Tilfinningagreind og tilvistarvandi drengja

eftir Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Sonur minn er níu mánaða tilfinningabúnt. Hann er með ríka tjáningarþörf og við faðir hans eigum þar af leiðandi oftast auðvelt með að átta okkur á hvernig honum líður án þess að hann kunni að tala. Flest börn eru þannig. Það skiptir litlu hvort þau eru karlkyns eða kvenkyns. Tilfinningar eru eðlilegar og allir hafa þær. En mannfólkið kann misvel á tilfinningar. Að skilja þær, vinna úr þeim og stýra. Bæði sínum eigin og annarra. Og það hefur áhrif. Á sambönd, á lífsgleðina, á starfsframa. Af hverju erum við þá að fela þær?

Tilfinningagreind var áður umdeilt hugtak en er almennt viðurkennd í dag og þykir eftirsóknarverð. Hugtakið snýst í grunninn um hæfni einstaklings til að skilja, þekkja og stjórna sínum eigin tilfinningum, að auðkenna, skilja og taka tillit til tilfinninga annarra og færni í mannlegum samskiptum. Það er fátt sem henni tengist sem er svart á hvítu, vísindalega sannað og staðfest en til er glás af rannsóknum sem margar hverjar segja að tilfinningagreind sé blanda af erfðum, umhverfi og uppeldi. Og hún hefur áhrif á allt lífið okkar.

Sambönd eru flókin, sama af hvaða toga þau eru. Getan til að tjá sínar eigin tilfinningar, hlusta af athygli og skilja líðan annarra getur skipt sköpum. Ef fleiri hefðu yfirburðahæfni á því sviði væru skilnaðartilfelli eflaust færri, vinasambönd langlífari og dýpri, ástarsambönd innilegri og fjölskyldubönd sterkari. Þýðingameiri sambönd leiða oftar en ekki til hamingjusamari einstaklinga. Og hvað er hamingja annað en tilfinning? Tilfinning sem byggð er á jafnvægisástandi þegar við náum að stýra okkur sjálfum á lygnan sjó.

Í heimi þar sem tækni tekur yfir, býr að stærri gagnagrunni en manneskjan, tekur yfir störf og hvílir starfsemi heilans, leggja æ fleiri fyrirtæki enn frekari áherslu á tilfinningagreind starfsfólks. Þetta er hæfni sem mun skera úr um, og gerir kannski nú þegar að einhverju leyti, hverjir verða stjórnendur og leiðtogar framtíðarinnar. Ég hugsa um son minn og velti fyrir mér hvernig ég get hjálpað honum að verða sér út um vænan skammt af tilfinningagreind.

Hún er nefnilega ekki sjálfgefin. Sérstaklega ekki hjá strákum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að konur búi yfir talsvert meiri tilfinningagreind en karlar. Þær eru stjórnendur framtíðarinnar og hamingjustólpi samfélagsins. Og búa margar hverjar með tilfinningalega kúguðum karlmönnum. Karlmönnum sem hafa kannski aldrei fengið að upplifa gleðina sem fylgir því að gráta í fanginu á góðum vini, fundið frelsið sem fylgir því að ræða hnútinn í maganum þangað til hann hverfur og tengjast öðrum í trúnaði með því að deila djúpum hugsunum, löngunum og hugmyndum um sjálfið.

Konur eru nefnilega ekki eina kynið sem búið hefur við ójafnrétti. Karlmenn hafa ekki mátt tjá sig. Opna sig. Lært að sýna djúpa samkennd með öðrum. Því samfélagið bauð ekki upp á það. Uppalendur hlýddu. Uppsöfnuð tilfinningastífla og vanhæfni til að virða og skilja líðan annarra leiðir líka til aðgerða sem koma niður á konum. Þetta helst allt í hendur. Jafnréttið sem við ræðum um, stefnum að og sjáum í hillingum mun aldrei verða nema samfélagið gefi strákunum gaum og átti sig á að þetta hefst allt með samskiptum. Opnum samskiptum. Og talsvert af tilfinningagreind.

Ég vil ekki að sonur minn alist upp í heimi þar sem öll athygli beinist að konum og fréttir um misgóða karlmenn eru fyrirferðarmestu fyrirsagnirnar. Ég vil að hann fái tækifæri til að rækta sína tilfinningagreind, haldi áfram að tjá sig, deili með okkur foreldrunum og heiminum sælu sinni og sorg. Þrói hæfnina að skilja aðrar sálir, varist ekki að vera viðkvæmur og líða vel. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Hvort hann vilji svo nýta þessa færni í stjórnun eða sorphirðu, það verður hans val.

Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Pistlahöfundur

Vinga er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá IE Business School Í Madrid og Bs gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands/University of Wyoming. Hún starfar í dag sem markaðsstjóri hjá bandaríska hátæknifyrirtækinu NetApp. Áður hafði hún að mestu fengist við markaðsmál, almannatengsl og vörumerkjastjórnun ásamt því að koma að fyrirtækjarekstri og frumkvöðlastarfsemi.