Þá sjaldan sem (þing)maður lyftir sér upp

eftir Ritstjórn

Við góð tilefni er oft ástæða til að halda góð partý. 100 ára afmæli undirritunar sambandslaganna er ærið tilefni til að kasta af sér beislinu og nákvæmlega það ákvað þingheimur að gera síðastliðinn miðvikudag þegar sérstakur hátíðarþingfundur var haldinn á Þingvöllum.

Miðað við tilkostnað, um 80 milljónir króna, var fögnuðurinn ekki upp á marga fiska. Þegar myndir bárust frá Þingvöllum af undirbúningi hátíðarinnar, uppsetningu stórs sviðs, hljóð- og ljósakerfis, gerðu höfundar þessa pistils sér vonir um stóra rokktónleika eða eitthvað þvíumlíkt. Kannski að Guns and Roses tækju forskot á sæluna. Svo fór ekki og öðrum var eftirlátið að halda uppi stemningunni.

Gert hafði verið ráð fyrir nokkrum þúsundum áhorfanda á svæðinu, en mætingin reyndist afleit og aðeins örfáar hræður gerðu sér ferð til að gleypa í sig anda fullveldisins.

Pía í röngu partýi

Í aðdraganda fundarins fór lítið fyrir honum í fjölmiðlum og hann var lítið sem ekkert auglýstur. Vinstri menn kepptust við að níða skóinn af „elítunni” fyrir að bjóða ekki öðrum en sjálfri sér til veislunnar. Sú gagnrýni bliknaði síðan í samanburði við þann styr er stóð um þátttöku Piu Kjærsgaard, forseta Danska þjóðþingsins, í hátíðarhöldunum.

Forsætisnefnd Alþingis valdi Piu sem sérlegan heiðursgest á Þingvöllum og fulltrúa dansks þings og þjóðar. Margir töldu Piu boðflennu í partýinu og að fullveldinu væri enginn sómi sýndur með því að bjóða henni til Þingvalla. Hún væri enda þátttakandi í allt öðru partýi, Danska Folkepartýinu, eða Danska þjóðarflokknum eins og nafn hans hefur verið þýtt á íslensku. Þjóðarflokkinn má telja þjóðernispopúlískan og hefur hann náð góðri fótfestu í Danmörku. Lengst af hefur Pia verið formaður flokksins og talað gegn innflytjendum og fyrir hefðbundnum dönskum gildum.

Alda þjóðernispopúlisma í Evrópu og Norður Ameríku á undanförnum árum hefur ekki náð hingað til lands og Íslendingar eru flestir umburðarlyndir og góðviljaðir í garð innflytjenda og fólks yfirleitt. Því er skiljanlegt að sumir þingmenn hafi látið í ljós mótmæli á hátíðinni á Þingvöllum.

Sumir báru nælur sem á stóð „Nej til rasisme”, en aðrir gengu lengra, t.d. þingflokkur Pírata og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Píratar afboðuðu sig u.þ.b. hálftíma áður en rútur lögðu af stað til Þingvalla og Helga Vala lét sig hverfa af fundinum þegar Pia tók til máls.

Ætla má að maður með gjallarhorn hafi þó haft vinninginn í mótmælum og lífgað rækilega upp á fundinn með sírenuvæli undir megninu af ræðu Steingríms J. Sigfússonar. Lögreglu reyndist erfitt að ná til hans og handtaka þar sem hann hafði komið sér vel fyrir í fylgsni í klettum Almannagjár. Einkar slunginn mótmælandi þar á ferð.

Að gleypa við gagnrökunum

Píratar hafa réttilega verið gagnrýndir fyrir að hafa ekki gert grein fyrir fyrirætlan sinni fyrr í ljósi þess að lengi hafði legið fyrir að Pia yrði boðuð á fundinn og halda þar ávarp. Einhverjir hafa gefið þau svör að þeir hafi einfaldlega ekki vitað hver Pia væri fyrr en þegar nær dró fundinum. Þær skýringar eru af augljósum ástæðum undarlegar og skaða málflutning Pírata.

Óhætt er að fullyrða að fáir íslenskir þingmenn séu sammála pólitískum málflutningi Piu. Ýmsir hafa þó gagnrýnt framferði Pírata og Helgu Völu og talið þingmennina illa haldna af athyglissýki. Sumir segja að Pia hafi verið í hlutverki fulltrúa dönsku þjóðarinnar og danska þingsins, burtséð frá eigin málflutningi og skoðunum. Aðrir segja að ekki sé hægt að líta framhjá rasískum skoðunum hennar og þar af leiðandi hafi verið ósómi af því að bjóða henni til fundarins.

Það er vert að nefna að aldrei hefur reynst vel að loka augum og/eða eyrum fyrir málflutningi annarra, hversu vitlaus sem hann er. Það er skiljanlegt að viðkomandi þingmenn láti í ljós afstöðu sína til Piu með táknrænum hætti, það er þeim frjálst. Þar er björninn þó ekki unninn, ætli þessir þingmenn sér að hafa teljandi áhrif í baráttu sinni við þjóðernispopúlisma og kynþáttahatur.

Til þess að hafa áhrif dugir ekki að bæla niður málflutning annars fólks, sér í lagi þess fólks sem hefur umboð almennings. Nauðsynlegt er að gleypa við gagnrökunum og færa síðan fram sín eigin.

Til að bregðast við þeirri þróun sem orðið hefur í Evrópu og Norður-Ameríku á síðustu árum þarf í upphafi að greina vandann. Margir hafa lagt sig fram um það, þó ekki nógu margir. Auðmýkt gagnvart vali kjósenda er lykilatriði í þessum efnum.

Fyrir tilstilli kjósenda hafa þjóðernispopúlískir flokkar náð góðum árangri í Evrópu á síðustu árum. Fyrir tilstilli kjósenda er Donald Trump forseti Bandaríkjanna. Fyrir tilstilli kjósenda er Bretland á leið út úr Evrópusambandinu. Fyrir tilstilli kjósenda er Pia Kjærsgaard forseti Danska þjóðþingsins.

Þjóðir á Vesturlöndum þurfa að spyrja sig hvers vegna svona sé fyrir okkur komið. Svör við spurningum á borð við það af hverju Pia Kjærsgaard er forseti Danska þjóðþingsins, munu leiða í ljós ástæður kjósenda fyrir því vali. Þá fyrst kemur forgangsröðun kjósenda í ljós og andstæðingar þjóðernispopúlisma geta sett fram sína sýn á það hvernig þeir geti mætt óskum kjósenda sinna.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.