Þrúgandi þögn um ríkisfjármálin

eftir Ritstjórn

Þögn hefur ríkt á Alþingi síðustu vikur, að undanskildum samningaviðræðum um sæti í nefndum þingsins þó. Þess er ekki langt að bíða að leikar hefjist að nýju, því á fimmtudag kemur Alþingi saman til funda og þá verður fjör, líkt og venja er síðustu daga ársins. Á fimmtuda verða nefnilega tíu dagar til jóla og umræða um fjárlög í startholunum. Að jafnaði hefur fjárlagafrumvarpi þó verið dreift til þingmanna í september og því verður ekki annað sagt en að þau komi með seinni skipunum í ár. Sé heppnin með landanum í liði, fær hann kannski fjárlög í jólapakkann.

Vitanlega er ástæða seinagangsins sú, að boðað var til kosninga í lok októbermánaðar og leit ný ríkisstjórn ekki dagsins ljós fyrr en í byrjun desember. Sem kunnugt er, taka umræður um fjárlög oft óralangan tíma og oft er tvísýnt hvort takist að klára þau í tæka tíð, útgjöld ríkissjóðs eru enda grundvallarágreiningsefni stjórnmálaflokka almennt. Spennandi verður að fylgjast með meðförum frumvarpsins að þessu sinni, ekki síst með hliðsjón af tímarammanum sem nú er gefinn. Sé tekið mið af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar gæti það þó farið svo að flestir verði á eitt sáttir, þ.e. að útgjaldaukningin verði slík að flokkar á borð við Samfylkinguna og Flokk fólksins geti sætt sig við útkomuna. Nánar um það síðar.

Fyrir ári síðan var undarleg staða uppi hvað fjárlagaumræðuna varðar og öðruvísi en nú. Þá höfðu kosningar farið fram um svipað leyti og enginn skýr stjórnarmeirihluti myndast í þinginu.  Fjárlög voru þá afgreidd í sátt, svo mikilli að margir höfðu það á orði að það væri jafnvel skárra að hafa stjórnlaust land. Þó ekki væri nema rétt á meðan fjárlög væru til umfjöllunar.

Á bólakaf ofan í vasa skattgreiðenda

Þegar vel árar hættir stjórnmálamönnum til að gleyma sér í gleðskapnum og byggja undir sjálfa sig og sína flokka. Þannig auka þeir óhóflega útgjöld í þá málaflokka sem þóknast þeirra eigin hagsmunum. Þetta hefur sagan sýnt, en fyrir um tíu árum sat við völd ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem gerði einmitt þetta. Stjórnin var blautur draumur frjálslyndra sem vonuðust m.a. eftir endurskoðun landbúnaðarkerfisins og afnámi á banni við áfengi í venjulegum verslunum, en fengu í staðinn óhóflegan útgjaldavöxt. Ríkisstjórnin var með eindæmum vinsæl í upphafi og mældist með um 80% stuðning þjóðarinnar. Það skal minnt á að það tók aðeins tvö ár fyrir ríkisstjórnina að glutra niður traustinu, en hún féll árið 2009.

Kunnugleg atburðarás er nú að eiga sér stað. Fyrir utan hið augljósa, að þessi ríkisstjórn er allt annað en frjálslynd, þá hefur hún gífurlegan stuðning kjósenda í upphafi. Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup, sem kom út í vikunni, nýtur hún stuðnings 78% þjóðarinnar. Hið sama má segja um útgjaldavöxt, en Samtök atvinnulífsins (SA) birtu í síðustu viku kostnaðarmat sitt á stjórnarsáttmálanum. Þar er ráðgert að stjórnarsáttmálinn muni kosta hátt í 90 milljarða króna á ári hverju, standi ríkisstjórnin við loforðin í honum.

Á hátindi hagsveiflunnar er sérstaklega óábyrgt af stjórnvöldum að ráðast í mikinn útgjaldavöxt. Þegar allir tekjustofnar ríkisins eru útþandir, gæti slíkur vöxtur reynst ósjálfbær til lengri tíma. Erfitt verður þá að vinda ofan af auknu umsvifum ríkisins ef til bakslags kemur og skuldasöfnun er óhjákvæmilegur fylgifiskur. Aðhald og ábyrgð í ríkisrekstrinum er almenningi til hagsbóta til lengri tíma litið. Það er óboðlegt að neysla dagsins sé framkvæmd á kostnað framtíðar kynslóðir.

Allir muna hvernig síðasta uppsveifla endaði. Ef ekki hefði verið fyrir hagkvæma skuldastöðu ríkisins, sem einna helst má þakka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, á árunum 1995 til 2007, hefði efnahagurinn ekki náð þeim hraða bata sem varð. Íslenska ríkið á þó töluvert í land með að ná fyrri stöðu og því er mikilvægt er að búa í haginn fyrir mögru árin. Það virðist þó ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar, í það minnsta ef marka má stjórnarsáttmálann.

Skerandi þögn fjármálaráðherra

Í viðtali við Morgunblaðið á föstudag um úttekt SA sagðist Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, „sem minnst vilja segja um þetta plagg Samtaka atvinnulífsins að svo stöddu,” eins og það var orðað í texta fréttarinnar. Þó lét hann hafa eftir sér að hann áttaði sig ekki á niðurstöðu útreiknings SA um árlega útgjaldaaukningu vegna samgangna, fjarskipta og byggðamála, en niðurstaða SA fól í sér að útgjöldin yrðu aukin um 42,2 milljarða árlega. Sagði Bjarni samtökin þurfa að svara því til hvernig komist væri að þessari niðurstöðu.

Fjármálaráðherra er afburðasnjall stjórnmálamaður og kjarkaður. Það kom skýrlega fram á þar síðasta kjörtímabili, þegar hann gegndi með prýði sama embætti og nú, þ.e.a.s. í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hann er hagfræðilega þenkjandi og í samræmi við það jukust útgjöldin ekki um of og skattar voru lækkaðir eins og kostur var á. Ráðherrann hefur einnig viðrað hugmyndir sínar um stofnun sjóða til að bregðast við áföllum í ríkisrekstri og kynnt til sögunnar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Óskandi er að þögn fjármálaráðherra skýrist af því að útreikningar SA hafi í raun verið rangir og að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar rími ekki við niðurstöðurnar, en ekki vegna þess að hann hafi á samviskunni að ætla að auka ríkisútgjöld, í hæstu hæðum góðæris. Þannig myndi ríkisstjórnin stofna í hættu hagsmunum framtíðarkynslóða og festa í sessi aukna skattheimtu til ókominna ára. Fari hagsýni og ráðdeild um þúfur á kjörtímabilinu munu Rómverjar ekki þegja þunnu hljóði, heldur halda því á lofti hverjar afleiðingar slíkra afglapa með almannafé geta orðið.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.