Tökum tækniframförum opnum örmum

eftir Gestahöfundur

Tækniframfarir kalla eftir breyttri samsetningu vinnuafls. Með nýrri tækni eru störf lögð niður og ný verða til. Þessi þróun hefur átt sér stað alla tíð.

Þann fyrsta maí síðastliðinn gerði forsætisráðherra Danmerkur Lars Løkke að umræðuefni nýútkomna skýrslu frá McKinsey um danskan vinnumarkað og þær áskoranir sem danskur vinnumarkaður stendur frammi fyrir. Í þeirri skýrslu er reifuð sú staðreynd að tækniframfarir séu að færa vinnumarkaðinn inn á nýtt skeið í tæknibyltingunni. Vinnumarkaðurinn stefnir nú hraðbyri inn í tímabil þar sem sjálfvirkni mun ráða ríkjum með aðstoð vélmenna og gervigreindar. Vélmenni og gervigreind eru ekki fjarlægur veruleiki sem tilheyrir Sci-fi myndum því meginniðurstaða McKinsey er að 40% af dönskum vinnustundum er hægt að skipta út fyrir tækni sem þegar er til—ekki  tækni sem á eftir að finna upp, heldur tækni sem búið er að finna upp. Eðlilega veldur þessi staðreynd stjórnvöldum og stefnumótunaraðilum á vinnumarkaði áhyggjum. Því þykir til eftirbreytni að dönsk stjórnvöld hafi, í fyrsta lagi, haft frumkvæði af því að kortleggja danskan vinnumarkað og þar af leiðandi gefið málefninu vægi í umræðunni og, í öðru lagi, brugðist við niðurstöðum skýrslunnar. Það er ekki þægilegt að vera stjórnmálamaður og fá í fangið að 40% af öllum vinnustundum sem unnar eru í Danmörku væri hægt að fela tækninni. Lars Løkke snéri vörn í sókn og kallaði eftir því að Danmörk nýti tækifærin sem í þessu felast því þeirra er framtíðin. En að sama skapi kallaði hann eftir sameiginlegu átaki verkalýðshreyfingarinnar, fyrirtækja og stjórnvalda til að bregðast við breyttum aðstæðum á vinnumarkaði. Í því felst meðal annars að efla menntun með áherslu á endurmenntun með fullorðinsfræðslu og þjálfun á vinnumarkaði.

Þjálfun og endurmenntun alla starfsævina er lykill að því að tryggja að vinnumarkaðurinn sé samkeppnishæfur. Ný tækni kallar á annars konar færni og þekkingu sem aðilar á vinnumarkaði þurfa að laga sig að.

Undirrituð skrifaði lokaritgerð í hagfræði sem bar það rómantíska heiti „Pörun á vinnumarkaði“.  Ritgerðin fjallaði ekki um hvernig best væri að haga makaleitinni á vinnumarkaði heldur hvernig á að tryggja það að vera með samkeppnishæfan vinnumarkaði. Góð pörun á vinnumarkaði verður þegar bæði fyrirtæki og vinnuafl ná því besta fram hvor frá öðrum og báðir aðilar njóta sín, kannski ekki svo ólíkt makavali, en þó vonandi með aðeins öðrum væntingum. Fyrirtæki og vinnuafl verða að vera móttækileg fyrir nýrri tækni og aðlaga framleiðslu og þekkingu að þeirri tækni svo þau geta verið samkeppnishæf. Fyrir þá sem hafa horft á Downtown Abbey var bersýnilegt að þegar líða tók á seinni hluta þáttaraðarinnar hafði fækkað verulega í starfsliði sem þjónaði breska aðlinum. Aðalpersóna þáttaraðarinnar Daisy ætlaði ekki að gera sig óþarfa í framtíðinni og hóf því lestrarnám, því að sú færni sem hún bjó yfir, t.d. að gera fimm laga svampköku, var á verulegu undanhaldi.

Stefnumótunaraðilar á íslenskum vinnumarkaði, bæði stjórnvöld, atvinnurekendahreyfingin og verkalýðshreyfingin standi frammi fyrir sama vanda. Það verkefni að ná að samhæfa vinnumarkaðinn og menntun er krefjandi og  því er nauðsynlegt að kortleggja færniþörf í framtíðinni til að tryggja samkeppnishæfni íslensks efnahaglífs.

Tækninýjungar eru komnar til að vera og mega Íslendingar vera stoltir af þeim íslensku  tæknifyrirtækjum sem hafa sprottið upp úr íslensku hugviti og má þar nefna augljós dæmi eins og Össur og Marel. Einnig má nefna fyrirtæki eins og Völku og Skagann3X sem eru í örum vexti. En síðarnefnda fyrirtækið er einmitt nýbúið að taka við Útflutningsverðlaun forseta Íslands. Öll þessi fyrirtæki tryggja það að íslenskt efnahagslíf er betur undirbúið til að mæta harðri alþjóðlegri samkeppni. Tækniframfarir kalla á breytta samsetningu vinnuafls.

Hallveig Ólafsdóttir er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútveg. Áður hafði hún starfað sem vallarstarfsmaður á Laugardalsvelli og hjá greiningardeild Vinnumálastofnunar.