Þarf eitt að útiloka hitt?

eftir Björn Már Ólafsson

Umræða um menntamál hefur ekki verið ofarlega á baugi fyrir sveitarstjórarkosningar í mörg kjörtímabil.

Daginn fyrir kjördag í maí 2014 voru oddvitar flokkanna staddir í myndveri ríkisútvarpsins og báru á borð síðustu loforðin áður en borgarbúar gengu til kjörkassanna. Undir lok þáttarins, þegar búið var að tæma flest önnur málefni ítarlega var spurningin borin á borð. Hvað ætlið þið að gera í menntamálum? Einn eftir einum urðu oddvitarnir þá alvarlegir á svipin og bentu réttilega á að grunnskólamálin væru mikilvægasti málaflokkurinn í borgarmálum. Mikilvægt væri að halda vel utan um þennan málaflokk.

En um hvað snýst umræða um menntamál? Eins og áður hefur verið skrifað um hér á þessari síðu þá hefur læsi nemenda í borginni farið hrakandi undanfarin ár. Niðurstöður i lesskimun borgarinnar á 2. bekkingum árið 2015 voru t.d. borgarfulltrúum áhyggjuefni. Tekið var fram í bókun borgarráðs að þegar hefði verið farið af stað með innleiðingu á nýrri stefnu og stuðning við þau börn sem þurftu á því að halda. Ef innleiðingin var þegar hafin árið 2015 hefðum við sennilega átt að sjá betri árangur strax árið 2017 þegar kynslóð sem hóf skólagönguna árið 2015 væri komin í 2. bekk, en niðurstaðan var önnur.

Slíkar mælingar segja auðvitað ekki alla söguna. En ef niðurstöður síðustu ára sýna okkur eitthvað, þá er það að við virðumst ekki enn hafa fundið réttu lausnina þegar kemur að hrakandi lesskilningi og náttúrulæsi. Sami flokkur hefur haft forystu í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar í 8 ár en árangurinn er enginn. Árið 2016 ályktaði félag skólastjórnenda um stöðu grunnskólanna í Reykjavík. Var þar lýst yfir verulegum áhyggjum af fjárhagslegri stöðu grunnskólanna í borginni og skertri þjónustu við nemendur.

„Á síðustu árum hefur niðurskurður enn verið aukinn og í því sambandi má benda á niðurskurð til sérkennslu á árinu 2015, þar sem fjármagn hefur ekki fylgt launaþróun, auk niðurskurðar til annarra þátta. Sú ákvörðun borgaryfirvalda að skólar flytji nú með sér halla á rekstri ársins 2015 yfir á 2016 mun, um leið og boðaður er frekari niðurskurður, eingöngu leiða til skertrar þjónustu við nemendur í grunnskólum borgarinnar á komandi misserum,” sagði í ályktuninni.

Það er ekki ómálefnalegt að spyrja þeirrar spurningar hvort borgarstjórnarmeirihlutinn hafi staðið við loforð sín undanfarin ár. Barn sem fæddist árið sem núverandi meirihluti komst til valda í borginni er nú komið í 2. bekk. Sú kynslóð hefur ekkert gagn af því að verið sé í dag að vinna að nýrri menntastefnu til ársins 2030 á meðan niðurskurðurinn var svo mikill frá 2010-2016, sér í lagi niðurskurður til sérkennslu. Hver kynslóð skiptir máli.

Pælingar um mælingar

Sif Sigmarsdóttir, pistlahöfundur á Fréttablaðinu, tókst nýlega að hefja smá umræðu um skólamálin í aðdraganda kosninganna með pistli sínum um mælingar á árangri nemenda í hverfisskóla dóttur hennar í London og hvernig þær mælingar voru nýttar til góðs.

Þeim pistli svarði Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands á bloggi sínu sem í mörg ár hefur verið vettvangur fyrir ágæti skrif hans um menntamál. Ragnar er ósammála Sif um mikilvægi mælinga og bendir á það hvernig mælingar geta ekki mælt marga þá þætti grunnskólastarfs sem eru að verða æ mikilvægari í nútímasamfélagi. Varðandi læsi talar Ragnar Þór um að mikilvægt sé að hlúa bæði að tæknilegu hlið lestrarkennslu og hinnar persónulegu hliðar lestraráhuga. Þetta er fínn punktur.

En eru þetta rök gegn pistli Sifjar, og réttlætir þetta gagnrýni Ragnars á fréttaflutning Fréttablaðsins?

Lestraráhugi barna í grunnskólum er nefnilega mældur líka í lesskimun Reykjavíkurborgar. Niðurstaðan þar sýnir að lestraráhugi barna í 2. bekk hefur ekkert batnað frá árinu 2016 og að hann sé í dag lægri en á árunum 2002-2016. Þrátt fyrir að meiri áhersla sé nú lögð á lestraráhuga í kennslu barna og þrátt fyrir að kennsluaðferðin „byrjendalæsi” hafi það að markmiði að með færni fylgi áhugi og ígrundun.

Þannig að nú erum við að leggja meiri áherslu á áhuga barna á lestri en lestraráhuginn hefur ekki batnað og lesskilningurinn hefur hrakað, sérstaklega hjá drengjum.

