Tók enginn eftir 2. mgr. 7. gr. LÍN frumvarpsins?

eftir Erna Sigurðardóttir

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur nú lokið afgreiðslu á 794. máli um námslán og námsstyrki til annarrar umræðu en þar voru teknar til greina nokkrar athugasemdir umsagnaraðila. Mikil og lífleg umræða hefur verið í kringum frumvarpið og eru margir sem fagna mikilvægum breytingum sem lagðar eru til, en aðrir mótfallnir þeim. Hins vegar er stór galli á frumvarpinu er varðar nemendur Háskólans í Reykjavík beint og getur haft neikvæð áhrif á rekstur skólans. Ekki var tekið tillit til gallans í nefndarvinnunni, en hann er sá að lagðar eru til breytingar á skólagjaldalánum í námi sem er sérstaklega skipulagt samhliða vinnu.

Nám sem er skipulagt samhliða vinnu ekki aðstoðarhæft samkvæmt 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins

 Hingað til hafa nemendur sem stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu einungis geta fengið lán fyrir skólagjöldum, en slíkt nám uppfyllir ekki skilyrði þess að vera lánshæft fyrir framfærslu í núverandi lögum. Í 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á þessu og nám sem er skipulagt samhliða vinnu á ekki vera aðstoðarhæft hjá sjóðnum. Eins og kemur fram í frumvarpinu eru það námsleiðirnar MBA, MPA, ýmsar námsleiðir við Endurmenntun í HÍ og aðrar sambærilegar námsleiðir háskólanna sem hafa notið góðs af því að þetta sé lánshæft samkvæmt núverandi lögum um LÍN. Pistlahöfundur er hagsmunafulltrúi Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík og eru námsbrautir við Háskólann í Reykjavík honum því ofarlega í huga.

Í HR eru þær námsleiðir sem um ræðir, master of business administration (MBA) og master of project management (MPM) þær námsleiðir sem eru sérstaklega skipulagðar sem nám samhliða vinnu. Skólaárið 2014-2015 voru 100 nemendur í HR lántakar að skólagjaldaláni fyrir slíku námi samkvæmt upplýsingum frá LÍN, en það er um helmingur nemenda í umræddu námi. Fyrir skólaárið 2016-17 eru skólagjöld annars vegar í MPM námi 3.465.000 kr. og hinsvegar í MBA námi 3.980.000 kr. samkvæmt heimasíðu skólans.

Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins er rökstuðningurinn er eftirfarandi:

  1. „Fjölgun hefur verið á undanförnum árum í hópi skóla og námsleiða sem settar eru upp sem nám með vinnu þannig að námið sé lánshæft fyrir skólagjöldum. Því má gera ráð fyrir að aðsókn í slík skólagjaldalán eigi áfram eftir að aukast, frekar en ekki.“
  2. „Frá upphafi hefur markmið lánasjóðsins verið að lána til fólks í fullu námi fyrir framfærslu og, eftir atvikum, til viðbótar fyrir skólagjöldum. Það er því nokkuð á skjön við þessa meginhugsun að veita lán eingöngu til skólagjalda til einstaklinga sem eru í fullri vinnu, en auka við menntun sína í því skyni að auka tekjumöguleika.“

Pistlahöfundur telur ofangreindan rökstuðning samkvæmt lið nr. 1 léttvægan, svo vægt sé til orða tekið. Aukin aðsókn í nám er jákvæð og ætla má að þessar námsleiðir geri fólk hæfari en áður, leiði til aukinnar þjóðhagslegrar hagkvæmni og stuðli að auknum lífsgæðum fólks og eins og vinsælt er að flíka þessa dagana, auknum hagvexti.

Hver verða áhrif þess ef frumvarpið verður að lögum í núverandi mynd?

Stoðum verður að öllum líkindum kippt undan bæði MBA og MPM námi á Íslandi ef þessar breytingatillögur ná fram að ganga. MBA og MPM nám er fjármagnað að stærstum hluta með skólagjöldum, það er af nemendunum sjálfum, og því veruleg hætta á að rekstrarforsendur námsins bresti ef fjármögnunarmöguleikar nemenda verða skertir. Stjórnendur skólans þyrftu að endurskoða með mjög skömmum fyrirvara alla uppbyggingu námsleiðanna og viðskiptamódel frá grunni og að öllum líkindum leggja þær niður í núverandi mynd, með tilheyrandi röskun í starfsemi skólans og rekstrargrunni. Jafnframt er mikilvægt að horfa til þess að Háskólinn í Reykjavík hefur hingað til verið eini skólinn sem boðið hefur upp á sérhæft nám í verkefnastjórnun, þó við Háskóla Íslands sé nú nýlega í boði MS nám í verkefnastjórnun, og þá í fullu námi og öðrum áherslum. Í þessu samhengi má þó benda á að ef af þessum breytingum verður eru möguleikar á að umræddar námsleiðir verði endurskipulagðar og boðnar sem fullt nám. Þá hafa nemendur rétt á að sækja um skólagjaldalán en að auki framfærslulán, sem í kjölfarið yki heildarútgjöld LÍN og til viðbótar minnkaði að öllum líkindum skatttekjur hins opinbera af áður vinnandi nemendum í leiðinni, m.v. sambærilegan fjölda nemenda og áður.

