Þegar gildismat skín í gegnum fréttir

eftir Þorsteinn Friðrik Halldórsson

Gildismat blaðamanna getur haft undirliggjandi áhrif á fréttaskrif þeirra og það á sérstaklega við þegar skrifað er um þjóðmál. Enginn blaðamaður er óhlutdrægur en margir eru faglegir í verki. Þó birtast við og við fréttir um þjóðmál þar sem afstaða viðkomandi blaðamanns til málsins skín í gegn.

Gæðabakstur komst í fréttir um miðjan apríl þegar brauðgerðin boðaði 6,2 prósenta  verðhækkun. Hana mátti rekja til þriggja þátta að sögn fyrirtækisins; hækkun hveitiverðs, gengi krónunnar og nýrra kjarasamninga. Áhrif kjarasamninga á hækkunina voru sögð nema þremur prósentum.

Í síðustu viku birti fjölmiðillinn Mannlíf ómerkta frétt á vef sínum þar sem verðhækkanir Gæðabaksturs voru settar í furðulegt samhengi. Fyrirsögnin var þessi: „Gæðabakstur boðar verðhækkanir í kjölfar kjarasamninga þrátt fyrir tuga milljóna hagnað“.

Orðasambandið „þrátt fyrir“ skiptir lykilmáli. Það gefur í skyn að Gæðabakstur hafi bolmagn til að taka á sig þær launahækkanir sem kveðið er á um í nýjum kjarasamningum án þess að hækka verð með þessum hætti. Að það séu bein tengsl þarna á milli.

Í fréttinni er nefnt að hagnaður Gæðabaksturs hafi numið 87 milljónum króna árið 2017, málavextir rifjaðir upp og vísað er til ummæla Vilhjálm Þorlákssonar, framkvæmdastjóra Gæðabaksturs sem sagði að hækkun á launum næmi hátt í fimm milljónum króna á mánuði.

„Við höfum ekki einhverja djúpa vasa að fara í, því miður,“ sagði Vilhjálmur við Fréttablaðið.

Þá skrifar blaðamaður: „Ársreikningur félagsins sýnir þó að félagið er ágætlega statt. Hagnaður er nokkur og eigið fé tiltölulega hátt. Árið 2017 greiddi gæðabakstur um 60 milljónir í arð.“ Fyrirtækið er sem sagt ágætleg statt að mati blaðamannsins og hækkar verð þrátt fyrir hagnað upp á tugi milljóna.

Villandi mynd

Margt athugavert má finna við þessa framsetningu. Í fyrsta lagi er vísað til ársreiknings fyrir árið 2017 þegar íslenska hagkerfið var á sem mestu skriði til þess að draga upp mynd af stöðu fyrirtækisins í dag. Hagkerfið er á allt öðrum stað í dag.

Í öðru lagi er hagnaðurinn ekki settur í samhengi við stærð fyrirtækisins. Hversu arðbært er það? Það þykir slakt ef tæknirisinn Microsoft skilar hagnaði upp á einungis tugi milljónir króna en framúrskarandi ef um er að ræða stakan matarvagn í miðborg Reykjavíkur.

Í þriðja lagi má nefna svigrúmið til launahækkana virðist lítið jafnvel þótt við beitum þeirri aðferð að nota ársreikning frá árinu 2017 til að meta stöðu fyrirtækisins í dag. Kostnaðarhækkun upp á 5 milljónir á mánuði nemur 60 milljónum króna á ársgrundvelli sem núllar út arðgreiðsluna fyrir árið 2017. Af hagnaðinum standa þá eftir 27 milljónir króna.

Ef rekstur Gæðabaksturs er í takti við rekstur annarra fyrirtækja hér á landi má leiða líkur að því að afkoman hafi versnað á síðustu tveimur árum. Stutt símtal við framkvæmdastjóra Gæðabaksturs hefði líklega varpað bjartara ljósi á það hvernig Gæðabakstur stendur í dag.

Hvaða ályktun getur glöggur lesandi dregið af því að afkoma fyrirtækis árið 2017, á toppi hagsveiflunnar, sé sett í samhengi við verðhækkanir í apríl 2019? Enga, en hann á auðvelt með að draga ályktun um afstöðu blaðamannsins til deilu launþega og atvinnurekenda. Fréttin er ekki skrifuð til að afhjúpa sannleik. Hún er skrifuð til þess eins að vekja neikvæðar tilfinningar eins og biturð og reiði í garð Gæðabaksturs. Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf um hvatana sem liggja að baki skrifunum.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson

Pistlahöfundur

Þorsteinn Friðrik Halldórsson er hagfræðingur sem starfar sem blaðamaður. Hann hefur ritstýrt Hjálmum, tímariti hagfræðinema, setið í ritstjórn Stúdentablaðsins og situr nú í stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Skrif Þorsteins í Rómi hafa oftar en ekki hagfræðilegan snertiflöt við stjórnmál.