Þurfa konur ekki laun?

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Margir ferðast þúsundir kílómetra og borga fúlgur fjár til þess að gegna sjálfboðaliðastarfi í bágstöddu landi. Að sama skapi vinnur fjöldinn allur af sjálfboðaliðum á einni stærstu stofnun landsins, Landspítalanum. Veitingasala Hringskvenna og Rauðakrossbúðin eru til dæmis reknar af sjálfboðaliðum. Það er beinlínis gert ráð fyrir gjöfum og fjárframlögum til tækjakaupa í rekstraráætlun spítalans og samkvæmt framkvæmdastjóra fjármálasviðs spítalans var reksturinn jákvæður árið 2015, m.a. vegna fjölmennra verkfalla starfsfólks og niðurfellingu aðgerða í kjölfarið. Þá starfar fjöldi nema í verknámi og jafnvel fagmenntaðir starfsmenn einnig á spítalanum, launalaust.

Stéttaskipting og mismunun

Frá upphafi kennslu í ljósmóðurfræði (í byrjun síðustu aldar) og allt til ársins 2014 voru ljósmæðranemum í starfsnámi greidd laun. Árið 2014 var fallið frá því í einni svipan. Var sú ákvörðun byggð á hagræðingu en einungis 10 nemar eru teknir inn í ljósmóðurfræði á hverju ári og því var ekki um neina stórkostlega hagræðingu að ræða. Samt var haldið áfram að greiða hjúkrunarfræðingum í skurð- og svæfingarnámi laun í þeirra námi og beitti framkvæmdarstjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans þeim rökum að það nám væri skipulagt af spítalanum en ekki háskólunum. Þessi rök halda engu vatni. Auðvitað ætti að gæta samræmis í launagreiðslum nema í starfsnámi á spítalanum. Skammarlegt er hversu veik rök þurfti til að réttlæta slíka mismunun. Sérstaklega í ljósi þess að ljósmæður, líkt og aðrar kvennastéttir, hafa ætíð þurft að berjast hart fyrir menntun sinni og launum. Þessar breytingar voru því mikil afturför í baráttu þeirra.

Vinna meðfram námi

Ljósmóðurfræði er að mestu leyti klínískt nám. Greinin felur í sér fræðilegt bóknám fyrstu önnina en síðan taka við 1600 klukkustundir af ólaunaðri vaktavinnu í verknámi á hinum ýmsu heilbrigðisstofnunum landsins. Þar sem ljósmóðurnám er framhaldsnám í hjúkrunarfræði hafa ljósmæðranemar því alls tekið 320 ólaunaðar vaktir sem spanna 2560 klst (m.v. að hver vakt sé 8 klst) þegar þeir útskrifast eftir sex ára háskólanám. Með því að líta framhjá þessu er lítið gert úr vinnuframlagi þeirra nema sem vinna oftast mjög sjálfstætt á seinni stigum námsins og eru því mikill fengur fyrir Landspítalann og hinar ýmsu stofnanir.

Þar sem þessar skyldu-verknámsvaktir skiptast í morgun-, kvöld-, nætur- og helgarvaktir, reynist ljósmæðranemum nær ómögulegt að vinna með skóla. Sé það gert bitnar það iðulega á náminu. Sama ár og hætt var að greiða ljósmæðranemum laun fyrir verknámsvaktirnar (2014) tóku um 70% ljósmæðranema námslán frá LÍN. Til samanburðar tóku um 44% lánshæfra námsmanna við Háskóla Íslands námslán það árið samkvæmt tölum frá LÍN fyrir skólaárið 2014-15. Þetta eru sláandi tölur sem sýna að þörf á fjárstuðningi í ljósmæðranáminu er mikill. Þá hefur aðsókn í ljósmóðurnám minnkað talsvert eftir breytingarnar, en í ár sóttu helmingi færri um námið en árin á undan.

Breytingar á fjárframlögum til LSH

Í sumar boðaði heilbrigðismálaráðherra breytingar á fjárframlögum til Landspítalans. Það verður að teljast mjög jákvæð þróun þar sem framlög til Landspítalans ættu að sjálfsögðu að velta á því hvaða þjónusta fer þar fram hverju sinni. Til stendur að kostnaðargreina þjónustuna eftir alþjóðlega DRG flokkunarkerfinu og framlög verða veitt samkvæmt því. Gert er ráð fyrir að klínísk starfsemi spítalans, sem er um 80% rekstrarins, verði framleiðslutengd en önnur verkefni (20%) svo sem kennsla og rannsóknir, stofnkostnaður, meiriháttar viðhald o.fl. verði fjármögnuð eftir föstum fjárlögum.

En hvernig reiknast sá kostnaður sem tengist kennslu og vísindum á Landspítalanum? Á háskólasjúkrahúsi fléttast saman þjónusta, kennsla og rannsóknir og því erfitt að ákvarða hvað hver þáttur kostar einn og sér. Háskólasjúkrahús eru þannig dýrari en önnur sjúkrahús og því er mikilvægt að viðurkenna hlutverk Landspítala sem menntastofnun þegar fjárframlög til spítalans eru reiknuð. Yfirvöld mennta- og heilbrigðismála í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við hafa viðurkennt þetta með sérstöku álagi á DRG, eða með beinum greiðslum. Víða er þessi kostnaðarviðurkenning allt að 30%. Ef það á að vera hægt að rekja allt að 30% af rekstri spítalans til háskóla- og menntunarhlutverks hans þarf að bregðast við því. Það væri t.d. hægt að gera með sérstökum greiðslum frá menntamálaráðuneyti eftir fjölda nemenda.

Hvert stefnum við?

Eitt stærsta vandamálið sem blasir við íslensku heilbrigðiskerfi í dag er skortur á menntuðu fagfólki. Nemar í heilbrigðisvísindum þurfa að verja miklum tíma í ólaunuðu verknámi, klínískt kennslupláss á spítalanum er af skornum skammti og Háskóli Íslands megnar ekki, sökum fjárskorts, að setja meiri pening í kennslu og þjálfun þessara nema. Hvorki heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir verklegri kennslu né nemendur í verknámi fá greitt fyrir vinnu sína. Það að bæði kennarar og nemendur skuli vera í sjálfboðastarfi á spítalanum í aðstæðum sem varða líf fólks er með öllu ólíðandi.

Ljósmæður eru mikil kvennastétt en á Íslandi hafa einungis konur verið ljósmæður. Kjör og réttindi þeirra hafa mikið skerst síðustu ár og verður það ekki slitið úr samhengi við jafnréttisbaráttu kvenna. Það er hvort tveggja í senn, niðurlægjandi og óásættanlegt. Fæðingar hafa fylgt okkur frá upphafi og börn munu halda áfram að fæðast um ókomna tíð. En þar sem viðfangsefni ljósmæðra verða sífellt flóknari vegna fjölgun ýmissa vandamála kvenna á meðgöngu, svo sem meðgöngusykursýki, meðgöngueitrun og offitu, er nauðsynlegt að tryggja að þær fái viðeigandi menntun. Því er löngu kominn tími til að menn herði upp hugann og sýni alvöru dug til að fjárfesta í íslensku heilbrigðiskerfi með því að verja meiri fjármunum í menntun og utanumhald verðandi heilbrigðisstarfsfólks. Ekki bara í steypt mannvirki. Mannauður og þekking eru þær meginstoðir kerfisins sem munu byggja það upp til framtíðar.

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.