Tímaþjófur Friðþjófsson

eftir Elín Margrét Böðvarsdóttir

Ég sit við tölvuna á æskuheimili mínu í sveitinni hjá mömmu og pabba. Sauðburður, einhver mesti álagstími yfir árið hjá sauðfjárbændum, er kominn á fullt skrið og nóg að gera. Kannski má segja að ég sé heppin að hér sé lélegt símasamband og 3G eitthvað sem hér hefur aldrei þekkst. Því þrátt fyrir að álagið sé mikið og verkefnin mörg í sveitinni ríkir þó einhvers konar ró.

Hafið þið einhverja hugmynd um hversu löngum tíma á dag þið verjið með nefið ofan í ýmist tölvu- eða snjallsímaskjá? Sér í lagi á ég þá við þann tíma sem fer í að skoða samfélagsmiðla. Sjálf ver ég að jafnaði líklega fleiri klukkustundum við þá iðju á dag en ég þori að viðurkenna. Það liggur við að manni verði flökurt við tilhugsunina.

Fletta upp og fletta niður. Refresh. Ekki einu sinni endilega að líka við, deila eða skrifa athugasemdir. Bara fletta. Flakka á milli Facebook, Snapchat, Twitter, Instagram og hvað það nú heitir allt saman. Og svo endurtaka.

Stöðugt áreiti

Fyrir námsmann með frestunaráráttu á háu stigi er þetta hvimleiður tímaþjófur sem vissulega er þó sjálfskaparvíti. Engum öðrum en sjálfri mér get ég um það kennt hversu mikill tími fer í þennan fjanda. En það sem meira er, þá er ekki aðeins um að ræða tímaþjóf heldur einnig svakalegt áreiti – eða friðþjóf eins og ég kýs að kalla það. Stanslausar tilkynningar, pop-up gluggar, píp og blikk. Endalaust. Ég tók mig einu sinni til og slökkti á öllum þessum tilkynningum í símanum í von um að þá væri ég ekki að taka upp símann í sífellu. En hvað kemur í staðinn? Jú, áminning um það að ég ætti að kveikja aftur á tilkynningunum svo ég missi örugglega ekki af neinu og sjái allt um leið.

Það er ekki eins og heimsendir sé á næsta leyti ef maður kíkir ekki strax. Oftast er þar ekkert merkilegra á ferðinni en mynd af kvöldmati vinkonunnar, krúttlegt myndband af börnum kunningja eða einhver að minna mig á hvað hann er duglegur að mæta í ræktina með selfie af sér fyrir utan World Class. Stundum er það kannski boð á fund, vinnutengdur tölvupóstur eða jafnvel skemmtilegar fréttir. En ef um er að ræða eitthvað áríðandi sem maður ætti að vita strax held ég að sem betur fer viti flestir að það er alltaf hægt að taka upp símann og hringja.

Á meðan ég er í vinnunni vil ég þó meina að ég sé í fríi hvað þetta varðar. Síminn yfirleitt ofan í tösku og einbeitingin á réttum stað. Vissulega þó með nefið ofan í tölvuskjá, en á allt öðrum forsendum. Þar er ég að gera eitthvað, gera eitthvað sem gerir gagn. Það er skjátími sem ekki fer til spillis.

Óþolandi lúxus

Með þessu á ég vissulega ekki við það að samfélagsmiðlar séu alslæmir. Þvert á móti þá eru þeir tær snilld. Það er gott og gaman að vita hvað vinir, kunningjar og fjölskylda eru að bardúsa, vera með á nótunum og fylgjast með umræðunni og taka þátt í henni. Alls ekki hætta að senda mér Snapchat, skilaboð á Facebook eða tagga mig á Instagram. Ég er fyrst og fremst að minna sjálfa mig á það að ég þarf ekki að opna símann á fimm mínútna fresti.

Örugglega 80% af þeim tíma sem ég eyði á samfélagsmiðlum er illa nýttur tími. Ég er ekki að gefa nokkurn skapaðan hlut af mér, ég er ekki að læra neitt, ég er ekki að njóta og er hvorki að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir sjálfa mig né aðra. Ég nyti þess miklu frekar að lesa góða bók, fara í göngutúr, eða þess vegna að leggja mig. En nei, hver hefur tíma fyrir það í dag?

Hér er ég líklega ekki að segja ykkur neinar fréttir og eflaust eru margir í sama pakka en mér fannst tímabært að færa í orð það sem ég hugsa með sjálfri mér á hverjum degi. Kannski nú þegar ég segi það upphátt mun ég girða mig í brók og kaupa mér tvo til þrjá nýja klukkutíma í sólarhringinn til að gera eitthvað gáfulegra. Enginn annar en ég sjálf mun temja mér aga og sjálf ætla ég að byrja núna. Vonandi verða það ekki orðin tóm, þeir sem vilja eru velkomnir með mér út í göngutúr eða við stofnum bókaklúbb. En síminn verður á silent.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

Pistlahöfundur

Elín Margrét er nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fréttamaður á Stöð 2. Hún starfaði áður sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu og ritstýrði Stúdentablaðinu skólaárið 2016-2017. Hún er einn stofnenda og fyrrverandi varaformaður ungmennaráðs UN Women á Íslandi og hefur einnig tekið þátt í starfi Vöku fls.