Þarf íbúalýðræði að vera dýrt?

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Verkefnið Hverfið mitt er rafræn hugmyndasöfnun á meðal íbúa í Reykjavík. Umgjörðin í kringum verkefnið er talsverð en þar má nefna umsjón með heimasíðu og kosningu, yfirferð hugmynda og aðstoð við íbúa, auglýsingar, hönnunarkostnað og fleira. Hugmyndasöfnunin fer einungis fram á ákveðnu tímabili ár hvert. Árið 2019 stóð hún til dæmis yfir frá 20. mars til 9. apríl. Þá hafa verið ræddar hugmyndir að hafa söfnunina aðeins annað hvert ár. Talsvert er um það að íbúar sendi inn tillögur sem fjalla um eðlilegt viðhald á eignum borgarinnar og í einhverjum mæli er kerfið því dýr leið til þess að komast að því hvar þolinmæði íbúa vegna biðar eftir viðhaldi er helst á þrotum.

Samkvæmt upplýsingum frá Mannréttindaskrifstofu eru áætlaðar 450 milljónir í verkefnið á ári til Umhverfis- og skipulagssviðs. Óljóst er hversu stór hluti af því fer í launakostnað og þá fer einhver hluti þess einnig í forhönnun á þeim 250 verkefnum sem fara í kosningu á hverju ári. Afgangurinn fer síðan í framkvæmd þeirra hugmynda sem hljóta kosningu. Til viðbótar bætist kostnaður hjá Mannréttindaskrifstofu vegna verkefnisins, annars vegar hefur skrifstofan 30 milljónir króna í utanumhald með lýðræðisverkefnum en stærstur hluti þess, um 14 milljónir, fer í auglýsingar og kostnað til dæmis vegna uppsetningar á kosningavef, hýsingu og þróun, og hins vegar eru tvö stöðugildi til Mannréttindaskrifstofu vegna lýðræðisverkefna.

Þrátt fyrir að framangreindar upplýsingar veiti ekki mjög góða mynd af því hversu stór hluti fármagnsins fari í utanumhald virðist mega gróflega áætla að það gætu verið um 40 til 50 milljónir króna á ári hverju eða um 10% af heildarkostnaði. Ekki hefur fengist nákvæmari sundurliðun heildarkostnaðar verkefnisins Hverfið mitt árið 2018 eða hversu mörg af þeim verkefnum sem hafa verið samþykkt á síðastliðnum fimm árum hafa komist til framkvæmda.

Aukið íbúalýðræði og samráð við íbúa er jákvætt enda er samráð lögbundin skylda sveitarfélaga. Það gefur augaleið að þeir sem þekkja nærumhverfið í hverfunum eru líklegir til þess að vera með góðar hugmyndir. Það eru hins vegar sóknarfæri í því að minnka kostnað við utanumhald og tryggja þannig að skattpeningur borgarbúa nýtist betur í framkvæmdirnar og hugmyndirnar sjálfar. Í borgarkerfinu er meira að segja til vettvangur sem myndi henta vel, hann kallast Betri Reykjavík. Kosturinn við þann vettvang er að hann er ávallt opinn fyrir hugmyndum en ekki bara á ákveðnu tímabili. Ef hugmyndin fær 25 hrein meðatkvæði á vefnum fer hugmyndin síðan til umfjöllunar viðeigandi fagráðs innan borgarkerfisins. Hafi hugmynd verið lengur en í eitt ár á samráðsvef eru þær gerðar óvirkar. Hugmyndum sem fá minna vægi er ætlað að vera ráðgefandi fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur í borgarkerfinu.

Munurinn á Hverfið mitt og Betri Reykjavík er þó að hugmyndir sem koma inn í gegnum Hverfið mitt þurfa ekki að fara í gegnum ráð eða nefnd til samþykktar, tækar hugmyndir sem hljóta flest atkvæði í kosningu eiga að komast til framkvæmda. Það má hinsvegar hugsa sér nýja útfærslu af Betri Reykjavík sem fæli í sér að ef hugmynd fengi síðan sérstaklega mikið vægi á ákveðnu tímabili þyrfti hún ekki samþykkt ráðs heldur færi beint til Umhverfis- og skipulagssviðs til nánari útfærslu og framkvæmdar.

Af einhverjum ástæðum hefur vefurinn Betri Reykjavík að hluta til verið starfræktur áfram samhliða verkefninu Hverfið mitt, eitt dæmi af mörgum dæmum um flókna stjórnsýslu og óþarfa eyðslu í stjórnkerfi borgarinnar. Þriðji vettvangurinn er síðan ábendingavefurinn þar sem hægt er að senda inn ábendingar um viðhald. Sjálfvirk svörun gefur til kynna að erindum eigi að svara innan 24 klst. en því miður er ekki hægt að treysta á svo skjót vibrögð. Það lítur því út fyrir að meiri áhersla sé nú lögð á flókna ferlið fremur en einföldustu og hagkvæmustu leiðina.

Það er ruglingslegt að kalla eftir hugmyndum frá íbúm eftir svona mörgum mismunandi leiðum og að minnsta kosti mætti fækka þeim úr þremur og niður í tvær. Megináhersla ætti að vera á eiginlega framkvæmd hugmynda fremur en utanumhald og viðvarandi samráð við íbúa í stað tímabundins. Áður en miklu fjármagni er varið í verkefni sem er einungis starfrækt hluta úr árinu þarf að vera viss um að viðvarandi innviðir og ferlar fyrir ábendingar og almannavilja, samráð og ígrundaða stefnumótun séu áreiðanlegir.

Þess má geta að Sjálfstæðisflokkurinn í borginni hefur lagt til að verkefnið Hverfið mitt verði lagt niður í núverandi mynd með það að augnamiði að sem mest af fjármagni borgarinnar fari beint í framkvæmdir og að samráð við íbúa sé viðvarandi en ekki bara stundum og þegar borginni hentar. Í stað þess kæmi vettvangur sem svipar til fyrirkomulags lýðræðisverkefnisins Betri Reykjavík og ábendingavefur um viðhald verði efldur og kynntur íbúum.

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.