Sýrlenski Kristinn sem vill til Íslands

eftir Kristinn Svansson

Tíðar eru fréttir sem hafa borist af frávísun hælisleitenda sem dvalist hafa hér á landi um árabil. Fréttaflutningur um þessa atburði fær jafnvel hina vöskustu menn til að klökkna – hvernig getur þetta gerst? Er kerfið svona slæmt? Í þessum pistli leitast ég við að útskýra ferli hælisleitenda á einfaldan hátt.

Tökum dæmi.

Gefum okkur að Kristinn sé hælisleitandi frá Sýrlandi. Hann ferðaðist til Grikklands í uppblásnum báti og sótti þar um hæli. Kristinn ákvað síðan að ferðast áfram til Íslands í von um að öðlast frekar hæli þar, en með umsókn um hæli er hann að biðja um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður. Við komu sína til landsins lagði hann inn hælisumsókn til lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli – og þá tekur Útlendingastofnun við boltanum. Kristinn heldur áleiðis til þeirrar félagslegu íbúðar sem honum er útveguð á vegum Útlendingastofnunar samkvæmt samningi við Reykjavík, Hafnarfjörð og Reykjanesbæ.

Kristinn er boðaður í grunnviðtal hjá Útlendingastofnun þar sem líðan hans og bakgrunnur eru athuguð. Fyrir seinna viðtalið hjá Útlendingastofnun er tekið til skoðunar hvort mál hans skuli sæta svokallaðri Dyflinnarmeðferð. Í einfölduðu máli virkar hún þannig að fyrsta Evrópuland sem hælisleitandi sækir um hæli hjá ber ábyrgð á meðferð umsóknarinnar. Í því felst að það kemur í hlut fyrsta viðkomulands að taka afstöðu til þess hvort viðkomandi eigi rétt á alþjóðlegri vernd. Komi í ljós að annað ríki beri ábyrgð á umsókninni er viðkomandi sendur þangað nema sérstakar ástæður eigi við. Sem dæmi má nefna að ef hælisleitandi hefur sérstök tengsl við landið er eðlilegast að honum sé veitt vernd hér. Hér er um matskennt orðalag að ræða sem bersýnilega er illa nýtt miðað við tölfræðina. Einnig er tekið til skoðunar hvort viðtökuríkið sé ,,öruggt” ríki en lista yfir þau má finna á vefsíðu Útlendingastofnunar. Þó listinn sé umdeildur og í stöðugri endurskoðun er ljóst að hann gegnir veigamiklu hlutverki í ákvörðunum stofnunarinnar.

Samkvæmt tölfræði Útlendingastofnunar fyrir fyrri hluta ársins 2016 sést að rúmlega 80% synjana eiga rætur sínar að rekja til umsókna frá hælisleitendum öruggra ríkja. Matið er sem betur fer ekki svo vélrænt að einungis sé hakað í kassa um að viðkomandi hælisleitandi sé frá öruggu ríki eða ekki, heldur á ítarlegt mat sér stað. Hins vegar þarf mikið til svo að „ofsóknarmarkinu“ svokallaða sé náð: að þú sért að flýja ofsóknir af hálfu stjórnvalda eða einhverra annarra hópa á tilteknum grunni.

Hefði Kristinn verið á flótta undan ógnvænlegu mótorhjólagengi í Þýskalandi og sótt hér um hæli má með nokkurri vissu slá því föstu að mál hans hefði hlotið önnur úrslit. Þó svo að Kristinn sé eflaust í bágri stöðu er Þýskaland öruggt ríki samkvæmt lista Útlendingastofnunar. Þar eru grundvallarmannréttindi í hávegum höfð og borgurum leiðir færar til að tryggja sitt öryggi. Þó svo að það eitt útiloki ekki möguleika Kristins á vernd hér á landi rennir tölfræðin sterkum stoðum undir þá líklegu niðurstöðu að hann yrði sendur úr landi.  Umsókn Kristins hefði sennilega fallið undir tilhæfulausar umsóknir en þær hljóta almennt afgreiðslu á 9-10 dögum.

Kristinn er lánsamur maður. Honum hefur tekist að flýja borgarastyrjöldina í Sýrlandi og honum hefur einnig tekist að snúa á móður náttúru á för sinni yfir Miðjarðarhafið á uppblásinni tuðru. Og lukkan hefur ekki yfirgefið Kristinn. Árið 2010 tók Ísland þá ákvörðun að senda fólk ekki til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og má rekja ástæðuna til aðstæðna hæliskerfisins þar í landi, sem eru afar dapurlegar. Mál Kristins verður því tekið til efnismeðferðar, þó hann hafi fyrst sótt um hæli í Grikklandi. Hefði tuðru Kristins rekið í aðra átt og lent á ströndum Spánar hefði dæmið horft öðruvísi við. Spánn er skilgreint sem öruggt ríki. Kristinn fengi áheyrn Útlendingastofnunar en sökum ríkrar tilhneigingar Útlendingastofnunar á beitingu ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar yrði hann að öllum líkindum sendur aftur til viðtökuríkisins (Spánar í þessu tilfelli).

Rétt er að taka það fram að í Dyflinnarreglugerðinni felst ekki skylda til endursendingar á hælisleitendum til fyrsta viðkomulands, heldur heimild. Færa má öflug mannúðleg rök fyrir því að íslenska ríkið gæti gert betur í þessum málum. Það liggur í augum uppi að sökum landfræðilegrar legu landsins hafa flestir hælisleitendur viðkomu í öðrum löndum áður en haldið er til Íslands. Það er heigulsháttur að skýla sér á bakvið heimild reglugerðarinnar og landfræðilegrar legu landsins.

