Svört spegilmynd og framtíðarflækja

eftir Jón Birgir Eiríksson

Nýtt ár er gengið í garð og þjóðin gengin af göflunum í líkamsræktarstöðvum landsins eftir kyrrsetu jólahátíðarinnar. Svo virðist sem „veganúar” verði tískuhreinsunin nú í upphafi árs og er það vel enda salt og reykt kjöt aðeins gott í hófi eins og flest annað. Áramótaheit eru í miklum blóma og munu sum hver ef til vill lifa árið.

Greinarhöfundur er einn þeirra bólgnu og bjúguðu sem hlömmuðu sér í sófann eftir jólaátið og gláptu á sjónvarp. Framtíðarspennuþættirnir Black Mirror urðu m.a. fyrir valinu, en fjórða þáttaröð þeirra kom út á streymisveitunni Netflix þann 29. desember sl. Áður en langt var um liðið voru þættirnir allir sex að baki. Fengin reynsla af fyrri þáttaröðum gaf vísbendingu um að sú fjórða yrði gleypt í heilu lagi.

Í hreinskilni sagt hefur undirritaður ekki mikla innistæðu fyrir háðsglósunum að framan um áramótaheit, hefur enda aldrei tekist að efna áramótaheit og raunar aldrei strengt slíkt heit heldur. Þó gerðist það á liðnu ári að lítil pæling varð að markmiði sem leiddi síðan til nokkurs konar lífstílsbreytingar sem áhugasamir geta tekið upp nú í upphafi nýs árs. Á árinu ákvað undirritaður nefnilega að allt sjónvarpsefni sem horft yrði á skyldi annað hvort:

  1. Vera fræðandi og hafa þannig ákveðinn tilgang og/eða
  2. vera af mjög miklum gæðum, einkum þegar um leikið efni væri að ræða.

Niðurstaða samtals við góðan vin um tímastjórnun hafði leitt til þeirrar niðurstöðu að of mikill tími færi í að horfa á ýmiss konar léttmeti, of marga „fréttarúnta”, gláp á YouTube, skroll á Facebook og aðra slíka tilgangslausa viðveru á veraldarvefnum. Markmiðið var því að láta ósnert allt efni sem ekki svalaði þekkingarþorsta eða þjónaði þeim mun meiri listrænum tilgangi.

Sem dæmi um efni sem féll í flokk fræðandi efnis á þessu ári var heimildamyndin Icarus sem finna má á Netflix (og er algjörlega frábær). Í síðari flokkinn féllu vinsælar þáttaráðir á borð við House of Cards og Game of Thrones, en í báða flokkana féll síðan fjórða þáttaröð Black Mirror.

Framundan er söguspillir (e. spoiler). Þeir sem ekkert vilja vita um söguþráð nýrrar þáttaraðar Black Mirror, stansi hér.

Framtíðin í forgrunni

Black Mirror hafa notið gífurlegra vinsælda undanfarin ár, bæði á Íslandi og á heimsvísu. Black Mirror eru ekki margverðlaunaðir að ástæðulausu enda listavel skrifaðir og leikararnir prýðisgóðir. Umgjörð, leikgerð og leikmyndir þáttanna eru einnig til fyrirmyndar og til gamans má nefna að hluti fjórðu þáttaraðarinnar var tekinn upp í og við Reykjavík, þ.e.a.s. þriðji þátturinn í heild sinni.

Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá eru þættirnir settir fram í nokkurs konar smásögustíl. Hver þáttur er um klukkustund að lengd og segir sjálfstæða sögu. Það einkennir sögurnar allar að þær eiga sér stað í hliðstæðum veruleika eða í náinni framtíð. Handritshöfundar varpa oftar en ekki áhugaverðu og  ógnvænlegu ljósi á tæknilegar nýjungar og samfélagslegar breytingar sem eru í brennidepli í hverjum þætti fyrir sig.

Sem dæmi má nefna að í einum hinna nýju þátta er örflögu komið er fyrir í höfði barns sem gerir foreldri þess kleift að sjá með augum barnsins og jafnvel koma í veg fyrir að barnið sjái „það slæma” sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Í annarri sögu (og þeirri frumlegustu að mati höfundar) er fjallað um tilhugalíf fólks í framtíðinni. Þeim möguleika er velt upp að tölva annist val á mökum í stað þess að fólk þurfi að eyða tíma sínum í að finna sér hinn fullkomna maka. Gæti verið að leitin að þeim eina rétta sé óhemju óskilvirk? Gæti gervigreind ekki leyst verkið betur af hendi en mannkynið sjálft og valið okkur maka hverju um sig?

Áhorfandinn fylli í eyðurnar

Af framangreindu má ráða að þættirnir eru um margt ólíkir og efnistök misjöfn. Eitt er þó sameiginlegt með þeim öllum og það er að leitast er við því að kasta fram áleitnum spurningum, að jafnaði siðferðilegum, án þess að þeim sé svarað sérstaklega í þáttunum sjálfum. Áhorfandanum gefst þannig kostur á að velta þeim fyrir sér upp á sitt einsdæmi og spyrja sjálfan sig afleiddra spurninga, oft heimspekilegra. Þannig hafa margir væntanlega velt upp kostum og göllum þess að foreldrar geti gripið inn í líf barna með þeim hætti sem að framan greinir.

Þættir á borð við Black Mirror eru viðeigandi nú í upphafi 21. aldarinnar enda eru  tæknibreytingar nú hraðari en nokkru sinni. Þó ekkert verði fullyrt um hvort eða hvenær sú framtíð sem Black Mirror fjallar um verði að veruleika, er nú sem áður mikilvægt að leiða hugann að því hvernig framtíðin gæti litið út. 

Black Mirror þjóna þeim tilgangi að vekja fólk til umhugsunar um lífið og tilveruna eins og þau gætu mögulega orðið innan fárra ára. Þannig frjóvga þættirnir forvitni og þekkingarleit áhorfenda. Fyrir utan þetta, er skemmtanagildi þáttanna slíkt að þeir halda áhorfandanum í heljargreipum á meðan. Af þessum ástæðu fellur fjórða þáttaröðin í báða flokkana sem um ræddi að ofan.

Að þessu sögðu verður talið óhætt að mæla með nýjustu þáttaröð Black Mirror í heild. Einnig verður ótvírætt mælt með því fyrir áhugasama að taka til í sólarhringnum, nýta betur stundirnar fyrir framan tölvu- og sjónvarpsskjáina og velja af kostgæfni hvernig tímanum skuli varið þar og annars staðar.

Jón Birgir Eiríksson

Ristjórn

Jón Birgir er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin ár starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu og situr í aðalstjórn Fylkis. Þá sat hann í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík og er nú varamaður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þar áður var hann formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Jón Birgir er einnig píanóleikari hljómsveitanna Bandmanna og Ljósfara.