Þurfum við þessa frumkvöðla?

eftir Elísabet Erlendsdóttir

Nú í aðdraganda kosninga gera stjórnmálaöflin grein fyrir áherslum sínum í helstu málaflokkum. Flestir stjórnmálaflokkanna setja menntamál á oddinn enda mikilvægt efnahagsmál fyrir komandi kjörtímabil. Vel menntaðir einstaklingar viðhalda stöðugleika efnahagsins og eru atvinnulífinu til mikilla hagsbóta. Hér er um að ræða kjörið tækifæri fyrir alla flokkana að eiga samtal við námsmenn um þeirra helstu hagsmunamál, sérstaklega í ljósi þess að áhugi ungs fólks á kosningum virðist hafa dvínað. Flokkarnir hafa þó hvorki tilgreint hvernig skuli auka gæði náms né hvernig skuli með skynsömum hætti ráðstafa þeim fjármunum sem varið er í menntakerfið.

Mikilvægi menntunar ótvírætt

Öflugt menntakerfi er hagsmunamál íslensks samfélags, það eykur samkeppnishæfni þjóðarinnar og styrkir íslenska hagkerfið í alþjóðlegum samanburði. Í háskóla eru einstaklingar undirbúnir fyrir þátttöku á atvinnumarkaði með sérhæfðari hætti en á fyrri námsstigum. Jafnframt er meginmarkmið háskóla að framboð og gæði náms séu til þess fallin að eftirspurn og kröfum atvinnulífs eftir hæfu vinnuafli sé mætt.

Samkeppnishæfni þjóða helst í hendur við öflugt og skapandi starf í háskólum en þröskuldur aukins hagvaxtar næstu ára er skortur á raunvísinda- og tæknimenntuðu fólki. Til að auka fjölbreytni atvinnulífsins er því mikilvægt að efla nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi í háskólum hérlendis með því að gera öllum háskólanemum grein fyrir atvinnutækifærunum sem felast í frumkvöðlastarfsemi. Hætt er við að óbreytt staða dragi úr samkeppnishæfni og vaxtartækifærum Íslands.

Efnahagslegur ábati af frumkvöðlastarfsemi

Þeir háskólar sem bjóða upp á nám þar sem rík áhersla er lögð á að nemendur öðlist fræðilegan grunn á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlafræði auka færni nemenda sinna í úrlausnum á þverfaglegum verkefnum. Í kjölfarið skila betur upplýstir einstaklingar sér út í atvinnulífið og efnahagslegur ábati samfélagsins verða einstaklingar sem geta greint möguleg tækifæri á markaði og jafnvel stofnað fyrirtæki. Þessi fyrirtæki skapa ný störf, auka samkeppni fyrirtækja á markaði og auka framleiðni með hugviti og tækninýjungum sem ýtir undir vöxt í hagkerfinu auk þess að vera aflvaki aukinnar framleiðni. Því má ætla að mörg sóknartækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf felist í nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi námsmanna í íslenskum háskólum.

Áhugaleysi stjórnvalda

Í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um stöðu nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi á Íslandi eru íslensk stjórnvöld harðlega gagnrýnd fyrir áhugaleysi á þessu sviði. Þar kemur fram að íslenskir stjórnmálamenn virðast ekki gera sér grein fyrir mikilvægi frumkvöðlastarfsemi og tækifærunum sem fylgja aukinni nýsköpun. Því er yfirborðskennd umræða um eflingu menntakerfisins byggð á auknum ríkisútgjöldum án þess að lögð sé fram áætlun eða markmið ekki til þess fallin að leysa þær áskoranir sem staðið er frammi fyrir. Setja þarf fram heildstæða stefnu með aukna hagsæld á Íslandi að leiðarljósi með áherslu á nauðsyn þess að byggja upp hugvitsdrifnar greinar með hagnýta menntun í forgrunni.

Elísabet Erlendsdóttir

Pistlahöfundur

Elísabet er með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólann í Reykjavík, fædd og uppalin á Egilsstöðum. Hún starfar á sviði Viðskiptalausna hjá Advania en hennar helstu áhugamál eru nýjungar í tækni- og nýsköpunargeiranum og jafnréttismál. Hún situr í stjórn Ungra athafnakvenna og gegndi embætti formanns Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík skólaárið 2015-2016.