Tilgangurinn, meðalið og læknanemar

eftir Ritstjórn

Á þessum vefmiðli var í vikunni birtur pistill frá Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Þar lýsti hún reynslusögum, aðallega kvenna, af því hvernig læknanemar fylgdust með og jafnvel tóku þátt í viðkvæmum aðgerðum og skoðunum án þess að fá fyrir því samþykki sjúklingsins.

Í sömu grein var einnig tekið fram að nemana sjálfa bæri þó ekki að áfellast fyrir þá óforskömmuðu framgöngu heldur væri ábyrgðin að sjálfsögðu læknanna sem leiðbeindu þeim. Hvergi í greininni er vilji, geta eða hæfni læknanema dregin í efa.

Ragnhildur Alda María vitnaði til laga og reglna í þessu samhengi og benti á að slíkt framferði færi þvert gegn landslögum. Eins og það ætti að gera. Framkvæmdastjóri lækninga á LSH mætti síðar í fréttirnar og sagðist harma þessi tilvik og að þau væru áminning um að gera þyrfti betur í utanumhaldi um nema.

Í kjölfarið spannst nokkuð fróðleg umræða á Facebook síðu eins læknanema sem hafði ýmislegt við grein Ragnhildar Öldu Maríu að athuga. Í stuttu máli fannst umræddum læknanema lítið gert úr læknanemum sem gerðu sitt besta á ólaunuðum vöktum og veittu stundum jafnvel betri þjónustu en fullgildir læknar. Henni þótti lýsingar Ragnhildar Öldu Maríu ógeðfelldar og ósanngjarnar og taldi greinina beinlínis ýta undir fordóma gagnvart læknanemum. Þá sagði hún frásagnir Ragnhildar ekki endurspegla raunveruleikann á spítalanum því í langflestum tilfellum væri fólk beðið um leyfi áður en nemi væri viðstaddur eða tæki þátt í skoðun eða aðgerð. Þessi ummæli læknanemans og undirtektirnar sem þau hafa fengið meðal annarra læknanema vekja miklar áhyggjur.

Ragnhildur Alda María vitnar til raunverulegra reynslusagna sjúklinga sem sótt hafa þjónustu á Landsspítalann og upplifað að traust þeirra og trúnaðarsamband við lækni hafi verið brotið. Meðal annars er rætt um konur sem hafa ekki fengið að taka upplýsta ákvörðun um það hverjir eiga við eða sjá líkama þeirra eða líkamshluta á viðkvæmum stundum.

Slík tilfelli, hvort sem þau eru undantekning eða regla, þurfa ekki að vera mörg til þess að teljast alvarleg. Komi þau yfirhöfuð fyrir er það tilefni til að taka út þjónustuna með velferð og vellíðan sjúklinga að leiðarljósi.

Það er einfaldlega ekki ásættanlegt að viðbrögð læknanema, eða annars heilbrigðisstarfsfólks ef því er að skipta, við reynslusögum sjúklinga séu að þær lýsi ekki raunveruleikanum eins og þau upplifi hann og talað sé um rangfærslur í þeim efnum. Að þau stuðli að fordómum gagnvart læknanemum og séu stuðandi eru einnig afar einkennileg viðbrögð. Eitt það mikilvægasta sem heilbrigðisstarfsfólk getur tileinkað sér er auðmýkt og vilji til að hafa þjónustuna ávallt eins góða og hægt er. Til þess þarf að hlusta á sjúklinga. Það virðist framkvæmdastjóri lækninga á Landsspítalanum vita.

Að lokum má taka fram að grein Ragnhildar snýst ekki um læknanema. Það er einfaldlega verið að biðja um að friðhelgi einkalífs sé virt sem og sjálfákvörðunarréttur sjúklinga. Það ættu læknanemar að sjá sem sjálfsagða og eðlilega kröfu.

Ef afstaðan sem birtist í færslu læknanemans er lýsandi fyrir hinn dæmigerða læknanema, og þar með komandi kynslóðir lækna, er hætt við því að kerfið muni snúast minna um sjúklinginn og meira um þá sem veita þjónustuna. Það er varla björt framtíðarsýn fyrir Landspítalann.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.