Þýskalandsmeistari Ítalíu

eftir Guðmundur Snæbjörnsson

Daniele Biffi er Ítali á fimmtugsaldri. Hann er búsettur í Berlín og starfar sem einkaþjálfari. Í frístundum sínum stundar hann spretthlaup. Þar sem hann er búsettur í Berlín þá tekur hann þátt í hlaupum fyrir þýska íþróttaklúbbinn TopFit og hefur gefið eftir rétt sinn til að keppa fyrir ítalskt íþróttafélag.  Hann hefur keppt fyrir TopFit frá árinu 2012.

Á þeim tíma sem hann hefur verið búsettur í Berlín þá hefur hann tekið þátt í ótalmörgum hlaupum og unnið mörg þeirra. Hann er því margfaldur þýskalandsmeistari í spretthlaupi áhugamanna yfir 35 ára aldri þrátt fyrir að vera ekki þjóðverji.

Árið 2016 var regluverki þýska frjálsíþróttasambandsins (þ. Deutscher Leichtathletik Verband) breytt á þá leið að þjóðverjar geta einir orðið þýskalandsmeistarar og tekið þátt í mótum um þann titil. Það var mat sambandsins að það grafi undan tengslum þjóðverja við keppnina ef að erlendir íþróttamenn væru í sífellu að sigra innlenda titla og þá gæti það gert þýskum íþróttayfirvöldum erfiðara fyrir þegar þau væru að velja íþróttamenn til að keppa fyrir sig á erlendum grunni.

Því vildu Daniele Biffi og TopFit ekki una. Biffi hefur verið búsettur í Þýskalandi í lengri tíma og hann hefur auglýst þjónustu sína sem einkaþjálfari m.a. með tilvísun í afreksferil sinn á hlaupabrautinni. Hann taldi að sér væri mismunað á grundvelli þjóðernis og hefur málið að lokum ratað fyrir Evrópudómstólinn.

Evrópudómstóllinn hefur í gegnum tíðina talið að íþróttir teljist til Evrópuréttar að því leyti sem íþróttir eru efnahagslegar (e. economic activity). Mál Daniele Biffi snýr hins vegar ekki að atvinnu hans heldur hlaupum sem hann stundar sem áhugamál. Þó er mögulega hægt að halda því fram að hlaupaiðkunin sé hluti af atvinnu hans þar sem hann auglýsir titlanna á einkaþjálfunarsíðu sinni. Ef Evrópudómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að hlaupin séu hluti af atvinnu hans þá þarf einungis að meta hvort að reglurnar gæti meðalhófs og stefni að lögmætu markmiði.

Þá verður að líta til þess hvort það sé lögmætt markmið að útlendingur geti ekki orðið innlandsmeistarar og hvort ekki sé hægt að krýna þýskalandsmeistara án þess að banna Daniele Biffi að taka þátt? Hversu mikið grefur það undan keppninni ef Ítalinn hefur áður unnið.

Áhugaverðast væri ef Evrópudómstóllinn myndi telja að íþróttaiðkunin sé ekki hluti af atvinnu Biffi. Þá þyrfti Evrópudómstóllinn að líta til þess hvort að hlaup hans, sem myndu teljast til frístundaiðkunar, falli innan reglna Evrópuréttar og þá í lögskiptum á milli tveggja einkaaðila. Ef svo fer þá væri búið að leggja grunn fyrir þeirri ályktun að reglur Evrópuréttar nái til áhugamannaíþrótta. Áhrifin af slíkri niðurstöðu væru óljós en líklega þyrfti mörgu regluverki að breyta innan Evrópu og íþróttasamtök myndu reyna að finna hvar vikmörk reglunnar liggja.