Þetta gerist ef við lækkum kosningaaldurinn

eftir Björn Már Ólafsson

Í fyrra var lagt fram frumvarp um lækkun kosningaaldurs í 16 ár. Voru það þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem lögðu frumvarpið fram og síðar sama ár ályktaði meðal annars landsfundur Sjálfstæðisflokksins um að lækka ætti kosningaaldurinn.

Meðfram kosningunum í haust voru svo haldnar skuggakosningar þar sem framhaldsskólanemar fengu að greiða atkvæði í sýndarkosningum, sem liður í að auka lýðræðisvitund ungs fólks.

Hugmyndin um skuggakosningar kemur frá Noregi þar sem þær hafa lengi verið haldnar. Þar geisar nú einnig mikil umræða um hvort lækka eigi kosningaaldur í 16 ár. Var af þeirri ástæðu ákveðið fyrir nokkrum árum að gera skyldi rannsókn til að komast að því hvaða afleiðingar lækkun kosningaaldurs hefði á lýðræðið. Voru rannsóknirnar gerðar á sveitarstjórnarkosningum árin 2011 og 2015.

Nú í nóvember kom út skýrsla rannsóknarseturs samfélagsmála í Noregi með endanlegum niðurstöðum. Í niðurstöðunum eru nokkrir áhugaverðir punktar en þeir sem eru að búast við skýrum leiðum til að auka kosningaþátttöku ungs fólks munu verða fyrir vonbrigðum. Eins og segir í inngangskafla skýrslunnar: „Þeir sem óttast neikvæðar afleiðingar þess að veita ungu fólki kosningarétt hafa ekkert að óttast og þeir sem eru að vonast eftir mjög jákvæðum áhrifum verða líka að draga úr væntingunum sínum.”

  • Kosningaþátttakan á meðal 16-17 ára unglinga var örlítið minni en meðaltal heildarkosningaþátttökunnar. Yngstu kjósendurnir voru með betri þátttöku en hópurinn 19-25 ára og bendir margt til þess að þeir sem stundi nám á framhaldsskólastigi og eru félagslegir þátttakendur í sveitarfélaginu séu líklegri til að nýta kosningarétt sinn. (Hér má taka fram að framhaldsskólinn í Noregi er almennt aðeins 3 ár, frá því að nemendur eru 16-19 ára)
  • Ekki fundust neinar vísbendingar um að þeir sem nýta kosningarétt sinn við 16-17 ára aldur muni einnig nýta hann í seinni kosningum. Kenningar höfðu verið uppi um að ef fólk kýs á unga aldri séu meiri líkur á að það muni aftur nýta sér kosningaréttinn en svo virðist ekki vera.
  • Kosningaþátttaka fólks er mismikil eftir samfélagshópum, þ.e. starfsstéttum, tekjum, fjölskyldumynstri osfrv. Samkvæmt rannsókninni virðist þessi munur á kosningaþátttöku samfélagshópa vera jafnmikill hjá 16-18 ára kjósendum og hjá hinum eldri.
  • Afar lítill munur er á atkvæðahlutföllum flokka hjá yngri kjósendum og hjá eldri kjósendum. Þetta kemur líka heim og saman við niðurstöður skuggakosninganna sem haldnar voru hér á landi samhliða þingkosningunum þar sem niðurstaða þeirra varð ekki mikið á skjön við raunverulegu niðurstöðuna.
  • Áhugaverðasti punkturinn er sá síðasti sem skýrslan fjallar um en samkvæmt rannsókninni voru í þeim sveitarfélögum þar sem ungt fólk fékk að kjósa kosnir inn fleiri ungir sveitarstjórnarmenn en í öðrum sveitarfélögum. Með þeim hætti fullyrðir skýrslan að með lækkun kosningaaldurs verði fleira ungt fólk kosið inn í pólitískar trúnaðarstöður.

Niðurstöðurnar gefa ekki til kynna að niðurstöður kosninganna muni breytast sérstaklega mikið við að leyfa yngra fólki að kjósa. Mér fyndist reyndar við hæfi að hefja smá umræðu um hin ýmsu lögbundnu aldurstakmörk til eru og ósamræmi þar á milli, en ég veit að ekki allir eru sammála mér þar.

Það sem lækkun kosningaaldurs getur þó gert er að veita ungu fólki öflugri rödd. Fleira ungt fólk býður sig fram og tekur þátt í lýðræðislegri umræðu. Stjórnmálamenn munu að einhverju leyti þurfa að taka tillit til fleiri sjónarmiða en áður og það getur ekki talist neikvætt á neinn hátt.

 

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.