„Það er blessuð blíðan”

eftir Oddur Þórðarson

Okkur Íslendingum, ásamt öðrum þjóðum, er ansi tamt að tala löngum stundum  um veðrið. Það er annað hvort of mikil rigning eða of mikið rok, of mikill snjór eða ekki nógu mikið af honum t.a.m. að morgni aðfangadags, ófært eða greiðfært, hundslappadrífa eða skafrenningur, yfirleitt of kalt eða svalt en þegar heitt er þá er okkur alla jafnan of heitt. Aldrei er neitt nógu gott fyrir okkur.

„Ætlar sumarið aldrei að koma?”

Í sumar hefur þessari tilhneigingu okkar Íslendinga, að tala um veðrið,  verið gefinn laus taumurinn svo landsmenn hljóma eins og biluð plata þegar þeir ræða veðurspá fyrir komandi viku (a.m.k. þeir sem búa sunnan- eða vestanlands). Tíðrætt er hversu glatað þetta sumar hafi verið hingað til og hversu betri fyrri sumur hafa verið. Fjölmiðlar þreytast ekki á að gera slæmt tíðarfarið að fréttaefni sínu og rýna í mælingar fyrri ára og áratuga, komast síðan að þeirri niðurstöðu að ekki hafi rignt meira í maímánuði síðan mælingar hófust eða eitthvað álíka. Þetta verður síðan til þess að landinn kveinkar sér enn meira yfir veðrinu og lætur það fara enn meira í taugarnar á sér.

Fólk vill oft meina að það sé einfaldlega ekki eðlilegt og ekki réttlátt að veðrið á Íslandi sé svona slæmt eða þá að það sé ósanngjarnt að veðrið sé gott í einum landshluta en slæmt í öðrum. Þetta verður að teljast skrýtið. Við teljum okkur „eiga rétt á því“ að veðrið sé betra en það er. Ef við ímyndum okkur eitthvert eitt fyrirbæri sem menn geta ómögulega haft marktæk áhrif á þá segðu flestir sennilega að það fyrirbæri væri veðrið sjálft, samt þreytumst við ekki á því að kveinka okkur undan því.

„Mér er alveg sama svo lengi sem það er gott veður.”

Hvers vegna einbeitum við okkur ekki að því sem er raunverulega óréttlátt og óeðlilegt en jafnframt eitthvað sem við getum breytt og haft áhrif á? Af hverju kvörtum við ekki oft á dag undan því hversu slæmt ástandið er á húsnæðismarkaði eða hversu brothætt heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga er orðið. Ljósmæður kvarta sennilega ekki mikið undan veðrinu þessa dagana, verandi í stífri baráttu við ríkið um mannsæmandi kjör fyrir sína vinnu. Öllu minna kvarta sennilega félagslega einangruð gamalmenni undan veðrinu, hvað þá heimilislaust fólk eða foreldrar þeirra ungmenna sem látist hafa vegna fíkniefnaneyslu. Það fólk hefur nóg annað til þess að hafa áhyggjur af eða til þess að svekkja sig á. Það virðist vera nokkur fylgni milli þess að kvarta undan veðrinu og að hafa það ansi gott.

„Maður þyrfti helst bara að geta stjórnað veðrinu.”

Hafir þú yfir einhverju merkilegra og alvarlegra að kvarta en veðrinu þá eru allar líkur á því að þér sé alveg sama hvort það sé sólskin eða éljagangur. Þess vegna er kannski gott að skoða eðli þess að kvarta undan veðrinu og jafnvel kosti þess að það sé slæmt veður. Við verðum að geta glatt okkur yfir því að hafa ekki undan alvarlegri hlutum að kvarta en fáum sólskinsdögum í júní, með því tekst okkur að venja okkur af þeim ósið að kvarta undan ómerkilegum hlutum sem við höfum ekki stjórn á. Það eru nefnilega mun meira áríðandi hlutir sem þarfnast athygli okkar og umræðu, hlutir sem við getum breytt og haft áhrif á. Í rigningunni og rokinu getum við með réttu hugarfari sannað fyrir sjálfum okkur að það sé fátt annað í lífi okkar kvartana virði en bara örfáir rigningardropar að sumri til – það hlýtur að geta talist ágætis lífsgæði.

 

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.