Þátttaka ungs fólks í pólitík

eftir Jónína Sigurðardóttir

Umræðan um skort á þátttöku ungs fólks í stjórnmálum skýtur upp kollinum með reglulegu millibili, þá einkum í samhengi við kosningaþátttöku og vantraust á ríkisstjórnina. Afstaða ungmenna til pólitískrar þátttöku sem og áhugi hefur farið dvínandi. Það má allra helst sjá í fallandi kjörsókn ungs fólks í Alþingis- og sveitastjórnarkosningum síðustu ára. Þrátt fyrir það þá skiptir pólitík alla máli, unga sem aldna, hvort sem það er með beinum eða óbeinum hætti. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir áhrifunum sem stjórnmálin hafa og að fólk geri það sem í þeirra valdi stendur til að hafa áhrif.

Á síðasta ári var lagt fram frumvarp á Alþingi um að lækka kosningaaldur ungmenna niður í sextán ár. Markmið frumvarpsins var að styðja við lýðræðislega þátttöku ungs fólks og gefa þeim tækifæri til þess að hafa áhrif á samfélagið sem ábyrgir og virkir þátttakendur. Hefði þetta frumvarp orðið að lögum hefðu um 9.000 einstaklingar sem náð höfðu sextán ára aldri tækifæri til að kjósa í sveitastjórnarkosningum vorið 2018. Stuðningsmenn frumvarpsins færðu rök fyrir því að einstaklingar eigi að fá tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða líf þeirra og umhverfi. Dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til löggjafarþings og sveitastjórnar veldur áhyggjum af lýðræði þjóðarinnar til lengri tíma litið. Talið er að dræm þátttaka stafi af því að einstaklingar eru látnir bíða með þátttöku sína í stað þess að fá tækifæri jafnskjótt og vitund þeirra og ábyrgð á eigin velferð og samfélagsins hefur vaknað.                              

Lítil þátttaka ungs fólks

Pólitísk þátttaka í flestum lýðræðisríkjum hefur farið dvínandi undan farin ár. Ástæðan er í flestum tilfellum rakin til lélegrar kjörsóknar hjá ungu fólki. Kosningaþátttaka er ekki eina form lýðræðislegrar þátttöku en að nýta sér kosningaréttinn er oftar en ekki álitið eitt veigamesta hlutverk þegna í lýðræðisríkjum. Gildi kosninga er mest þegar sem flestir og sem fjölbreyttustu hópar samfélagsins mæta á kjörstað. Það er helsta ástæða þess að mikið áhyggjuefni sé að kosningaþátttaka hafi farið dvínandi því þá endurspegla niðurstöðurnar ekki samfélög nógu vel. Þessari þróun fylgir hætta á að eigi ekki eftir að aukast með aldrinum og eigi eftir að halda áfram að dvína hjá komandi kynslóðum.

Það er ekki nýtt af nálinni að kjörsókn yngra fólks sé verri en hjá eldri kynslóðum en kjörsókn ungs fólks hefur aldrei verið jafn lág og hún er í dag. Fræðimenn halda því fram að traust ungs fólks til stjórnvalda sé í sögulegu lágmarki víða í heiminum í dag. Ekki er þó hægt að halda því fram að ungt fólk hafi ekki áhuga á stjórnmálum og láti sig ekki hlutina varða. Ungt fólk er líklegra til þess að taka þátt í mótmælum og skrifa undir undirskriftarlista þar sem farið er fram á að breytingar verði gerðar á afmörkuðu málefnasviði. Því má segja að ungmenni hafi frekar áhuga á stjórnmálum, en ekki þeim sem teljast til hefðbundinnar stjórnmálaþátttöku af eldri kynslóðum.

Ungt fólk sem er virkt í pólitík er talið vera besta hvatningin fyrir jafnaldra þeirra til að taka einnig þátt. Pólitísk og borgaraleg þátttaka getur verið af hvaða tagi sem er og hefur lengi verið talin mjög þroskandi fyrir ungmenni og nýtist þeim vel seinna meir.

Aukin þörf á fræðslu

Ungmenni þurfa tækifæri á að taka þátt í pólitískri umræðu og borgaralegu samfélagi. Réttindi ungmenna til kosninga í skóla- eða sveitastjórn, þar sem ungmenni geta fengið að kjósa um málefni í þeirra nærumhverfi er talin góð nálgun á þátttöku þeirra. Rökin fyrir þessari aðferð er að niðurstöður úr kosningum í nærumhverfi eru áhrifameiri en úr allsherjar kosningum.Þetta er gert í þeim tilgangi að ungmenni fái tilfinningu fyrir að atkvæði þeirra hafi áhrif. Þrátt fyrir að niðurstöður úr kosningum séu áhrifameiri þýðir það ekki endilega að ferlið og málið sé skiljanlegra en í allsherjar kosningum. Með samþættingu skóla og fræðslu um stjórnmál er hægt að auka meðvitund ungmenna og auka skilning og þekkingu þeirra á stjórnmálum.

