Þú færð starfið – en ekki launin

eftir Pétur Marteinn Urbancic Tómasson

Ég heyrði eitt sinn að ef maður hefði ekki nægilega gaman að starfi sínu til að vera tilbúinn að vinna frítt ætti maður að segja upp. Slík heimspeki er góð og blessuð en flestir vilja engu að síður fá borgað fyrir vinnuna sína, hvort sem hún er skemmtileg eða ekki.

Hér á landi hefur færst í aukana að ráða nemendur á háskólastigi í starfsnám (e. internship), sem bæði getur verið launað eða ólaunað. Í þessum pistli verður ólaunað starfsnám skoðað og gerð tilraun til að útskýra þá þróun sem hefur átt sér stað. Starfsnám laganema verður sérstaklega skoðað, annars vegar vegna þess að það hefur verið talsvert fjallað um það í fjölmiðlum að undanförnu og hins vegar vegna þess að starfsnemamarkaðurinn, ef svo má segja, er nokkuð stór hjá laganemum. Þau sjónarmið sem koma fram eru þó ekki bundin við laganema og má vel heimfæra á aðra nemendur og stéttir.

Svartir svanir og nokkrir góðir sumardagar

Þann 11. júní 2013 féll dómur í New York þar sem fallist var á að tveir nemar í ólaunuðu starfsnámi væru í raun starfsmenn og ættu að fá greitt sem slíkir. Starfsnemarnir unnu báðir við framleiðslu á myndinni Black Swan og annar þeirra einnig við myndina 500 Days of Summer.

Eric Glatt, annar nemanna, var með gráðu í margmiðlun og var í framhaldsnámi við New York University. Sem starfsnemi við Black Swan vann hann í bókhaldsdeild framleiðslufyrirtækisins, átta tíma á dag, fimm sinnum í viku í þrjá mánuði. Eftir að myndinni var lokið vann hann einnig tvisvar í viku í sex mánuði í viðbót. Hann fékk hvorki laun né einingar fyrir starfsnámið, sem hefur varað í rúmar 650 klukkustundir af hreinni vinnu.

Alexander Footman, hinn neminn, var útskrifaður úr kvikmyndafræði. Hann vann launalaust við Black Swan í sex mánuði, tíu tíma í senn, fimm sinnum í viku við framleiðsludeild myndarinnar. Eftir að hafa beðið um að fá að vinna aðeins þrjá daga í viku var hann rekinn úr (launalausa!) starfsnáminu.

Dómurinn telur upp sex skilyrði þess að heimilt sé að láta starfsnema vinna launalaust:

  1. Að þjálfun sé sambærileg við þá sem nemar myndu annars fá í umhverfi menntunar.
  2. Að reynslan úr starfsnáminu gagnist starfsnemanum.
  3. Að starfsneminn komi ekki í stað annars starfsfólks, heldur vinni undir eftirliti þeirra.
  4. Að vinnuveitandinn njóti ekki tafarlauss ávinnings (e. immediate advantage) af starfi starfsnemans, ef eitthvað er ætti starfsneminn frekar að vera vinnuveitanda byrði.
  5. Að starfsnemi eigi ekki endilega rétt á áframhaldandi starfi eftir að starfsnámi lýkur.
  6. Að báðir aðilar geri sér grein fyrir því að starfsnámið er ólaunað.

Þrátt fyrir að dómur í New York í Bandaríkjunum hafi að sjálfsögðu ekki fordæmisgildi hérlendis eru röksemdir dómsins sannfærandi og rökin eiga að mínu mati einnig við hérlendis. Af fenginni reynslu er líklega ástæðulaust að óttast að þessi skilyrði séu ekki uppfyllt í flestum tilvikum á Íslandi.

Helst ber að líta á skilyrði nr. 3 og 4. Dæmi eru um að ólaunaðir starfsnemar hafi komið í stað nema sem áður fengu laun en slíkt heyrir þó til undantekninga, að meginstefnu er verið að búa til nýjar stöður fyrir nemendur. Fjórða skilyrðið er erfiðara að meta almennt og þyrfti að skoða í hverju og einu tilfelli. Í þeim fáu tilvikum þar sem starfsnemar fá virkilega einföld störf sem verða að rútínu eftir nokkur skipti væri líklega hægt að segja að vinnuveitandi njóti tafarlauss ávinnings af starfi nemans.

