Til varnar einkabílnum

eftir Oddur Þórðarson

Síðustu ár og áratugi hefur umferð bifreiða aukist verulega um Reykjavíkurborg og nærliggjandi sveitarfélög. Stofnbrautir borgarinnar eru fyrir löngu sprungnar og þolinmæði margra er á þrotum. Þeir íbúar borgarinnar, sem um hana aka á leið í vinnu eða skóla á morgnana, mega þola langar biðraðir á gatnamótum, holur í malbikinu og hvaðeina, til þess eins að þola þetta svo aftur síðdegis þegar heim úr vinnu eða skóla er haldið. Það virðist vera sú stefna meirihlutans í borginni að þrengja æ meira að þeirri samgönguleið sem flestir borgarbúar kjósa að nota, einkabílnum. Um ágæti þess að fækka einkabílum á götum borgarinnar má eflaust mörgum orðum skipta en staðreyndin er samt sem áður sú að flestir kjósa heldur að aka um á einkabílum en að nota almenningssamgöngur og því þarf að koma til móts við þennan hóp. Það liggur í augum uppi að borgarstjórnarmeirihluti Dags B. Eggertsonar skortir framtíðarsýn í skipulagsmálum sé horft til aukinnar umferðar einkabíla á næstu áratugum.

Borgaryfirvöld þurfa að hugsa til framtíðar

Þær stofnbrautir sem borgarbúar aka um í dag, t.a.m. Miklabraut, Vesturlandsvegur, Reykjanesbraut og Sæbraut, teppast á morgnana þegar fólk keyrir til vinnu og eru svo aftur orðnar yfirfullar þegar keyrt er heim að vinnudeginum loknum. Við þetta ástand eiga borgarbúar ekki að þurfa að una en það getur tekið allt að klukkustund að keyra úr miðborginni í sum úthverfi borgarinnar þegar verst lætur. Þegar borgin svo stækkar á næstu áratugum og ný hverfi byggjast upp á jaðri borgarinnar mun tíminn sem fer í akstur úr miðborginni til úthverfanna aukast með tilheyrandi óþægindum íbúa úthverfa, en einnig þeirra sem búa miðsvæðis og næst stofnbrautunum.

Sem dæmi um þessi óþægindi má nefna að sumir íbúar í Hlíðum geta ekki haft glugga sína opna á ákveðnum tíma dagsins vegna hávaða og mengunar. Það er því morgunljóst að til þess að vera betur í stakk búin fyrir fólksfjölgun næstu áratuga þurfa borgaryfirvöld að hugsa til framtíðar með byggingu nýrra stofnbrauta. Slíkar framkvæmdir auka ekki bara lífsgæði heldur stuðla þau að frekara öryggi borgarbúa og íbúa nærliggjandi sveitarfélaga. Komi til þess að rýma þurfi borgina verður að vera hægt að treysta á öruggt og einfalt gatnakerfi inn og út úr borginni.

Óraunhæf óskhyggja borgarmeirihlutans

Með þrengingu Grensásvegar kristallast vilji meirihlutans að þrengja að borgarbúum með framkvæmdum í þágu einhverrar óskhyggju um að í Reykjavík eigi ekki að vera þörf á einkabíl o.s.frv. Raunar endurspeglast óskhyggjan best í ákvörðun meirihlutans að eyða öllu því fé, sem Reykjavíkurborg fær úthlutað úr ríkissjóði til reksturs í samgöngumálum á árunum 2012 til 2022, í hjólreiðastíga og almenningssamgöngur. Þótt auðvitað sé mikilvægt að leggja hjólreiðastíga og halda uppi almenningssamgöngum, þá verða borgaryfirvöld að koma líka til móts við eigendur einkabíla og þar með langflesta íbúa borgarinnar. Í dag er ekki nóg af því gert.

Áhugaleysi borgaryfirvalda

Hugmyndir margra skipulagsfræðinga og áhugamanna um skipulagsmál hafa ekki vakið athygli borgaryfirvalda en flottar og vel útfærðar hugmyndir hafa litið dagsins ljós og má þar nefna Skerjabrautina svokölluðu, en hún gæti verið lausnin við öllum ofantöldum vandamálum sem steðja að borginni. Draumurinn um Sundabrautina er einnig mörgum kunnugur, þótt sumir kjósi að kalla drauminn frekar martröð, þar sem margir fluttu úr miðsvæði borgarinnar í úthverfin nánast eingöngu vegna áforma um byggingu Sundabrautar, sem svo auðvitað aldrei varð.

Borgarlínan

Þessi pistill væri sennilega ógildur sem pistill um skipulagsmál borgarinnar, væri ekki minnst á Borgarlínuna. Samkvæmt skýrslu Mannvits, sem gerð var fyrir Reykjavíkurborg, um Borgarlínuna, mun hún kosta að lágmarki 63-70 milljarða. Svo má alltaf gera ráð fyrir auknum kostnaði vegna vanþekkingar okkar Íslendinga á uppsetningu léttlestakerfis. Auk þess hefur engin alvöru, viðurkennd kostnaðaráætlun verið lögð fram, hingað til hefur bara verið giskað á kostnað við framkvæmdina. Niðurstöður rannsóknar við Álaborgarháskóla gera því svo skil að lestaframkvæmdir endi að meðaltali 45% framúr svartsýnustu kostnaðaráætlunum en vegaframkvæmdir aðeins 20%. Það er því ljóst að Reykjavíkurborg getur ekki staðið straum af kostnaði við framkvæmdina án aðkomu ríkisins. Uppbygging stofnbrauta myndi því betur svara kalli og vilja borgarbúa en fyrrnefnd Borgarlína.

Þótt almenningssamgöngur, hjólreiðastígar o.þ.h. sé allt mjög mikilvægt og gott, þá verður borgin fyrst og fremst, í stað þess að taka fram fyrir hendur borgarbúa,  að lúta vilja flestra þeirra. Sá vilji er að aka um á einkabíl. 

Oddur Þórðarson

Stjórn & pistlahöfundur

Oddur er nemi á lokaári á nýmálabraut við Menntaskólann í Reykjavík og situr í stjórn Heimdallar. Hann hefur mikinn áhuga á málefnum ungs fólks og öllu því sem snýr að íþróttum og menningu.