni má til dæmis finna sniðugt framtak þar sem settur hefur verið upp götumarkaður með veitingavögnum og flatskjá. Skeifan er í millibilsástandi áður en til stendur að fara í miklar aðgerðir á því svæði, líkt og tíðkast í stórborgum erlendis. Ónotuð bílastæði eru tímabundið undirlögð til að auka fjölbreytni þjónustuframboðs í Skeifunni og þannig laða fleiri þangað að. Í staðinn fyrir að eyða 20 mínútum í Hagkaup og 10 mínútum í Vínbúðinni til að undirbúa grillveislu helgarinnar og álíka tíma í að komast þangað, þá verður nú auðveldara og ákjósanlegra að vera í Skeifunni þar sem úrval afþreyingar hefur aukist. Annað dæmi um staðsetningu þar sem endurbygging hefur tekist vel er á Garðatorgi.

Hér hafa verið nefnd dæmi af vel heppnuðum framtökum innan Reykjavíkur. Framtök sem þessi eru lykilatriði í að gera Reykjavík að borg í stað bæjar. Höldum áfram að fjárfesta í borg þar sem við viljum verja tíma okkar. Þá eyðum við á heildina litið minni tíma í að ferðast á milli staða og höfum meiri tíma til að njóta þess að vera til og horfa á HM.