Þrjú tungumál stjórnmálaumræðunnar

eftir Hjalti Óskarsson

Pólitísk umræða getur verið hundleiðinleg og oft óþarflega harkaleg, þá sérstaklega á Facebook þráðum og annarsstaðar á netinu. Sumum finnst það fínt en ég held að flestum finnist það ekki. Oft er fólk ekki að tala saman eða ræða málefni heldur einkennast samskiptin af upphrópunum og fólk talar framhjá hvort öðru og skilur ekki hvort annað. Fólk telur hvort annað vera annað hvort heimskt eða vont.

Ég las fyrir stuttu bók sem hafði töluverð áhrif á það hvernig ég nálgast pólitíska umræðu. Hún heitir „The Three Languages of Politics” eftir Arnold Kling. Þar skrifar Kling út frá pólitískri umræðu í Bandaríkjunum en ég held að það megi að einhverju leyti yfirfæra það yfir á íslenska umræðu. Aðal punkturinn í bókinni er að reyna að átta sig á hvernig fólk með mismunandi stjórnmálaskoðanir nálgast umræðu um málefni eftir mismunandi ásum. Kling skilgreinir þrjá ása sem eru eftirfarandi:

  • Félagshyggjusinnað fólk nálgast málefni út frá „kúgaðir – kúgarar”. Yfirleitt er talað út frá hópum og afstaða tekin með þeim hópum sem „kúgaðir”.
  • Íhaldsfólk nálgast málefni út frá „siðmenning – siðmenningarleysi”. Best er að halda í hefðir og stofnanir sem hafa staðist tímans tönn og viðhalda siðmenningu.
  • Frjálshyggjufólk nálgast málefni út frá „frelsi einstaklings – valdbeiting”. Yfirleitt er  talað út frá einstaklingnum og valdbeitingin er yfirleitt frá stjórnvöldum.

Auðvitað er þetta mikil einföldun og öruggt að það tengi ekki allir við þessa þrjá ása eða jafnvel að það fari eftir málefninu eftir hvaða ás fólk nálgast þau. Ég held samt að það sé gagnlegt að prófa að skoða málefni útfrá þessum mismunandi sjónarhornum og setja á sig önnur gleraugu til að átta sig betur á afstöðu þeirra sem eru ósammála manni. Ég held að það geti orðið til þess að samtöl á milli þeirra sem hafa ólíkar skoðanir verði uppbyggilegri. Markmiðið er ekki að reyna sannfæra aðra um að einhver tiltekin afstaða sé rétt eða röng heldur að skapa umræðugrundvöll þar sem raunverulega er hægt að ræða málefni. Fólk er yfirleitt ekki vont eða vitlaust, það er bara annarrar skoðunar.

Dæmi um mismunandi nálgun

Nýlegt dæmi er umræðan um að skattar séu ofbeldi. Það er augljóst að sú afstaða og hvernig hún er orðuð fellur vel að frjálshyggjuásnum. Það er verið að taka frá einstaklingnum með valdbeitingu. Að orða hlutina svona felur þó óbeint í sér að þeir sem eru hlynntir sköttum, sérstaklega félagshyggjufólk sem sér skatta sem leið til að jafna lífskjör þeirra hópa sem minna mega sín, séu hlynntir ofbeldi. Það fólk sér skatta ekki sem ofbeldi og að frjálshyggjufólk sem tali svona vilji ekki bæta lífskjör fólks og taki stöðu með „kúgaranum”.

Lögleiðing fíkniefna er annað klassískt málefni og hentar vel til að beita þessum ásum. Félagshyggjufólk lítur á stefnu stjórnvalda í fíkniefnamálum í dag sem kúgandi fyrir fíkniefnaneytendur og þá sérstaklega fíkla. Fíklar eru hópur einstaklinga sem minna mega sín og réttara væri að hjálpa þeim frekar en að stimpla þá sem glæpamenn. Íhaldsfólk er hlynntara refsistefnu stjórnvalda því það telur neyslu fíkniefna grafa undan góðu siðferði í samfélaginu. Fíkniefni eru slæm og rétt er að ríkið komi í veg fyrir notkun þeirra með lögum og framfylgd þeirra. Frjálshyggjufólk er fyrirsjáanlegt í þessu málefni. Þeir tala fyrir því að ríkið ætti ekki að vera að skipta sér að því hvað fólk gerir og er á móti stefnu stjórnvalda því þeir telji hana vera valdbeitingu gegn einstaklingum.

Umræða um umræðuna

Stundum fær maður þá tilfinningu að þeir sem tjá sig mikið um pólitík á samfélagsmiðlum og annars staðar og taka þátt í rökræðum eru ekki að reyna sannfæra andstæðinginn um að sín afstaða sé rétt heldur að tala óbeint til þeirra sem eru sammála með því að ræða um hlutina og orða á ákveðinn hátt út frá sínum ás. Flestir leitast sjálfkrafa við að umgangast fólk sem hefur svipaðar skoðanir og gildi og venjast því að tala um stjórnmál og málefni á ákveðin hátt. Þegar svo er rætt við fólk sem hefur aðra skoðun, og er vant því að ræða hlutina út frá öðrum ás, skilur fólk ekki hvort annað.

Það skal tekið fram að ég tengi sjálfur mest við frjálshyggjuásinn og mér finnst yfirleitt rétt að líta á málefni útfrá þeim ás. Mögulega hefur sú skoðun litað það hvernig ég skrifaði þessa grein en ég vona ekki. Ég er að minnsta kosti orðin töluvert þolinmóðari þegar kemur að pólitískri umræðu og þeim sem ég er ósammála. Það er því í mínum huga einhvers virði að reyna að sjá hvernig aðrir nálgast hlutina út frá þessum ásum.

Hjalti Óskarsson

Pistlahöfundur

Hjalti er búsettur í Stokkhólmi og stundar meistaranám í hagfræði við Stokkhólmsháskóla. Áður útskrifaðist hann úr grunnnámi í hagfræði úr Háskóla Íslands og sat í ritstjórn Hjálma, tímarits hagfræðinema við HÍ. Helstu áhugamál hans eru hagfræði, stjórnmál, þungarokk, knattspyrna, vel bruggaður bjór og viskí.