Þegar House of Cards hitti ömmu sína

eftir Björn Már Ólafsson

Við horfðum á Donald Trump verða forseti Bandaríkjanna og innst inni leið okkur eins og höfundur House of Cards þáttanna hafi skrifað handritið. Nú er landslagið að breytast í breskum stjórnmálum en í þetta skiptið var handritið skrifað í gömlum House of Cards þáttum, upprunalegu bresku þáttaröðunum sem sýndar voru á BBC frá 1990-1995. Forsætisráðherra heldur skyndikosningar til að endurnýja umboð sitt og sýna styrk gagnvart minnihlutanum.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað til þingkosninga í landinu þann 8. júní næstkomandi. Ætlar hún að sækja sér umboð til að leiða þjóðina í gegnum útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Ástæðurnar fyrir þessari tímasetningu kosninga eru óteljandi. Staða hennar er gríðarlega sterk gagnvart leiðtoga Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn. Íhaldsflokkurinn mældist nýlega með yfir 20 prósentustiga forskot yfir Verkamannaflokknum í skoðanakönnun.

Í síðustu þingkosningum í Bretlandi vann Íhaldflokkurinn óvæntan sigur þótt skoðanakannanir bentu til annars skömmu áður en talið var upp úr kjörkössunum. Kosningastjóri Íhaldsflokksins sagði eftir kosningarnar að David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, hefði unnið kosningarnar á því hversu margir töldu hann betri mann til að leiða landið heldur en Ed Miliband sem þá var leiðtogi Verkamannaflokksins. Miliband hafði ekki sömu útgeislun og Cameron og þá voru kjósendur líka hræddir um að Miliband myndi fara í samstarf með Skoska sjálfstæðisflokknum og þannig greiða fyrir sjálfstæði Skotlands. Var það nóg til að hræða marga til að kjósa Íhaldsflokkinn.

Eftir Brexit-kosningarnar hefur flest allt gengið Theresu May í haginn. Það er eiginlega ótrúlegt að sjá hvernig hún hefur komið svo sterk út úr öllum þeim átökum sem orðið hafa í kjölfar atkvæðagreiðslunnar. Þrátt fyrir að hún hafi upphaflega stutt veru Bretlands í ESB, virðist sem flestir treysta henni til að leiða útgönguna. Þá var það henni líka til happs að tveir helstu keppinautar hennar í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins eftir að Cameron sagði af sér, þeir Boris Johnson og Michael Gove, eyðilögðu hvor fyrir öðrum. Það er henni líka til happs hversu óvinsæll arftaki Milibands er, Jeremy Corbyn.

Persónuvígin og sviptingarnar og nú kosningarnar í kjölfar Brexit-atkvæðagreiðslunnar eru eins og beint upp úr House of Cards þáttunum bresku. Og það skal engan undra, því hvenær fór Íhaldsflokkurinn inn í kosningabaráttu síðast með annað eins forskot í skoðanakönnunum? Jú, þegar Margaret Thatcher var forsætisráðherra árið 1987. Og hver skyldi hafa verið framkvæmdastjóri (e. chief of staff) Íhaldsflokksins árið 1987, á tíma Thatcher? Jú, Michael Dobbs, höfundur House of Cards þáttanna.

Brexit eða manngreinarálit?

Kosningabaráttan er ekki farin af stað enn. Líklegast finnst flestum að útfærslan á Brexit verði aðal umræðuefnið í kosningabaráttunni. En síðustu kosningar í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum hafa kennt okkur að málefnin eiga auðvelt með að falla niður í annað sætið, á eftir persónunum sem í framboði eru.

Að boða til kosninga með þessum hætti til að endurnýja umboð sitt er stór ákvörðun hjá May. Það má heldur ekki gleyma því að ef það er eitthvað sem ber að varast þessa dagana þá er það að hafa of mikla trú á skoðanakönnunum og að trúa á að fylgi haldist í gegnum heila kosningabaráttu. Fylgið getur allt verið farið í byrjun júní.

Allt þetta fylgi sem bæst hefur við Íhaldsflokkinn ber líka með sér ýmis sjónarmið sem ganga gegn frjálslyndi. Mér finnst útlit fyrir að íhaldsamari og öfgakenndari öfl séu að ná undirtökunum í Íhaldsflokknum á meðan hófsamt hægrifólk mun eiga erfiðara með að finna sig. Frjálslyndari hægrimenn gætu því verið að færa sig yfir í Frjálslynda demókrataflokkinn en sá flokkur þurrkaðist næstum út í síðustu þingkosningum. Þessi flótti frjálslyndra getur búið til vandræði fyrir flokkinn til langs tíma, en til skamms tíma er ekki útlit fyrir annað en stóran sigur Íhaldsflokksins í komandi skyndikosningum.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.