Þarfasti þjónn þjóðarinnar

eftir Snorri Sigurðsson

Öldum saman var íslenski hesturinn kallaður „þarfasti þjónninn“ og bar hann það nafn með rentu. Hesturinn sótti ljósmóðurina við fæðingu og dró kistuna til kirkju við andlát og má því segja að hann hafi fylgt manninum frá vöggu til grafar. Á dögunum gerði Ásmundur Friðriksson þingmaður tilraun til að gengisfella hugtakið með öllu í ræðu sinni á Alþingi um svokallaðar „Skutlaragrúppur“ á Facebook með eftirfarandi orðum:

Svo lengi sem ég man hafa leigubílstjórar verið þarfasti þjónn þjóðarinnar. Þeir eru góðkunningjar almennings og í mínum huga hluti góðra almenningssamgangna í landinu. Nú er sótt að þeim með ólöglegri svartri starfsemi í landinu,

Það er óséð að önnur eins aðdáun á leigubílaþjónustu landsins eigi sér stoð í skoðunum almennings og því hefur hinn frjálsi markaður brugðist við með áðurnefndum hópum sem, þegar þetta er skrifað, telja um 30.000 manns. Taki ég leigubíl heim um kvöld eða helgi 2,9 kílómetra leið frá Lækjartorgi, sem tekur 5 mínútur, kostar það á milli 1900 – 2000 kr.- sem þýðir að tímakaup leigubílstjórans er í kringum 12.000 kr.-

Hvað réttlætir þetta verð?

Röksemdir leigubílstjóra hafa ætíð verið á sama veg, kostnaður við rekstur á bifreiðinni, yfirbygging leigubílastöðva, dýr leyfi, dýrar tryggingar og öryggi. Í fyrsta lagi er  bensínkostnaður við ofangreinda ferð 45 kr.- miðað við eldsneytisverð 9. apríl 2016 og bíl sem eyðir 8 lítrum/100km.  Yfirbygging leigubílastöðva með símaveri og öðru slíku er í öðru lagi barn síns tíma með innreið snjallsíma en um tveir af hverjum þremur Íslendingum, eða 66,4%, áttu snjallsíma árið 2013 og hafði aukist ár frá ári skv. könnun MMR. Tap stjórnvalda á niðurfellingu leyfisveitinga er í þriðja lagi brotabrot af þeim kostnaði við að leysa vandamálið á þann hátt að bæta aðrar almenningssamgöngur, sem undirritaður tæki þó fagnandi. Varðandi öryggisþáttinn hafa fá rök komið fram sem sýna fram á að lögleiðing þjónustu á borð við Uber hefði í för með sér minna öryggi farþega þar sem fólk velur sér bílstjóra, viðskipti fara einungis fram rafrænt og allar ferðir eru skráðar í rauntíma með GPS

Ýtt út í horn

Staðreyndin er sú að bíll með „TAXI“ merki á toppnum er eini valkosturinn ef gullnu reglunni að eftir einn, ei aki neinn er fylgt. Samkvæmt 6. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er bannað að hjóla á reiðhjóli ölvaður og Hjólaborgin Reykjavík á 64 breiddargráðu jarðar kemur því, í fyrsta skipti, ekki til bjargar. Strætósamgöngur leggjast af á miðnætti, á sama tíma og skemmtanalíf í miðborg Reykjavíkur hefst af alvöru. Staðan er því eitthvað á þá leið 8 mánuði á ári að hagsmunamat þarf að fara fram hvort að fólk vilji verða úti, ellegar greiða fúlgur fjár fyrir að komast í háttinn eftir að hafa gert sér glaðan dag.

Er Uber lausnin sem Ásmundur leitar að?

Uber er smáforrit sem hefur það að markmiði að tengja saman farþega og al­menna öku­menn en í gegnum forritið er meðal annars hægt að panta bíl, fylgjast með staðsetningu hans og ganga frá greiðslu. Hagsmunasamtök leigubílstjóra um allan heim hafa vart undan við að hallmæla Uber, enda mikilla hagsmuna að gæta, og í kjölfar bæði mótmæla og dómsmála hefur starfsemin verið takmörkuð í mörgum löndum, þ.á.m. Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi sem gekk hvað lengst og setti bann við þjónustu Uber í lög. Mikilvægt er þó að hafa í huga  að í þessum löndum eru almenningssamgöngur áratugum á undan þeim íslensku og aðstæður allt aðrar sem vonandi hindrar ráðamenn í að líta til þessara mála sem fordæma.

Uber og ESB – dómstóllinn

Uber hóf innreið sínna í Barcelona árið 2014. Félag leigubifreiðastjóra borgarinnar,  Asociación Profesional Élite Taxi leitaði umsvifalaust til dómstóla og krafðist þess að fá lögbann og skaðabætur vegna starfsemi Uber sem færi í bága við spænsk lög um óréttláta samkeppni. Uber mótmælti með þeim rökum að ekki sé um flutningsþjónustu að ræða, heldur snjallsímaforrit sem gerir viðskiptavinum þess kleift að nýta snjallsíma til að panta ferð sem er svo send á bílstjóra, sem nota sína eigin bíla. Uber heldur því þannig fram að það veiti svokallaða „information society services“ sem njóti verndar meginreglu ESB réttar um staðfesturétt og því þurfi Uber ekki leyfi eins og hefðbundnir leigubílstjórar. Spænski dómstóllinn ákvað að leita forúrksurðar ESB-dómstólsins með það að leiðarljósi að fá úr því skorið hvort að þjónusta Uber flokkist sem „flutningsþjónusta.“ Verði niðurstaðan sú að um flutningsþjónustu sé að ræða fellur þjónustan utan gildissviðs tilskipunar 2006/123/EB um þjónustu á innri markaðnum. Það myndi leiða til enn fleiri álitamála sem ekki er rúm til að skýra nánar að svo stöddu.

 Setjum jákvætt fordæmi

Lögleiðing starfsemi á borð við Uber myndi minnka umfang svartrar atvinnustarfsemi Skutlaranna, fjölga valmöguleikum fólks og auka samkeppni, almenningi og ríkiskassanum til hagsbóta. Fylgjum ekki nágrannalöndum okkar í blindni í vernd íhaldssamra leigubílstjóra. Tökum rökstudda afstöðu eftir mat á kostum og göllum starfseminnar í samræmi við aðstæður hér á landi og setjum jákvætt fordæmi fyrir aðra að fylgja.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Snorri Sigurðsson

Pistlahöfundur

Snorri er lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann var gjaldkeri Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, í stjórn Vöku, sat í Umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands auk þess að vera varamaður Vöku í Stúdentaráði. Skrif Snorra í Rómi snúa aðallega að lögfræði og öðru henni tengdu.