Þar sem unga fólkið býr

eftir Elín Margrét Böðvarsdóttir

Kæri lesandi. Þessi pistill fjallar um stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði á Íslandi. Ef þú telur þig vita nokkurn veginn hver staða mála er í þeim efnum og finnst ólíklegt að þú munir læra eitthvað nýtt, þá er það líklega rétt hjá þér. Þessi pistill hefur ekkert nýtt fram að færa og boðar enga lausn við neyðarástandi á húsnæðismarkaði. Aftur á móti er hann í bundnu máli og í formi örsögu. Kannski hjálpar það við að gera húsnæðismálin þó ekki væri nema örlítið áhugaverðari. Lofa þó engu.

Fyrirvari: Það sem hér á eftir fer er skáldskapur en byggir að hluta til á raunverulegum atburðum úr íslenskri samtímasögu. Skáldskapurinn endurspeglar ekki endilag skoðanir né eigin raunir höfundar. Brotnar verða allar reglur um stuðla og höfuðstafi og íslenskan bragarhátt almennt. Ef til vill er bara veigandi að bragurinn sé brothættur, því húsnæðismarkaðurinn er það líka.

 

Öll við þurfum eitthvað skjól

í örugg hús að venda.

Búa vill jú hver sitt ból

en hvar munum við enda?

 

Löngum hefur langað til

af leigumarkaði að víkja.

Hefur margur hingað til

húsaskjól mátt sníkja.

 

Í foreldrahúsum flestir þeir

fastir sem ekki vinna,

að námi loknu vill mamm’ ei meir:

„Nú húsnæði skalt finna!”

 

Gangast undir greiðslumat

vongóð, ung í anda.

Útkoman er algjört frat,

enn á ný í vanda.

 

Síðasta kynslóð með sveran sjóð

og séreignasparnað á reiðum.

Tilneydd við seljum gamla-skrjóð

og inn á sparnað greiðum.

 

Ávöxtun hefst með bankaferð,

og taka mun tímana tvenna.

Á meðan upp fer markaðsverð

og draumar úr greipum renna.

 

Ekk’ er öll von þó úti enn

þótt búir þú í tjaldi.

Til bjargar koma stjórnmálamenn

með allt í sínu valdi.

 

Ólmir boða úrræði

okkur ungu til bjargar.

Snjöll munu með snarræði,

lausnir boða margar.

 

Það mun líka kosta sitt

og taka langan tíma.

Á meðan þú skalt gera þitt,

við þínar raunir glíma.

 

Með glæsta vinnu í góðæri

og glimrandi fínar tekjur?

Eða lærðirðu á hljóðfæri?

-Úps, við sjáum hvað setur.

 

Hvað sem því og öðru líður

allt mun kosta skildinginn.

Endalaust þú ekki bíður

á loft þú reisir rýtinginn.

 

Jafnvel þó ei alltaf sért

með öll þín mál á tæru.

Ef eitthvað misjafnt hefur gert

þá sækir um uppreist æru.

 

Það er þannig kæra þjóð,

að þó hér ríki friður

þá eftir situr ung kynslóð

með sárt ennið, því miður.

 

Hvernig fer um sjóferð þá

um skal ekki segja.

En sama hvað hér bjátar á

á rétta braut skal beygja.

 

Rakið hef hér sögu langa

og eftir því sem ég best man:

Allt að lokum mun upp ganga

-svo lengi sem þú ert með plan.

 

Ef til vill aftur yrkja skal

Aðra slæma vísu.

Sú verður kannski um súran hval

Eða næstu krísu.

 

Engu að síður áfram mun

-hvar svo sem ég á heima,

minna á að hér varð hrun.

Því skulum aldrei gleyma.

 

Höfundur þakkar þeim er hlýddu. Að öllu gamni slepptu má benda þeim sem hafa raunverulegan áhuga á að kynna sér hugsanlegar lausnir, og þau úrræði sem boðuð hafa verið vegna neyðarástands á húsnæðismarkaði, á húsnæðissáttmála ríkisstjórnarinnar, 14 skrefa aðgerðaáætlun sem kynnt var í byrjun júní. Þá hafa greiningardeildir bankanna, Íbúðalánasjóður (og hér), Samtök atvinnulífsins og ýmsir aðrir aðilar og hagsmunasamtök tekið ástandið vel út.

 

Elín Margrét Böðvarsdóttir

Pistlahöfundur

Elín Margrét er nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fréttamaður á Stöð 2. Hún starfaði áður sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu og ritstýrði Stúdentablaðinu skólaárið 2016-2017. Hún er einn stofnenda og fyrrverandi varaformaður ungmennaráðs UN Women á Íslandi og hefur einnig tekið þátt í starfi Vöku fls.