Tími til að aðskilja ríki og kirkju

eftir Ritstjórn

Nýárið markar þáttaskil hjá flestum. Það hefur í för með sér nýjar áskoranir, tækifæri, vandamál og verkefni. Það er þó yfirleitt eitt sem breytist ekki; á nýju ári eru færri í þjóðkirkjunni en voru árið á undan. Þökkum guði fyrir það.

Þjóðkirkjan líkt og margar aðrar gamlar stofnanir samfélagsins – landbúnaður, póstþjónusta, áfengis- og tókbakssala svo eitthvað sé nefnt – nýtur friðhelgi íhalds og afturhaldsafla í samfélaginu. Með þeim stuðningi hefur kirkjan komið sér undan því að nútímavæðast og reka starfsemi sína á jafnræðisgrundvelli við önnur trúfélög hér á landi.

Hins vegar gætu verið blikur á lofti nú í kjölfar þess að frjálslynd hægri stjórn hefur tekið við taumum ríkisins. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sögulega veitt kirkjunni skjól undan eðlilegri samkeppni kvað við annað hljóð á síðasta landsfundi flokksins. Í ályktun segir: „Áhrif kristni á íslenskt samfélag hafa bæði sögu- og menningarlega þýðingu. Aðskilnað ríkis og kirkju þarf að framkvæma með farsæld þjóðarinnar að leiðarljósi. Aðskilja þarf ríki og kirkju með farsæld þjóðkirkjunnar og þjóðarinnar að leiðarljósi.“

Í stefnuskrá Viðreisnar má finna sambærilegar meiningar: „Trú og trúarbrögð eiga að vera án afskipta ríkisins. Ríkið á ekki að skipta sér af skráningu í trúfélög né innheimtu gjalda til trúfélaga. Tímabært er að ræða aðskilnað ríkis og kirkju og bera breytingar á kirkjuskipan undir þjóðina.“

Þá hefur Björt Framtíð jafnframt tekið af öll tvímæli um að flokkurinn vilji aðskilja ríki og kirkju. Flokkurinn hefur jafnframt sagst vilja hafa frumkvæði að ferli sem ljúki með aðskilnaði. Nú er lag fyrir Bjarta Framtíð að efna orð sín og krefjast þess að umrætt ferli verði sett af stað.

Nýskipaður Dómsmálaráðherra, sem fer með kirkjumál skv. forsetaúrskurði hefur í viðtali sagst telja að aðskilnaður yrði góður hvort tveggja fyrir þjóðina og kirkjuna. Nú er að duga eða drepast fyrir stjórnarflokkana og það kemur brátt í ljós hvort þeir geti staðið við sín stefnumál.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.