Þjóðin eignast banka

eftir Albert Guðmundsson

Þjóðareign er hugtak sem kastað hefur verið fram árum saman í ýmiss konar pólitískum tilgangi, einkum þó til að rökstyðja mikilvægi þess að tryggja yfirráð ríkisins yfir tiltekinni eign, hvort sem er fasteign, auðlind eða jafnvel fyrirtæki. Þannig gefa stjórnmálamenn því gjarnan undir fótinn að sú eign sem um ræðir verði í eigu þjóðarinnar, það er fólksins í landinu, þegar hið rétta er að stefna þeirra er sú að viðkomandi eign verði í eigu ríkissjóðs. Þjóðareign í þessum skilningi, þ.e. sem ríksivæðing eigna, er gamaldags og að mínu mati óspennandi hugmynd sem hefur ekki reynst vel í gegnum tíðina. En hvað ef lagður yrði nýr skilningur í þetta hugtak, hvað ef við túlkum þjóðareign sem svo að þjóðin raunverulega eignist viðkomandi eign?

Svarið við þessari spurningu má ef til vill finna þeirri hugmynd að almenningsvæði þá banka sem í dag eru í ríkiseigu. Hugmyndin gengur út á að almenningi verði úthlutað hlutabréfum í ríkisbönkunum þremur samhliða markaðsskráningu þeirra. Þannig væri hægt að tryggja að þjóðin þ.e. allir íslenskir ríkisborgarar sem greiða skatta hér á landi sem og börn þeirra, eignist hlutabréf í bönkunum þegar þeir verða skráðir á markað að nýju.

65-116 milljarðar beint til almennings

Raunhæft væri að á milli 10-20% eiginfjár íslenskra banka væri úthlutað beint til landsmanna en það myndi samsvara um 65-116 milljarða tilfærslu eigna frá ríkinu til einstaklinga. Það þýðir að hver einstaklingur fengi 200-350 þúsund króna virði í sinn hlut. Sanngjarnara, opnara og gegnsærra ferli við markaðsskráningu bankanna er ekki hægt að hugsa sér.

Mitt mat, verði þessi hugmynd að veruleika, yrði um að ræða eitthvert mikilvægasta skref sem tekið hefur verið hér landi í þá átt að bæta hag heimilanna í landinu og að endurreisa traust almennings á fjármálakerfinu. Óháð því hvort fólk ákveður að halda þessum hlutabréfum sínum til lengri tíma eða selja þau strax þá er ljóst að þessi aðgerð mun létta undir heimilisbókhaldinu hjá mörgum fjölskyldum og færa hið unga fólk sem dreymir um að flytja að heiman og eignast sína fyrstu íbúð einu skrefi nær því að láta þann draum sinn rætast.

Höfundur skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður

Albert Guðmundsson

Pistlahöfundur

Albert Guðmundsson er laganemi við Háskóla Íslands og fyrrverandi formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Albert starfar sem flugfreyja hjá Icelandair og er fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hann hefur einnig setið í stjórn Vöku fls. og Stúdentaráði. Helstu áhugamál hans eru stjórnmál og lögfræði.