Þau ungmenni sem leita sér frekari upplýsinga á netinu, horfa á sjónvarpið og fylgjast grannt með kosningum eru líklegri til að afla sér þekkingar og hafa traust til yfirvaldsins. Fjölskyldur hafa mótandi áhrif á tengslanet barna og ungmenna. Viðhorf og reynsla foreldra, gildi þeirra og skoðanir hafa áhrif á skoðun barna. Sem áhrifavaldar gegna foreldrar lykilhlutverki í fræðslu barna til borgaralegar þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.

Breytt viðhorf og áhrif miðla

Rannsóknir hafa sýnt fram á breytingar í gildum almennings milli kynslóða farið er að líta á lýðræði sem ekki aðeins kosningarétt heldur sem hluta af samskiptum og lífsreglum. Þessi víðtæka sýn á lýðræði kemur mjög áreynslulaust til yngri kynslóða og er rakin til áhrifa vegna samfélagsbreytinga. Að læra að temja sér lýðræðislegar hugsanir á ungum aldri getur skipt sköpum seinna á unglings- og fullorðinsárum þegar kemur til dæmis að því að vinna með fólki.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að ungt fólk sem býr í samfélögum þar sem þátttaka í pólitísku starfi er lítil eru þau ólíklegri til þess að hafa áhuga á stjórnmálum. Mörg þeirra hafa neikvætt viðhorf til stjórnmála og finnst þau ekki höfða til sín. Þau eiga erfitt með að skilja tungumálið sem stjórnmálamenn tala og upplifa sig minni máttar í kjölfarið og telja það auðveldara að taka ekki þátt í stað þess að reyna að skilja kerfið.

Ungt fólk upplifir ekki að málefni sem koma þeim beint við séu í hávegi höfð hjá stjórnmálamönnum. Fyrir vikið og ná þau því ekki að tengja við stjórnmálamennina og sjá ekki fyrir sér að þeir geti bætt lífsgæði þeirra. Að þeirra mati skilja stjórnmálamenn ekki aðstæður þeirra og geti ekki sett sig í þeirra spor. Það eitt að stjórnmálamenn reyni að mæta ungmennum þar sem þau eru stödd og geri sér ferðir á staði þar sem auðvelt er að nálgast þau eykur traust til þeirra stjórnmálamanna sem reynir að tengja við þau.

Samfélagsmiðlar hafa skapað nýjan vettvang fyrir stjórnmálamenn til þess að sanna sig fyrir unga fólkinu. Með aukinni notkun samfélagsmiðla ungs fólks streyma aðrir vef- og fréttamiðlar til þeirra hraðar en nokkru sinni fyrr. Samþætting stjórnmála og samfélagsmiðla er merki um að almenningur fær meiri pólitík og stjórnmál í æð en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt fræðimönnum verður ungt fólk fyrir miklum áhrifum þessara miðla og spila þeir stóran þátt í að móta pólitískar skoðanir þeirra. Auðveldara er að hafa áhrif á ungt fólk og móta þannig skoðanir þeirra á stjórnmálum, því eldra sem fólk verður er erfiðara að breyta skoðunum og hugsunarhætti þess.

Kosningaaldur

Rök eru með því og á móti að lækka kosningaaldur niður í sextán ár. Helstu rökin á móti lækkuninni er sú að ungmenni undir átján ára eru ekki talin hafa nægilegan þroska og er þroskinn lykilatriðið í umræðunni um ákvarðanatöku ungmenna í atkvæðagreiðslu. Ásamt því eru ungmenni á aldrinum sextán til sautján ára ekki talin hafa nægilegan þroska til að meðtaka og skilja stjórnmál sem varða þjóðfélagið. Fræðimenn vilja meina að þroskabilið á milli sextán og átján ára aldurs sé of stórt og eru það helstu rökin sem eru sett á móti því að lækka kosningaaldurinn.

Þeir sem eru fylgjandi lækkun kosningaaldurs mótmæla fyrri rökum og færa rök fyrir því að ungmenni frá sextán ára aldri hafi þroska og getu til að móta sér skoðanir til að taka þátt í pólitískum umræðum. Ungu fólki er ekki gefið færi á því að kjósa, sökum aldurs, þrátt fyrir að vera komið með þroska til þess. Með því eru þau svipt tækifærinu til þess að taka þátt í lýðræði og þar með er dregið úr mögulegum áhuga þeirra á því að kjósa.

Þeir sem styðja að lækka kosningaaldurinn telja að ein áhrifamesta leiðin til þess að auka pólitíska þátttöku ungmenna er að samþætta skóla og pólitíska umræðu á þann hátt að koma fræðslu um stjórnmálastarf inn í skóla. Passa þyrfti að fræðslan væri hlutlaus og ekki lituð af skoðunum þess sem fræðir. Sé skerpt á þáttum um fræðslu, hvort sem hún sé á vegum foreldra eða skóla, má gera ráð fyrir að það myndi ýta undir traust og vilja einstaklinga til pólitískrar þátttöku.

Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.