,,Þetta getur aldrei gerst”

eftir Björn Már Ólafsson

,,Þvílíkt og annað eins. Þessi flokkur er búinn að vera”

„Þessi einstaklingur á aldrei eftir að verða forseti”

„Hann/hún er að grafa sína eigin pólitísku gröf”

Það er alltaf jafn áhugavert að hlusta á stjórnmálaskýrendur fella dóma skömmu eftir tilkomumiklar atburðarrásir. Þegar stjórnmálin loga eins og jökullinn í laginu góða og almenningur öskrar á samfélagsmiðlum er oft nauðsynlegt að fá góða stjórnmálaskýrendur til að greina ástandið. Þeir hafa lært fræðina, kunna söguna og geta þannig haldið umræðunni á málefnalegum nótum. Að mínu mati eru það einmitt stóru atburðirnir og miklu sviptingarnar sem sýna best muninn á góðum og slæmum stjórnmálaskýrendum.

Dæmin eru úti um allt

Skemmtilegast er að fylgjast með þeim sem láta tilfinningar sínar, skoðanir og tíðarandann ráða för. Af mörgum dæmum er að taka, bæði hér heima og erlendis. Kosningasigrar Margaret Thatcher urðu til þess að margir stjórnmálaskýrendur í Bretlandi efuðust raunverulega um að Verkamannaflokkurinn myndi nokkurn tímann komast aftur til valda. Síðan þegar Verkamannaflokkurinn með Tony Blair í fararbroddi sigraði kosningarnar árið 1997 trúðu margir því að Íhaldsflokkurinn kæmist aldrei aftur til valda. Svo seint sem árið 2015 voru margir pistlahöfundar á Bretlandseyjum á þeirri skoðun að Íhaldsflokkurinn gæti aldrei náð meirihluta á þingi. Það var kenning sem afsannaðist í maí sama ár. Fyrir aðeins örfáum mánuðum voru flestir á því að Boris Johnson eða George Osborne myndu taka við stjórnartaumum Íhaldsflokksins þegar David Cameron ætlaði að láta af formennsku fyrir kosningar 2017. Svo fór ekki og Theresa May mun taka við forsætisráðherrastólnum í Bretlandi í dag.

Tveggja flokka kerfi orðið að eins flokka kerfi? Ekki alveg…

Í Bandaríkjunum er svipaða sögu að segja. Líkt og í Bretlandi er þar tveggja flokka kerfi að meginstefnu til en samt hafa stjórnmálaskýrendur oft látið að því liggja að annar flokkurinn sé dauður og muni aldrei komast til valda. Með slíku tali er raunverulega verið að fullyrða að einn flokkur sé orðinn svo sterkur að hann muni alltaf vinna kosningar í náinni framtíð.

Demókrataflokkurinn var laskaður í valdatíð Repúblikananna Ronalds Reagans og George H. W. Bush. En viti menn, ungur og sjarmerandi maður að nafni Bill Clinton tókst að blása lífi í flokkinn og vann góðan sigur á síðarnefnda Repúblikananum. Valdatíð Clintons þótti góð og efnahagslífið í heiminum blómstraði víðast hvar. Var Repúblikanaflokkurinn dauður? Að sjálfsögðu ekki og George W. Bush bar sigur úr býtum gegn hægri hönd Clintons frá þessari blómlegu valdatíð.

Nú er Repúblikanaflokkurinn í mikilli krísu, sennilega meiri en flokkurinn hefur nokkurn tímann verið. Erfitt er að sjá fyrir að Donald Trump muni komast í hvíta húsið. Útlit er fyrir að Demókratar fái sitt þriðja kjörtímabil í röð í húsinu. Þeir sem þekkja söguna ættu þó að fara varlega í að afskrifa Repúblikanaflokkinn. Landslagið í bandarískum stjórnmálum hefur áður breyst, og það hratt. Fyrir árið 1960 voru Demókratar sterkir í suðurríkjunum þar sem rasismi grasseraði. Nú eru það hins vegar Repúblikanar sem eru kenndir við slíka hegðun. Demógrafía getur breyst á örfáum árum og framvöxtur nýrra hreyfinga og atburðir í heiminum geta snúið auðveldum kosningasigrum Demókrata í vandræðalegra ósigra eftir aðeins fá ár.

Gífuryrðin heyrast oft í umræðunni á Íslandi

Kenningin um „dauða flokka” hefur líka oft skotið upp kollinum á Íslandi. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn misstu mikið fylgi í kosningunum árið 2009. Framsóknarflokkurinn hafði ekki mikið fylgi fyrir og margir spáðu flokknum varanlegum skaða. Þeir sem ekki vildu taka svo djúpt í árina að lýsa yfir dauða flokksins gátu þó alla veganna fullyrt með nokkurri vissu (og óskhyggju jafnvel) að flokkurinn myndi alla veganna ekki taka sæti í ríkisstjórn á næstu árum ár eftir.

En það tók aðeins eitt kjörtímabil áður en sú spá var fokin út í veður og vind. Flokkarnir tveir sem voru laskaðir eftir kosningarnar 2009 risu á ný og mynduðu ríkisstjórn strax fjórum árum seinna árið 2013.

Árið 2013 átti sér einnig stað önnur mikil svipting þegar Samfylkingin leið mikið tap. Flokkurinn fór úr því að vera stærsti flokkurinn á þingi niður að vera í stjórnarandstöðu með nokkuð fáa þingmenn. Og áföllin héldu áfram að dynja á flokknum. Formannsskiptin fyrir kosningarnar höfðu ekki tilætluð áhrif og innbyrðis deilur hafa einkennt kjörtímabilið að vissu leyti. Nú er enn annar formaður kominn í brúna en enn þá bólar ekkert á fylgisaukningu þó síður sé. Svipaða sögu má nú jafnvel segja um Framsóknarflokkinn sem beið mikla hnekki við afsögn Sigmundar Davíðs.

En líkt og sagan hefur kennt okkur þá eru spár um að flokkar séu í dauðateygjunum oft lélegar spár. Vissulega hafa flokkar dáið út á Íslandi, annað hvort með beinum hætti eða þá hafa þeir sameinast undir öðru nafni. Á það sérstaklega við um vinstri væng stjórnmálanna hér á landi. En hið gagnstæða hefur líka gerst, að særðir flokkar nái vopnum sínum að nýju eftir örfá ár eða jafnvel mánuði.

Stjórnmál eiga einhverja skemmtilega tilhneigingu til þess að leita í jafnvægi. Þessir tveir íslensku flokkar eru í vandræðum þessa stundina. En ætlar einhver að stíga fram með fullyrðingar um framtíðina? Munu þessir flokkar aldrei ná vopnum sínum að nýju eða vinna kosningasigra í framtíðinni? Sjálfur ætla ég að spara gífuryrðin.

 

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.