Það er hægt að virkja svo margt

eftir Sigurður Tómasson

Íslenskur efnahagur hefur alltaf verið drifinn áfram af nýtingu náttúruauðlinda. Fiskur umlykur landið, hægt er að framleiða rafmagn á hræódýran máta, vatnið – heita og kalda – er hægt að dæla upp úr jörðinni á slikk, og svo virðist landið vera afar fagurt ef marka má Instagram fræga fólksins.

Þetta ættu ekki að vera neinar fréttir en þetta eru ástæður þess að Íslendingar geta sætt sig við skítakuldann, sólarleysið og Framsóknarflokkinn. Þetta eru lífsgæðin sem fáar aðrar þjóðir geta boðið upp á með jafnódýrum hætti – og það skiptir máli.

En galli er á gjöf Njarðar. Náttúruauðlindir eru takmarkaðar. Þó að vilji væri fyrir hendi – sem hann er eflaust ekki – þá er ekki hægt að virkja endalaust. Á ákveðnum tímapunkti klárum við fiskinn, og á ákveðnum tímapunkti höfum við virkjað of mikið til að Justin Bieber geti baðað sig annars staðar en í uppistöðulónum.

Þá verður lífsgæðakapphlaupið við aðrar þjóðir erfiðara – og þá getum við ekki lengur leyst vandann með hjálp móður náttúru.

Virkjum hugvitið

Það eru ýmsar atvinnugreinar sem ganga ekki á náttúruauðlindirnar. Til dæmis lætur banka-, heilbrigðis- og menntastarfsemi auðlindirnar alveg í friði. Hins vegar eru þetta atvinnugreinar sem sinna litlu öðru en innlendri eftirspurn og eru stækkunarmöguleikar Heilsugæslunnar á Egilsstöðum frekar takmarkaðir. Hún mun líklega þjónusta fáa aðra en Héraðsbúa. Atvinnugreinar sem byggja ekki á náttúruauðlindum en sinna bara innlendri eftirspurn hafa verið flokkaðar sem innlendi þjónustugeirinn og opinberi geirinn. Þær sem byggja á náttúruauðlindum tilheyra hins vegar svokölluðum auðlindageira.

Atvinnugreinarnar sem tilheyra ekki þessum flokkum – sinna ekki bara innlendri eftirspurn og ganga ekki á náttúruauðlindirnar – eru hluti af hugverkageiranum. Dæmi um slík fyrirtæki eru Össur, Marel og CCP. Þetta eru fyrirtæki sem keppa á alþjóðlegum mörkuðum þar sem eina auðlindin er hugvit, og þar eru vaxtatækifæri Íslands. Þak hugverkageirans er ekki 330.000 innlendir neytendur, heldur 7.400.000.000 erlendir neytendur. Ungu fólki finnst líka eftirsóknarvert að vinna í hugverkageiranum. Tölvunarfræðideildir háskólanna hafa aldrei séð jafnmikla eftirspurn, launin eru há og störfin eru spennandi.  

Hæg en góð skref í rétta átt

Nýverið flutti Bjarni Benediktsson frumvarp sem snéri að fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti og voru lögin samþykkt á Alþingi nú í byrjun júnímánaðar. Viðbrögðin við frumvarpinu voru almennt afar jákvæð að einu atriði undanskildu (sem við tölum um í næsta kafla) og munu lögin án nokkurs vafa vera til þess fallin að styrkja hugverkageirann hér á landi.

Þetta eru tæknileg lög og án þess að fara í fínu saumana eru eftirfarandi atriði þau sem skiptu mestu máli:

  • Erlendir sérfræðingar fá skattaívilnanir. Öll Norðurlöndin bjóða upp á slíkt og voru því litlir fjárhagslegir hvatar fyrir erlenda sérfræðinga að fara frekar til Íslands. Afar gott mál.
  • Aukinn stuðningur við rannsóknir og þróun (R&Þ). Fimmtungur kostnaðar fyrirtækja sem telst til R&Þ kostnaðar má fást endurgreiddur, að hámarki 60 milljónir króna. Þak stuðningsins var 20 milljónir króna áður fyrr.
  • Skuldabréf og kaupréttir verða raunhæfari fjármögnunarleið. Flókið ákvæði – en í stuttu máli sagt var gamla fyrirkomulagið óhagkvæmt og áhættusamt en nú er verið að einfalda það. Sprotafyrirtæki geta haft takmarkað aðgengi að fjármagni og beita t.d. kaupréttum í staðinn til þess að hvetja starfsmenn. Þessi breyting hjálpar mikið og er nú sköttun kauprétta mildari en í Kísildalnum!
  • Auknir fjárfestingahvatar í nýsköpun. Mögulegt verður að draga 30% af tekjuskattstofni einstaklings ef hann fjárfestir í nýsköpun, að hámarki fyrir 10 milljón króna fjárfestingu. Uppfylla þarf mörg skilyrði til að fá afsláttinn svo hann sé ekki misnotaður.