Gleði starfsnema í Bandaríkjunum varði þó stutt. 2. júlí síðastliðinn felldi áfrýjunardómstóll áðurnefndan Black Swan dóm úr gildi. Dómurinn vitnaði í Hæstaréttardóm Bandaríkjanna í máli Walling v. Portland Terminal frá 1947, þar sem starfsmenn í þjálfun hjá lestarfyrirtæki voru ekki taldir starfsmenn og áttu þar með ekki rétt til lágmarkslauna.

Röksemdir Hæstaréttar í því máli voru að þeir sem voru í þjálfun hafi ekki komið í stað annarra starfsmanna, vinna þeirra hafi ekki flýtt fyrir starfi vinnuveitandans, þeir hafi ekki búist við að fá borgað, yrðu ekki endilega ráðnir eftir að þjálfun lyki og að þjálfunin var svipuð og nám í nálægum skóla. Röksemdir áfrýjunardómstólsins voru því svipaðar og dómsins á fyrsta stigi en rökin féllu með framleiðendum Black Swan. Mér er ekki kunnugt um að þessum dómi hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Samkeppnin og hagsmunirnir

Sjónvarpsþættirnir Suits kenna laganemum ekki mikið um lögfræði en tvennt má þó læra af þeim. Í fyrsta lagi hvernig maður getur misst lögmannsréttindi eins oft og mögulegt er á 40 mínútum. Í öðru lagi að samkeppnin sem birtist þar er nokkuð nærri raunveruleikanum.

Viðskiptablaðið birti frétt um daginn þar sem fram kom að atvinnuleysi lögfræðinga var 60% hærra í janúar 2016 en í janúar 2011. Á sama tíma hefur atvinnuleysi meðal annarra með háskólagráðu lækkað um 40%. Þegar atvinnuhorfur eru með þessum hætti gera laganemar hvað sem þeir geta til að öðlast forskot á samnemendur sína og keppinauta.

Atvinnuleysið má að sjálfsögðu rekja að hluta til þess að fleiri útskrifast hér á landi en áður. Nú útskrifa fjórir íslenskir háskólar lögfræðinga; Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn á Akureyri.[1] Til samanburðar eru fjórir háskólar sem útskrifa lögfræðinga í Danmörku, þrír í Noregi, fjórir í Finnlandi og sex í Svíþjóð.

Hagsmunir laganema sem sækja í þessu ólaunuðu starfsnám eru aðallega að fá verðmæta reynslu á meðan þeir eru í námi – reynslu sem þeir geta sett á ferilskrá og myndu annars ekki öðlast á meðan á námi stendur. Auk þess fær starfsneminn að kynnast þeim störfum sem hann mun líklega vinna við í framtíðinni og tækifæri til að sanna sig á viðkomandi vinnustað.[2] Að starfsnámi loknu fær nemandinn starfsnámið svo metið til eininga, 6 ECTS (7,5 í HR). Nemandinn fær því í raun forskot auk eininga.

Hagsmunir vinnuveitandans eru við fyrstu sýn augljósari og ekki eins tilfallandi og hagsmunir nemandans. Fyrst ber að sjálfsögðu að nefna að vinnuveitandinn fær starfsmann sem ekki þarf að greiða laun. Eins og áður sagði getur þó vel verið að neminn sé vinnuveitanda frekar til trafala en góðs. Hagsmunir vinnuveitandans eru þá frekar að kynnast starfsnemanum og meta hvort bjóða eigi áframhaldandi (launað) starf.

En má þetta?

Reglur háskólanna eru mjög skýrar um að starfsnám sé heimilt og hafa þeir sett sér reglur um starfsnám.[3] Reglurnar í HR og á Bifröst kveða sérstaklega á um að starfsnám skuli vera ólaunað en reglurnar í HÍ heimila bæði launað og ólaunað starfsnám. Það kemur líklega ekki á óvart að launað starfsnám er margfalt vinsælla en hið ólaunaða innan veggja HÍ og sækja mun fleiri nemendur í það. Það má því ætla að vinnuveitendur endi með hæfari starfsnema sé viðkomandi á launum.

Reglur sem háskólarnir setja geta þó að sjálfsögðu ekki trompað landslög. Ef að landslög og reglurnar reynast ósamrýmanlegar verða lög ofan á.

