Tjaldútilegur

eftir Björn Már Ólafsson

Tjaldferðalög innanlands eru stórskemmtileg, sama hvað líður svartsýnispistlum um þróun Íslands í átt að hreinræktuðu ferðamannalandi. Því var ég svo heppinn að kynnast í tvígang í liðinni viku.

  • Umferðin á þjóðvegum gekk bara nokkuð greiðlega jafnvel þótt sumir ökumenn nota vegöxlina til þess að stöðva bílinn og til að taka myndir af ómerkilegum náttúrufyrirbærum.
  • Nýjasta Bluetooth tæknin gerði okkur kleift að hlusta á tónlist snurðulaust í hljóðkerfinu í bílnum úr símunum okkar.
  • Spotify og símaáskriftir gerðu það að verkum að við gátum hlustað á nær hvaða lög sem er, hvar sem var á landinu.
  • Ég varð hvergi var við mannaskít úr túristum á stöðum þar sem mannaskítur úr túristum á ekki að vera.
  • Þróunin í ferðagasgrillum hefur verið alveg fáránleg undanfarin ár og á nýjustu grillunum er ekkert mál að grilla dýrindis steikur hvar sem er á landinu og í hvaða veðri sem er, með einföldum hætti.
  • Það er sundlaug í hverju einasta plássi á þessu landi. Allar sem ég heimsótti voru frábærar.
  • Nýjasta uppfinningin í tjaldbransanum er sjálftjaldandi tjald sem maður getur einfaldlega kastað upp í loftið og það lendir fulltjaldað (það reyndist reyndar þrautin þyngri að brjóta tjaldið saman en það er efni í sér pistil).
  • Með mér í ferðina hafði ég meira að segja sérstakan tjaldhælahamar með sérútbúnum krók til að losa allt of vel festa tjaldhæla. Dásamleg uppfinning.
  • Ekki var hægt að biðja um betra veður. Þá er ekki þar með sagt að það hafi verið frábært veður, heldur bara að ég hefði ekki getað beðið um betra veður. Veðrið var ágætt.

En sama hversu hratt tækninni fleytir fram og við leysum öll heimsins vandamál og deiluefni þá er ekki enn búið að leysa stærsta ferðavandamál samtímans. Inni í tjaldi er alltaf of heitt eða of kalt! Þú ferð að sofa og hitinn inni í tjaldinu er við frostmark. Sjö klukkustundum síðar vaknar þú við að hitinn er hægt og rólega að gera útaf við allt líf í tjaldinu.

Vísindamenn hljóta að setja alla sína krafta í að leysa þetta annað tveggja stærstu vandamála samtímans fljótlega. Þá verða tjaldútilegur fullkomnar.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.