Birtum niðurstöðurnar

Pisa-prófin eru svo kafli út af fyrir sig. Ragnar segir það vera slappa tilraun til popúlisma Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að krefjast þess að birtar séu niðurstöður einstakra skóla. Það er ekkert leyndarmál að árangur skóla innan Reykjavíkurborgar er misgóður og það á sér margar og flóknar útskýringar eins og félagslegar aðstæður, samsetning, stærð hverfa, menntun foreldra o.fl.

Þessi umræða um hvort birta eigi niðurtöður Pisa-könnunarinnar er ekkert einsdæmi á Íslandi. Nákvæmlega sama umræða fer fram t.d. í Osló í Noregi þar sem hægriflokkarnir vilja birta niðurstöður einstakra skóla á meðan vinstriflokkarnir vilja það ekki. Fyrir mér eru slíkar upplýsingar ekki af hinu illu. Þær veita auðvitað takmarkaðar upplýsingar einar og sér, en sem innlegg í stærri umræðu um skólamál gætu þær nýst frábærlega. Þær sýna þróun árangurs nemenda yfir tiltekið tímabil. Ef farið er af stað með átök eða ný verkefni er þannig hægt að fylgjast með árangrinum – eða skorti á honum.

Upplýsingar sem okkur berast frá fjölmiðlum þurfa ekki alltaf að vera af hinu slæma, jafnvel þótt því fylgi slæmar hugmyndir. Reglulega stíga fram foreldrar sem lýsa svo slæmri reynslu af heimanámi barna þeirra að lagt er til að heimanám verði aflagt með öllu. Margt má segja um heimanám. Það er til bæði gott heimanám sem nýtist nemendum og svo slæmt heimanám sem skemmir heilu kvöldstundirnar fyrir fjölskyldum. Það fer allt eftir kennaranum og markmiðasetningu hans og foreldranna. En með lýðræðislegri og faglegri umræðu er sú hugmynd um að banna heimanám í heild sinni kveðin í kútinn enda yrði slíkt bann afar undarlegt í framkvæmd. En umræðan í sjálfu sér er gagnleg og núansarnir á milli góðs og slæms heimanáms eru upplýsandi fyrir alla.

Listræn örvun þarf ekki að draga úr lesskilningi

Þeir pistlar Ragnars þar sem hann hefur verið hvað sterkastur að mínu mati er þegar hann fjallar um „mennskuna og úrelta færni.”  Þau sjónarmið hans komu einnig fram í máli hans á fundi hjá X hugvit og Samtaka iðnaðarins fyrir rúmu ári síðan. Ljóst er að mannbætandi tómstundastarf og listgreinar munu gegna mikilvægara hlutverki á komandi árum.

Einfalt dæmi um það hvernig listmenntun getur nýst til nýrra starfa er ferðamannastraumurinn til Íslands. Leiklistarnemar eru farnir að ganga í störf leiðsögumanna og styrkja upplifun ferðamanna af ýmsum þeim skemmtunum sem Ísland hefur uppá að bjóða. Í dag vilja allir kaupa sér einhvers konar upplifun. Og til þess að veita fólki upplifun þurfum við að virkja sköpunarkraftinn í okkur. Með tilkomu Snapchat og Youtube eru listrænir einstaklingar komnir með nýjar leiðir til að skapa sér verkefni og jafnvel atvinnu. Það geta ekki allir Íslendingar starfað sem áhrifavaldar og auglýsendur en þróunin er þó skýr og þörf á einstaklingum með færni í mannlegum samskiptum og listrænni framsetningu minnkar ekki á tölvuöld.

En þarf þessi áhersla á mannleg samskipti, listræna hæfileika og ekki síst lýðræðisvitund (orð sem kemur fyrir 100 sinnum í nýjustu námsskrá grunnskólanna) að vera á kostnað lesskilnings og náttúrulæsi?

Ef við gefum okkur það að ein ástæða þess að færri grunnskólanemendur séu farnir að geta lesið sér til gagns sé vegna þess að meiri áhersla sé á „mannbætandi kennslu”, erum við viss um að þessir sömu einstaklingar séu að fá að njóta sín á öðrum sviðum en í bókalestri og stærðfræðireikningi? Ég er ekki sannfærður og samtöl mín við kennara segja mér að þeir séu það heldur ekki.

Að mínu mati þarf að gera skólann einstaklingsmiðaðari. Nemendurnir sem ná ekki lágmarksárangri í læsi þurfa ekki bara á sérkennslu að halda og meira heimanámi heldur gætu þeir þurft á annarri nálgun að halda. Byrjendalæsi hentar kannski ekki öllum en það hentar sumum, og á því að vera fyrir suma.

Lausnin getur verið fólgin í því að fleiri frískólar séu til sem bjóði upp á öðruvísi kennsluhætti. Persónulega myndi ég vilja að hægt væri að hafa alla grunnskólana svo fjölbreytta að ekki væri þörf á að hafa sérstaka skóla sem bjóða upp á öðruvísi kennsluhætti. En raunveruleikinn og fjárveitingarnar í menntakerfinu í dag sýna að grunnskólarnir og vel menntaðir kennarar fá í allt of litlum mæli nægilegt frelsi til að hugsa út fyrir boxið fræga innan veggja hefðbundinna skóla. Skýrt dæmi um það má sjá í því hvernig gengið hefur að innleiða hugmyndafræðina um skóla án aðgreiningar en ég held það sé best að ég fjalli frekar um það síðar.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.