Bandalag Háskólamanna (BHM) gerði um daginn athugasemd við launalaust starfsnám sem WOW air auglýsti. Í bréfi BHM kemur fram að samtökin telji slíkt fyrirkomulag brjóta í bága við kjarasamninga sem Stéttarfélag lögfræðinga á aðild að. Í þeim kjarasamningum sé kveðið á um lágmarkslaun og að vinnuveitendum sé með öllu óheimilt að ráða til sín starfsmann á lakari kjörum.

Þar er vitnað til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í henni segir: „Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör […] fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein […]. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.”

Starfsnám er þó launað í einhverjum skilningi, þ.e. með sex einingum fyrir 160 klukkustunda vinnu, sé miðað við Háskóla Íslands. Vinnan sem starfsnemar vinna er oft seld út á lögfræðitaxta og skapar viðkomandi fyrirtæki því tekjur.

En geta einingar verið fullnægjandi greiðsla ef um arðbæra vinnu er á annað borð að ræða? Með lögum nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups var lögfest sú meginregla að laun skuli greidd í peningum. Þessi regla var sett til að tryggja að verkafólk fengi raunverulega greitt fyrir vinnu sína, í stað þess að fá greitt í inneignarnótum hjá kaupmönnum og til að hindra óeðlileg völd atvinnurekenda.[4]

Ekki hefur reynt á mál af þessu tagi fyrir íslenskum dómstólum og því er nokkur óvissa um réttarástandið, enda sýnist sitt hverjum. Það væri þó áhugavert að sjá hvernig slíkt mál færi, kæmi það til kasta dómstóla.

Pattstaða – þú getur ekki leikið

Nemendur eru ekki einungis í samkeppni sín á milli heldur eru háskólarnir einnig í samkeppni. Þannig er erfitt fyrir einn háskóla að ætla að hætta með ólaunað starfsnám ef að hinir háskólarnir eru ekki til í að spila með.

Sá skóli verður þá einfaldlega undir í samkeppninni á vinnumarkaðnum, þar sem að fólk með reynslu er frekar ráðið en þeir sem hafa hana ekki. Svo einfalt er það. Það er því uppi einskonar pattstaða hjá háskólunum og á meðan þurfa nemendur að vinna frítt til að öðlast reynslu til að eiga möguleika, en ekki staðfestingu, á að fá ákjósanlega vinnu að námi loknu.

Starfsnám getur vel verið af hinu góða í hófi en svo þarf þó ekki að vera. Sé nemandi einfaldlega að skapa verðmæti fyrir vinnuveitanda ætti hann að sjálfsögðu að fá borgað. Við viljum ekki enda eins og starfsnemarnir í Black Swan málinu – með hundruðir vinnustunda á bakinu án launa. Það er því að mínu mati kominn tími til að háskólarnir ræði sín á milli og spyrji sig í hvað stefni. Á meðan bíða nemendur óþreyjufullir í launalausum störfum.

 

[1] Háskólinn á Akureyri sendir nemendur ekki í starfsnám svo ég viti. Ekkert er um það að finna á heimasíðu háskólans.

[2] Sjá nánar Helga Melkorka Óttarsdóttir: „Hugleiðingar um starfsnám laganema á lögmannsstofum“, Úlfljótur, 2. tbl. 2015, bls. 299-300.

[3] Sjá nánar á heimasíðum skólanna: Reglur um námsvist nemenda í framhaldsnámi við lagadeild Háskóla Íslands samkvæmt 6. mgr. 93. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands, Leiðbeiningar um framkvæmd starfsnáms meistaranema við lagadeild Háskólans í Reykjavík og hvað Bifröst varðar Reglur um starfsnám í grunnnámi og Reglur um starfsnám í meistaranámi.

[4] Sjá nánar Halldór Oddsson: „Rökstólar“, Úlfljótur, 2. tbl. 2015, bls. 301-304.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Pétur Marteinn Urbancic Tómasson

Pistlahöfundur

Pétur Marteinn er laganemi við Háskóla Íslands og hefur starfað á Fasteignasölunni Borg og Lögmannsstofu Ingimars Ingimarssonar. Helstu áhugamál Péturs eru borðtennis og bókmenntir. Skrif hans í Rómi beinast einna helst að lögfræðilegum álitaefnum í samfélagsumræðunni og ljóðlist.