Þetta kemur mér ekki við

eftir Katrín Ósk Ásgeirsdóttir

Ég heiti Katrín Ósk, ég er 23 ára gömul og ég hef enga skoðun á framtíð minni.

Ég bý ennþá í foreldrahúsum og er ekki að fara að kaupa mér húsnæði á næstu árum. Mig varðar þessvegna ekkert um það hver staðan er á leigumarkaði frá degi til dags eða hvort að það sé fjárhagslega mögulegt fyrir ungt fólk að kaupa sér sína fyrstu fasteign.

Afhverju þarf ég að skipta mér af þessu?

Ég er svo heppin að ég telst nokkuð heilbrigð. Ég þarf því ekki að sækja mér heilbrigðisþjónustu reglulega og þannig kemur fjárveiting til Landspítalans og umgjörðin í kringum heilbrigðiskerfið mér ekki við afþví það hefur ekki áhrif á mig.

Ég á engin börn, tek hvorki lán hjá LÍN né bankanum og ég skulda því ekki krónu. Hagkerfið, barnabætur, verðtrygging og vextir gætu því ekki verið  fjarri mínum veruleika.

Mér er alveg sama um atvinnumarkaðinn og stöðuna á atvinnuleysi á Íslandi afþví ég hef verið í stöðugri vinnu síðan ég var 13 ára og sé ekki fram á að missa vinnuna í nánustu framtíð.

Ég þarf í rauninni ekkert að hafa skoðun á því hvernig samfélagið virkar afþví að mínir hagsmunir þessa stundina eru ekki í húfi. Þeir varða mig ekki. Því miður er þetta mjög algengur hugsunarháttur hjá ungu fólki í dag. Meiri hluti ungs fólks telur sig samfélagið ekki varða og það er áhyggjuefni.

Ekki núna, en seinna

Staðreyndin er sú að þó að þessi málefni snerta mig ekki einmitt þessa stundina, þá munu þau gera það í framtíðinni. Ég mun einn daginn koma til með að festa kaup á mínu fyrsta húsnæði og hagkerfið og verðtrygging munu hafa áhrif á mig. Ég mun þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda á einhverjum tímapunkti og þessvegna skiptir mig máli hvernig er staðið að því.
Ég mun vonandi eignast börn á lífsleiðinni og hafa hagsmuni af því hvernig barnabótum og fæðingarorlofi er háttað. Samfélagið hefur meiri áhrif á mig en ég get skilið á þessum tímapunkti.

Þessvegna er ég oft hugsi yfir viðbrögðum jafnaldra minna þegar ég ræði við þau um stjórnmál. Það er eins og það sé almennt viðurkennt að finnast málefni sem þessi ekki koma manni við. Svo virðist sem svör á borð við “ég kýs alltaf sama flokk og foreldrar mínir” eða að sleppa því að kjósa “afþví það hefur hvort eð er engin áhrif” séu viðurkennd svör í dag.

Það er ekki auðvelt að setja sig inní íslensk stjórnmál, sérstaklega ekki eins og staðan er í dag. Ungu fólki finnst þau oft á tíðum flókin og það telur sig ekki hafa hlutverk eða innlegg í umræðuna. Til þess að taka þátt í stjórnmálum eða stjórnmálaflokk þá þarf maður ekki að demba sér beint í djúpu laugina. Í flestum stjórnmálaflokkum í dag eru starfandi ungliðahreyfingar sem er góður grunnur fyrir ungt og áhugasamt fólk til þess að láta í sér heyra og taka þátt í stjórnmálum.

Það eru að koma kosningar, aftur

Nú í aðdraganda kosninga, höfum við tækifæri til þess að kynna okkur fólk og flokka. Það eru margir og fjölbreyttir flokkar í framboði til Alþingis og því ættu flestir að geta fundið skoðunum sínum hljómgrunn.

Ísland er lýðræðisríki, þar sem allir hafa kosningarétt, konur jafnt sem karlar og við höfum öll jafn greitt aðgengi að stjórnmálum. Þetta eru hlutir sem við eigum ekki að taka sem sjálfsögðum hlut afþví að þetta er okkar leið til þess að hafa áhrif á samfélagið sem við búum í. Ef við viljum hafa áhrif á okkar framtíð, þá verðum við nýta kosningaréttinn, svo einfalt er það.

Það er ekki hægt að halda áfram að blekkja sjálfan sig um að maður hafi ekki skoðun eða láta aðra um að taka allar samfélagslegar ákvarðanir fyrir sig og sitja svo uppi með sárt ennið þegar maður finnur loks að þessi málefni snerta mann persónulega og maður er ekki sáttur við niðurstöðuna.

Ungt fólk er framtíðin

Ég átta mig á því að þetta er margtuggin tugga og hálfgerð klisja en það erum við sem sköpum okkar eigin framtíð og við ættum ekki að sætta okkur við að láta alltaf einhvern annan gera það fyrir okkur.  Ekki vera eins og Bubbi Morthens með „enga skoðun“. Vertu þáttakandi í að móta þitt samfélag eða hafðu skoðun á því, afþví að framtíðin þín skiptir máli. Höfum áhrif. Við getum það.

Katrín Ósk Ásgeirsdóttir

Pistlahöfundur

Katrín Ósk er stjórnmálafræðinemi í Háskóla Íslands og stúdent frá Flensborg. Hún hefur á síðustu árum gegnt þónokkrum félagsstörfum samhliða námi, hún var formaður nemendafélags Flensborgarskólans, keppandi, dómari og þjálfari í MORFÍs í allmörg ár, sat í stjórn Vöku, fulltrúi í Stúdentaráði HÍ og situr í stjórn SUS. Ásamt námi starfar hún hjá Sjóvá og einnig er hún varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Katrín Ósk hefur áhuga á ferðamannaiðnaðinum, útiveru, stjórnmálum og lagalegum álitaefnum.