Tjúttað með gamlingjum

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

„Læra að segja nei.” Geggjað áramótaheit. Dæmt til að mistakast. Áður en ég vissi var allt komið á fullt. Eftir því sem dagarnir liðu, og verkefnunum fjölgaði, fannst mér ég missa sjónar á öllu því sem ég var að gera. Hvert einasta verkefni sem sandkorn í lófa. Læðist niður á milli fingranna, reynir að sleppa. Eftir því sem fleiri sandkorn bætast við, því hraðar tekur sandurinn að renna manni úr greipum. „Ég verð að komast í burtu,” hugsaði ég.

Kjáni á Spáni

Fyrstu dagarnir hjá ömmu og afa á Spáni liðu löturhægt. Ég var einungis búin að vera þar í fimm daga í „slow motion“ þegar Kastljósþátturinn birtist í sjónvarpinu. Eftir að hafa legið yfir aukafréttum og umfjöllunum um aflandsfélög, siðrof og mótmæli við Austurvöll í nær tvo daga, rann það upp fyrir mér. „Hvern fjandann er ég að gera? Ég fór út til að flýja nákvæmlega þetta! Ég get hlustað á íslenskar fréttir hvenær sem er.“

Ég leit upp. Þarna sátu þau, beint fyrir framan mig, gráleit og hrukkótt, með bros á vör. Ég hafði ekki verið jafn mikið með gömlu hjónunum síðan ég var smákrakki. Þau búa í næstu götu við mig en samt kíki ég örsjaldan í heimsókn. Ég á líklega aldrei aftur eftir að eyða jafn miklum tíma með þeim og nú.

Kapphlaupið

Lífið er undarlegt kapphlaup. Einhverjir reyna að komast sem lengst, aðrir sem hraðast. Sumum er kippt úr leik allt of snemma á meðan aðrir virðast komast upp með alls konar svik og pretti án þess að ætla nokkurn tímann að falla úr leik. Enn aðrir geta ekki meir, ákveða einfaldlega að hætta sjálfir. Og marklínan? Blekking. Líkt og regnboginn sem hverfur um leið og þú heldur að þú sért kominn undir hann. Og þá hefst leitin að honum á ný. Því fjársjóðinn vilja allir finna.

Amma og afi voru komin miklu lengra en ég í þessu kapphlaupi. Aftur á móti var ég farin að nálgast þau ansi hratt, vegna þess að ég var að flýta mér ansi hratt. En úti á Spáni keypti ég mér [heldur betur] nýja skó sem ég tímdi alls ekki að slíta. Ég hægði því á mér og fór að ganga í takt við þau. Ég hætti að hlaupa framhjá öllu og fór að líta í kringum mig. Og þá varð mér það ljóst. Það er ekki aðeins til einn regnbogi, það eru til margir. Hver sem er getur smíðað sinn eigin regnboga. Eina sem þarf til eru sól og skúrir.

Regnboginn minn

Ef þú getur notið þess sem þú ert að gera, óháð því með hverjum þú ert eða hvernig aðstæður eru í kringum þig, þá kemstu ansi langt í þessum leik. Og síst skaltu vanmeta þinn eigin félagsskap, því það er sá félagsskapur sem þú situr uppi með allt þitt líf.

Tíminn líður.
Lífið bíður
ekki
eftir þér.

Svo ég fór að eyða meiri tíma með gömlu hjónunum. Amma spurði mig loks hvort ég vildi ekki „skoða“ [hitt] gamla fólkið á Spáni. Og jújú, ég var til.

Hver er sinnar gæfusmiður

Við klæddum okkur upp og svo var skálað. Um leið og við mættum á Íslendingastaðinn fengum við sönghefti í hendurnar. „Lag nr. 9!“ var kallað úr salnum og söngurinn hófst við undirleik elsta trúbadors sem ég hef augum litið. Eftir því sem leið á kvöldið tóku gamlingjarnir að rísa upp úr sætum sínum og tjútta og hreyfast á vegu sem ég hafði aldrei séð fyrr! Það var líkt og að söngurinn [og vínið] hefði smurt alla liði og fólkið sveiflaði sér, út og suður og í allar áttir. Dinglaði höndunum og sneri ökklunum. Maður minn hvað ég varð fyrir miklum innblæstri.

„Komdu að dansa!“ var kallað til mín og ég dregin út á gólf. Þarna vorum við. Ég og gamlingjarnir. Hver að dansa eftir sínu höfði. Hver á sínum hraða. Ekkert kapphlaup. Bara glitrandi diskóljós, í öllum regnbogans litum. Sannkallað regnbogahaf.

Trúbadorinn fékk sínar 15 mínútur af frægð. Ég, minningar til æviloka.

mynd

[Þessar hugleiðingar hripaði ég niður á auðan strimil sem ein af flugfreyjunum reddaði mér úr kreditkortaposanum í flugvélinni á leiðinni heim. Ég hóf skrifin á þeim forsendum að ég yrði að nýta tímann þar sem síminn minn og tölvan voru að verða batteríislaus og ég eirðarlaus. Ég var á leið í nákvæmlega sama farið og áður en þökk sé innstunguleysinu í flugvélinni neyddist ég til að staldra aðeins við. Í kjölfarið fór hugurinn svo sannarlega á „flug“.]

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.