Tíminn liðinn, en tíðindalítill Óskar

eftir Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir

Fjórða mars síðastliðinn voru Óskarsverðlaunin haldin hátíðleg í 90. skiptið. Það var við því að búast að athöfnin í ár yrði öðruvísi en venjulega. Andrúmsloftið í Hollywood hefur verið ansi spennuþrungið þessa verðlaunatíð og einkennst af einstakri samstöðu bæði karla og kvenna sem hafa sameinast undir formerkinu „Time’s Up”, sem fylgir í kjölfar Metoo hreyfingarinnar sem kollvelti heiminum síðasta haust. Þó svo að enginn hafi klæðst svörtu af ásettu ráði eins og átti við um til dæmis BAFTA og Golden Globe verðlaunin í ár, var kvöldið stútfullt af pólitískum skilaboðum. Jimmy Kimmel var kynnir kvöldsins líkt og í fyrra og opnaði kvöldið með hárbeittri ræðu. Hann snerti á mörgum hitamálum, allt frá Harvey Weinstein og Donald Trump til sögulegra kvikmynda eins og Black Panther og Wonder Women. Líkt og í fyrra fékk Kimmel mikið lof bæði gesta og áhorfenda enda ekkert að tvínóna við hlutina.

Sigurvegarar kvöldsins voru án efa fjölbreyttari en undanfarin ár þó svo að þeir hafi flestir hvatt Akademíuna til þess að tryggja enn meiri fjölbreytni í þakkarræðum sínum. Guillermo del Toro vann tvo gríðarstóra flokka fyrir mynd sína „The Shape of Water”, bæði fyrir leikstjórn sína og sömuleiðis fyrir bestu myndina. Del Toro notaði ræðu sína til að minna á hve mikil áhrif fjölbreytt menning getur haft á kvikmyndaiðnaðinn, en sjálfur er hann innflytjandi frá Mexíkó. Leikstjóri spennutryllisins „Get Out”, Jordan Peele, braut einnig blað í sögunni þegar hann varð fyrsti svarti maðurinn til þess að vinna Óskarinn fyrir frumsamið handrit. Rachel Morrison varð svo fyrsta konan í sögunni til þess að fá tilnefningu fyrir kvikmyndun, þó svo að vinna hennar í kvikmyndinni „Mudbound” hafi þó ekki náð að landa henni sigrinum í þetta skiptið. Greta Gerwig varð svo fimmta konan í sögunni til þess að næla sér í tilnefningu fyrir leikstjórn, en það kom mörgum á óvart að kvikmynd hennar „Ladybird” hafi ekki náð að sigra í einhverjum af þeim fimm flokkum sem myndin var tilnefnd í.

Þó svo að þessir einstaklingar hafi loksins fengið viðurkenningu fyrir störf sín þótti mörgum akademían missa marks í öðrum flokkum. Sam Rockwell vann verðlaunin sem besti leikari í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt í „Three Billboards Outside Ebbing, Missouri”. Karakter Rockwell þykir einkar rasískur og þótti mörgum gagnrýnendum og áhorfendum miður að hann fengi þessa viðurkenningu fyrir hlutverk sem brýtur á bága við það markmið akademíunnar að tryggja öllum kynþáttum jafnan sess í iðnaðinum. Sömuleiðis ollu sigrar Kobe Bryant og Gary Oldman fyrir bestu teiknuðu stuttmynd og bestan leik í aðalhlutverki mikilli reiði. Bryant og Oldman hafa báðir verið sakaðir um kynferðisofbeldi um aldarmótin og þótti mörgum hverjum sigur þeirra draga úr trúverðugleika akademíunnar á stuðningi sínum við „Time’s Up”-hreyfinguna.

Þrátt fyrir allt þótti flestum kvöldið tíðindaminna en búist var við. Ef til vill hafa fyrri verðlaunaafhendingar á árinu á borð við BAFTA og Golden Globe, dregið mjög úr þeirri gríðarlegu pólitísku spennu sem myndaðist í Hollywood í lok síðasta árs. Hvað sem því líður var athöfnin góð og uppskeran hefðbundin á síðasta ári  í heimi kvikmyndanna. Nú ekki annað eftir en að skella sér í bíó og gleypa í sig verðlaunamyndirnar sem enn eru þar á skjánum.

 

Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir

Pistlahöfundur

Lilja Hrund Ava er nemi á alþjóðabraut Verzlunarskóla Íslands og situr í stjórn NFVÍ sem ritstýra Verzlunarskólablaðsins. Hún er einnig formaður Ungmennaráðs Unicef á Íslandi og situr í stjórn Heimdalls. Skrif Lilju í Rómi beinast að málefnum flóttamanna, mannréttindum almennt og málefnum líðandi stundar.