Sýndarveruleiki niðurrifsaflanna á Íslandi

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Ef maður ætlaði sér að reyna að meta stöðu Íslands þegar kemur að þáttum eins og t.d. spillingu og ójöfnuði út frá þeirri mynd sem máluð er upp í samfélagsumræðunni væri útkoman ansi skekkt. Miðað við fjölda twitterfærslna, statusa og skoðanagreina í íslenskum miðlum myndi maður líklega ætla að Ísland raðaði sér á bekk með löndum eins og Úkraínu, Líbýu eða Kólumbíu þegar kemur að lífsgæðum; efnislegum og óefnislegum. Hér á ég ekki við nettröll heldur öllu heldur einstaklinga, oft á tíðum vel máli farna, sem skrifa undir nafni.

Nú er það auðvitað svo að bíti hundur mann þykir það ekki endilega fréttnæmt en bíti maður hund þá er það ansi einkennilegt og áhugavert. Í því samhengi mætti ætla að í landi þar sem vel gengur sé frekar neikvæð umræða um innanríkismál en jákvæð. Að hluta til á þetta við um umræðuna á Íslandi. Umræða um hvaða verkefni er brýnt að takast á við og hvernig skuli forgangsraða er eðlileg og af hinu góða, því lengi má gott bæta.

Niðurrifið í mótsögn við raunveruleikann

Það sem veldur hins vegar áhyggjum er orðfærið sem margir virðast nota á Íslandi sem er í engu samræmi við staðreyndir. Á undanförnum árum hefur myndast kúltúr í kringum niðurrif og dómsdagsspámennsku á Íslandi. Stór hluti samfélagsins virðist sannfærður um að heimur versnandi fari á okkar litla landi og kúvendingar sé þörf til þess að komast af heljarþröm hrunsins. Eitthvert skýrasta dæmi undanfarinna ára er sennilega þegar virtur prófessor hélt því fram að Ísland  væri svo löðrandi í spillingu að það  væri í raun enn þróunarland. Þetta er þó alls ekki persónubundið við þennan ágæta prófessor heldur einungis dæmi um umrædda niðurrifs-menningu. 

Það sem bætir gráu ofan á svart er að nú þegar uppgangur er í íslensku efnahagslífi ágerist þessi málflutningur og heift hans eykst. Þegar stefnir í mestu kaupmáttaraukningu heimila í um tvo áratugi virðist það í hugum sumra aðeins merki um að nú hljóti að styttast í næsta hrun.

Ekkert gæti verið fjarri lagi en að Ísland sé þróunarland og aðstæður verða að teljast nokkuð góðar. Ísland er í tíunda sæti á heimsvísu á Félagslegu framfaravísitölunni. Þegar kemur að jöfnuði er Ísland með lægsta Gini stuðulinn af OECD löndunum samkvæmt gögnum frá sömu stofnun en eftir því sem stuðullinn er lægri því meiri er jöfnuður. 

Þegar kemur að landsframleiðslu stöndum við einnig nokkuð vel, samkvæmt vefsíðu CIA erum við í 30. sæti af 229 og Heimsbankinn segir okkur í 18 sæti í heiminum þegar kemur að þjóðarframleiðslu. Í ofanálag má sjá samkvæmt mati í gögnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Íslandi er ætlað að færast alla leið í sjöunda sætið árið 2016.

Tími niðurrifsins er liðinn

Útfrá þessum staðreyndum vilja margir ekki ræða og kjósa heldur að skapa sýndarveruleika þar sem öllu er öfugt farið. Við þetta hugarfar er ekkert uppbyggilegt og því engin ástæða til að taka nema afar hóflegt mark á því. Frekar ættum að leyfa okkur að hugsa stórt og velta fyrir okkur hvernig við nýtum kosti lands og þjóðar með sem bestum hætti fram í tímann. 

Því nú er tími niðurrifsins liðinn.

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.