Sýkta íslenska lambakjötið

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Undanfarin ár og áratugi hefur því markvisst verið haldið fram af framámönnum í íslenskum landbúnaði að íslenska lambið sé svo hreint og óspjallað að sjálf María mey myndi kikna í hnjánum í viðurvist hrokkinhærðu ferfætlinganna. Svo tært væri hið íslenska sauðfé að stjórnvöld síðastliðinna ára hafa frekar markvisst brotið skuldbundingar sínar gagnvart EES-samningnum m.t.t. matvælalöggjafar Evrópusambandsins í stað þess að heimila innflutning á hráu kjöti – í skjóli dulbúinna raka um að búfjárstofninn íslenski og lýðheilsa almennings færu fjandans til ef hrátt útlenskt kjöt yrði selt í íslenskum verslunum.

Það er auðvitað lítið að marka hina rúmu 7,7 milljarða einstaklinga jarðarinnar sem búa utan Íslands og veslast upp víðs vegar um heiminn, enda gæða þau sér á útlensku kjöti, stútfullu af alls konar útlenskum veirum og bakteríum.

Þótt ótrúlegt megi virðast hafði innflutningur Norðmanna á fersku kjöti, eggjum og mjólkurvörum úr ógerilsneyddri mjólk án vandkvæða á lýðheilsu manna eða dýraheilbrigði, sem hófst fyrir nokkrum árum síðan, engin áhrif á afstöðu íslenskra stjórnvalda.

Maðkur í kjötinu

Í síðustu viku kom svo í ljós að íslenska lambið er víst ekki eins tært og raun ber vitni. Í skimum Matvælastofnunar fékkst það staðfest að sjúkdómsvaldandi bakterían STEC E. coli finnst í kjöti af íslensku sauðfé og nautgripum.

Þótt ótrúlegt megi virðast fannst bakterían í 30% sýna af lambakjöti, eða í tæplega þriðja hverju lambi, og 11,5% sýna af nautgripakjöti.

Því er það svo að helstu rök gegn innflutningi á hráu kjöti eru byggð á mýtunni um ósýktan íslenskan búfjárstofn. Skimum Matvælastofnunar staðfestir að sjúkdómsvaldandi bakteríur og sýklalyfjaónæmar bakteríur finnast líka í íslensku kjöti, og rökin því orðin tóm.

Munu neytendur hætta að versla íslenskt?

Stærsta spurningin sem vert er að spurja sig er auðvitað sú hvort að íslenskir neytendur muni frekar hallast að útlendum landbúnaðarvörum, fari svo að frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem heimilar innflutning á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk, verði samþykkt.

Skiljanlega hafa Bændasamtök Íslands gagnrýnt framvarpið. Annað væri óeðlilegt, enda um gríðarlega hagsmuni að ræða. Markaðshlutdeild íslenska kjötsins gæti farið dvínandi á kostnað íslenkra bænda, en það þarf ekki að vera svo, eins og sannaðist þegar tollar voru afnumdir af tómötum, gúrku og papriku fyrir rúmlega fimmtán árum.

Á árunum 2001-2012 jókst framleiðsluvirði grænmetis um 60% að raunvirði. Aukin framleiðni leiddi til hærri launa að raunvirði og jukust laun um 132% í grænmetisgeiranum frá árinu 1998-2010, samanborið við 46% í landbúnaði og 32% í landbúnaði án grænmetisframleiðslu.

Dæmin sanna að íslenskur landbúnaður getur haldið velli

Heilbrigð samkeppni eykur velferð almennings, m.a. með að tryggja lægra verð til neytenda, og leiðir fram hagkvæmni í rekstri. Það þarf því ekki að fara svo að íslenskur landbúnaður líði undir lok verði frumvarp Kristjáns Þórs að veruleika og innflutningur á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk heimilaður, eins og dæmin um íslenska grænmetið sannar.

Kannski mun almenningur njóta góðs af samkeppninni sem óhjákvæmilega á sér stað verði frumvarpið að veruleika.

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.