Hvers vegna fór ég samt út í sálma þessara laga? Það er gott að vita að það sé verið að styðja við hugverkageirann og það má lofa það sem vel er gert. Lögin voru hugsuð til þess að bæta aðstæður íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegu samhengi og tekst vel upp með það í tilfelli smærri fyrirtækja – en ekki þeirra stærri.

Þakið lekur

Þó öll ákvæði laganna séu framfaraskref var alls ekki stigið nægilega langt í einu þeirra: þakinu á endurgreiðslu R&Þ kostnaðar fyrirtækja, sem hefði átt að afnema. Þakið er það sem skiptir stóru fyrirtækin, til dæmis risatríóið CCP, Marel og Össur, mestu máli. En af hverju?

Þegar stórfyrirtæki velja staðsetningu fyrir höfuðstöðvar sínar þarf að taka marga þætti í reikninginn. Til dæmis gætu fyrirtæki viljað staðsetja sig þar sem auðvelt er að laða að fólk, þar sem er klasi líkra fyrirtækja – sem er talið auka framleiðni, og síðast en ekki síst þar sem rekstrarhagræði er af staðsetningunni.

Síðastnefndi punkturinn hefur orðið að grundvelli harðrar samkeppni á milli ríkja um hugvitsfyrirtækin. Hvert landið á fæti öðru keppist um að bjóða upp á sem mesta rekstrarhagræði fyrir R&Þ kostnað fyrirtækja (eins og sjá má í bæklingum OECD og Deloitte). Þessi samkeppni á milli landa er auðskilin þar sem bæði samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur er í boði. Fyrirtækin hætta ekki að borga skatta af öllum öðrum rekstri, starfsfólkið greiðir enn alla þá skatta sem ríki telur nauðsynlega og verðmæti þekkingarlekans út í samfélagið (t.d. önnur fyrirtæki og menntakerfið) eru ómetanleg.

Aftur að ákvæðinu. Þakið á endurgreiðslu vegna R&Þ kostnaðar hér á landi var miklu lægra en annars staðar í OECD fyrir breytinguna – og er það enn. Þrefalt hærra þak skiptir jafnframt litlu máli fyrir stórfyrirtækin þegar það er svona lágt – auka 60 milljónir króna eru ekkert hliðin á mögulegum milljarða króna endurgreiðslum annars staðar. Til að setja stærðirnar í samhengi, þá var R&Þ kostnaður Marel um 65 milljónir dollara árið 2014, kostnaður Össurar var um 18 milljónir bandaríkjadollara árið 2015, og áætlun CCP fyrir árið 2016 samsvarar 33 milljónum dollara. Þakið á endurgreiðslu hér á landi nemur tæplega hálfri milljón dollara.

Þessi munur hefur orðið til þess að innlend hugvitsfyrirtæki hafa litið út fyrir landsteinana. Við kynningu á ársfjórðungsuppgjöri Nýherja sagði forstjóri fyrirtækisins um þetta viðfangsefni: “If we’re going to invest 100 million in research and development, and have to choose between Canada or Iceland, it’s 30-40% less expensive to do it in Canada.”

Skiptir máli fyrir framtíðina

Þakið skiptir litlu máli fyrir smærri fyrirtæki og sprotafyrirtæki – sem var megintilgangur laganna. Fyrir þau er þakið nægilega hátt og eru aðstæður sprotafyrirtækja hér á landi góðar. Hins vegar ætti að vera kappsmál fyrir Ísland að halda líka í stærri hugvitsfyrirtæki og byggja þannig upp sterkan hugverkageira. Minni skatttekjur vegna hærra þaks er smámál hliðin á tapinu ef fyrirtækin fara úr landi. Og ef stóru fyrirtækin fara alltaf úr landi, þá munu nýútskrifaðir tölvunarfræðingar gera það líka.

 

Það sem birtist hér að ofan eru persónulegar skoðanir höfundar en endurspegla ekki skoðanir vinnuveitanda hans né annarra.

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson.

Sigurður Tómasson

Pistlahöfundur

Sigurður er hagfræðingur með M.Sc. úr Kaupmannahafnarháskóla og B.Sc. úr Háskóla Íslands. Sigurður starfar nú sem ráðgjafi í Danmörku en áður starfaði hann hjá Viðskiptaráði Íslands og viðskiptafréttadeild Morgunblaðsins. Skrif hans í Rómi beinast einna helst að hagfræðilegum málefnum.