Hvað varðar fyrrgreindan rökstuðning í frumvarpinu samkvæmt lið nr. 2 þá telur pistlahöfundur að hafa verði í huga markmið laganna, sem er að tryggja jöfn tækifæri til náms án tillits til efnahags. En að auki er ekki hægt að fullyrða að einstaklingar sem fara í nám sem er skipulagt samhliða vinnu séu í fullri vinnu eða í vinnu yfir höfuð, jafnvel eru dæmi um einstaklinga án atvinnu sem með námi sínu eru að bæta stöðu sína á vinnumarkaði. En þó slíkir nemendur séu yfirleitt virkir á vinnumarkaði eru þeir líklegir til að hafa aðrar fjárhagslegar skuldbindingar og eiga því erfitt með að fara í nám sem ekki væri aðstoðarhæft lengur. Það er ljóst að ekki hafa allir jafnan aðgang að fjárhagslegum stuðningi annars staðar frá til þess að fjármagna nám sitt. Þó í einhverjum tilfella séu atvinnurekendur að greiða skólagjöld, að hluta eða öllu leyti, er jafnframt óraunhæft að ætla að almennur lánamarkaður leysi úr þörfum þessara einstaklinga, sérstaklega ef um er að ræða fólk sem er jafnvel án atvinnu.

Breytingarnar í stærra samhengi

 Ekki er óalgengt að einstaklingar fari í nám þegar þeir missa vinnu tímabundið. Í þessu samhengi verður þó að hafa í huga að einstaklingar sem missa atvinnu og eiga rétt á atvinnuleysisbótum er aðeins heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá LÍN, samkvæmt 2. gr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. En samkvæmt 3. mgr. 52. gr. sömu laga er Vinnumálastofnun þó heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á, hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá LÍN. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunnar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Einstaklingur sem missir atvinnu tímabundið og hefur jafnvel bæði áhuga og vilja til þess að stunda fullt nám sem er skipulagt samhliða vinnu á ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar ef hann hyggst stunda fullt nám sem er 30 ECTS-einingar.

Sá atvinnulausi (en áhugasami) er þá í sérkennilegri stöðu. Á hann að:

a) Vera áfram á atvinnuleysisbótum?

b)Fara í skipulagt nám samhliða vinnu án skólagjaldalána frá LÍN og á engum atvinnuleysisbótum?

c) Nú eða fara í full nám, ef það er þá í boði (sbr. MBA/MPM)?

Útilokun á grundvelli efnahags eða jafnrétti til náms?

Ef af boðuðum breytingum verður, þá stefnir í að fjárhagur einstaklings muni ráða því hvort hann geti ástundað MBA/MPM nám, að því gefnu að hann geti fjármagnað það að fullu sjálfur. Töluverð hætta er á að það dragi úr fjölbreytileika einstaklinga í náminu sem hér um ræðir og aðeins þeir sem betur eru staddir fjárhagslega, nú eða þeir sem starfa hjá stofnunum eða fyrirtækjum sem kosta þá til náms, eigi kost á þessu námi. Í dag er stór hluti þeirra nema sem stunda þetta nám, að fjármagna skólagjöld sín með skólagjaldaláni frá LÍN, því er lánið grundvallarforsenda veru þeirra í náminu. Því má búast við samsvarandi fækkun nemenda og um leið að rekstrargrundvelli yrði kippt undan námsbrautunum, eitthvað sem yrði töluvert áfall fyrir Háskólann í Reykjavík og samfélagið okkar.

Pistlahöfundur telur að vel athuguðu máli, þessa fyrirhuguðu breytingu á skólagjaldalánum vanhugsaða, illa ígrundaða og ekki síst illa rökstudda, enda er hætta á að hún útiloki ákveðinn hóp fólks á grundvelli efnahags og svipti þá tækifæri til frekara náms meðfram vinnu en ekki síst aukins starfsframa og lífsgæða til framtíðar. Að lokum má benda á að Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík var eini umsagnaraðili frumvarpsins sem gerði athugasemd við þessa tilteknu breytingu og neikvæðar afleiðingar hennar. Og þrátt fyrir að hljóta sérstakar þakkir frá nefndinni, urðu nefndarmenn ekki við óskum um breytingar, né skýrðu nánar ástæður að baki breytinganna.

 

 

 

Erna Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Erna stundar meistaranám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Um þessar mundir er hún fulltrúi nemenda í Gæðaráði íslenskra háskóla. Hún var hagsmunafulltrúi HR-inga, sat í stjórn Stúdentafélagsins jafnhliða námsráði HR. Hún gegndi embætti formanns Lögréttu, félags laganema, skólaárið 2015-2016 auk þess sem hún átti sæti í hagsmunaráði laganema frá 2013-2016.