Þó svo að grundvallarrök Dyflinnarreglugerðarinnar hafi áður átt við rök að styðjast eru aðstæður í heiminum í dag gjörbreyttar. Ísland ætti að sjá sér leik á borði og skapa góðmennskt fordæmi og taka fleiri mál hælisleitenda til efnismeðferðar, jafnvel þó það væri ekki nema tímabundið. Það kann að vera þægilegur raunveruleiki að geta skóflað þessum umsóknum frá okkur í krafti lagabókstafsins en á okkur hvílir mannleg skylda til að gera betur.

Aftur að okkar manni. Kristinn er boðaður í sitt seinna viðtal í fygld með löglærðum talsmanni Rauða krossins samkvæmt samningi Útlendingastofnunar við Rauða krossinn. Í viðtalinu eru kannaðar hverjar ástæður flóttans séu og er viðtalið síðar notað sem grundvöllur í ákvörðun Útlendingastofnunar um hvort honum verði veitt hæli eða umsókn hans synjað. Meginreglan í sönnunarfærslu í hælismálum er sú að frásögn hælisleitenda er nokkurn veginn talin sönn svo lengi sem hún stangast ekki á við það sem er að gerast í landinu sem þú flýrð frá, eða er þeim mun fjarstæðukenndari.

Þannig er mál með vexti að Kristinn var ofsóttur af ISIS í Sýrlandi – og hann segir það í viðtalinu. Þá uppfyllir Kristinn skilyrði flóttamannahugtaksins líkt og það er útfært í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna og í útlendingalögum.

Hvað þarf Kristinn að bíða lengi?

Útlendingastofnun er nýlega búin að ljúka brýnu umbótastarfi hvað varðar málsmeðferðartíma stofnunarinnar en hún hafði sætt töluverðri gagnrýni sökum þess hve tímafrek hún var. Árið 2013 var meðaltími mála í meðferð hjá Útlendingastofnun 271 dagar og dæmi var um að mál tækju 843 daga.

Hávær fréttaflutningur um brottflutning hælisleitenda sem hafa náð að skjóta niður rótum hér á Íslandi og aðlagast samfélaginu hefur í gegnum árin vakið hörð viðbrögð. Jafnan hefur þessum fréttaflutningi ekki fylgt skýring hvers vegna þetta hefur gerst. Ástæður þessa má fyrst og fremst að rekja til málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar, innanríkisráðuneytisins eða kærunefndar útlendingamála. Fólki hefur verið haldið í algjöru limbói um sína framtíðarstöðu á landinu. Slíkt veldur fólki mikilli þjáningu og ég tel það ólíðandi í okkar samfélagi að hælisleitendum sé boðin þessi meðferð.

Nú hefur tekist að stytta málsmeðferðartímann niður í 90 daga að meðaltali. Engan viðmiðunartíma er að finna í útlendingalögum en samkvæmt fyrirmælum innanríkisráðuneytisins ættu málin almennt að taka 90 daga, á sitthvoru stjórnsýslustiginu, Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Ef hælisleitandi er ósáttur með niðurstöðu Útlendingastofnunar kærir hann niðurstöðuna til kærunefndar. Vel hefur gengið hjá Útlendingastofnun að virða viðmiðun ráðuneytisins að undanförnu, en hjá kærunefnd útlendingamála hefur ekki gengið eins vel. Það horfir hins vegar til betri vegar hjá nefndinni enda stendur til að fjölga starfsfólki kærunefndarinnar samkvæmt nýjum útlendingalögum.

Það verður að telja mjög til bóta, enda er það öllum í hag að fá ákvörðun í sínu máli sem fyrst. Meðal þess sem hefur stytt málsmeðferðartímann er fjölgun starfsmanna stofnunarinnar og skýrari verkferlar varðandi forgangsröðun umsókna. Vel rökstuddar hælisumsóknir sem eru líklegar til að leiða til verndar eru settar fremst í röðina. Tilhæfislausar umsóknir eru einnig settar fremst í röðina en algjör óþarfi er að láta slíkar umsóknir liggja í kerfinu þegar yfirgnæfandi líkur eru til staðar að þeim verði hafnað. Slíkt fyrirkomulag verður einnig að teljast sanngjarnt með tilliti til þeirra sem virkilega þurfa á vernd að halda. Fjármunum og úrræðum þeim sem Útlendingastofnun og sveitarfélög hafa yfir að ráða er best varið með þeim hætti.

Með bættum vinnubrögðum starfsmanna Útlendingastofnunar og fjölgun þeirra ásamt gildistöku nýrra útlendingalaga fær umsókn Kristins skjótari aðgang að augum stafsmanna stofnunarinnar. Umsókn Kristins er samþykkt – hlýtur hann réttarstöðu flóttamanns og öðlast dvalarleyfi hér á landi til fjögurra ára og getur sótt um varanlegt búsetuleyti í kjölfarið.

Kristinn Svansson

Pistlahöfundur

Kristinn er laganemi við Háskóla Íslands og er stúdent úr Menntaskólanum við Sund. Hann starfar hjá Símanum í dag. Kristinn hefur mikinn áhuga á lögfræði, líkamsrækt, ferðalögum og góðum bjór. Skrif Kristins í Rómi beinast einna helst að lögfræði, sögu og málefnum líðandi stundar.