Tapað stríð

eftir Elísabet Inga Sigurðardóttir

Árið 1997 var sett markmið um fíkniefnalaust Ísland árið 2002. Markmiðið var að berjast gegn ólöglegum fíkniefnum og útrýma þeim innan fimm ára. Eins og flestum er kunnugt gekk það ekki.

Samkvæmt 2.gr laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 er innflutningur, útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla, tilbúningur og varsla efna bönnuð og því refsiverð.

Afleiðing refsihyggjunnar er sú að einstaklingar sem leiðast út í fíkniefni þora síður að leita sér hjálpar á meðan þeir eru úthrópaðir sem glæpamenn. Hræðslan við að lenda á sakaskrá og vera um leið útskúfaður úr samfélaginu er mikil. Á sakaskrá missa þeir í flestum tilfellum vinnuna, jafnvel húsnæði. Leiðin aftur inn á rétta braut er nánast ómöguleg.

Afglæpavæðing fíkniefna

Fíkn er alvarlegur heilasjúkdómur af líffræðilegum toga. Því erum við að glíma við heilbrigðisvanda en ekki glæp. Í stað þess að mál fíkla séu á vegum dómskerfisins ætti að vísa þeim inn í heilbrigðiskerfið. Hjálpa þeim að takast á við fíknina og sömuleiðis út í samfélagið.

Að mínu mati eru boð og bönn ekki vænleg til vinnings. Refsihyggjan skilar ekki sínu, vegna þess að staðreyndin er sú að stríðið gegn fíkniefnum er tapað stríð, því miður. Fíkniefnalaust Ísland gekk ekki upp. Fíkniefni eru til staðar og munu að öllum líkindum alltaf vera til staðar, eins sorglegt og það er. Markaðurinn er gríðarlega stór, veltan mikil og þeir einu sem græða á refsihyggjunni eru glæpasamtök.

Hættum að refsa sjúku fólki     

Með þessum pistli er ég ekki að leggja til að lögleiða fíkniefni. Ég vil einfaldlega afnema refsingar fyrir að hafa neysluskammt undir höndum vegna þess að við refsum ekki veiku fólki, við hjálpum þeim. Það er borðleggjandi. Fíkn er ekki glæpur. Því spyr ég: ætlum við að halda áfram að refsa veiku fólki? Eða ætlum við að horfast í augu við það að stríðið gegn fíkniefnum er löngu tapað og vísa slíkum málum inn í heilbrigðiskerfið?

Elísabet Inga Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Elísabet Inga er laganemi á þriðja ári við Háskóla Íslands. Samhliða náminu starfar hún sem fréttamaður. Á fyrstu árum laganámsins sat hún sem formaður Vöku fls. og var einnig varaformaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.