Svört framtíð neytenda

eftir Ritstjórn

Landbúnaðurinn er í grunninn styrktur með tvennum hætti. Annars vegar með beinum fjárstuðningi og hins vegar með tollvernd. Fjárstuðningurinn er greiddur úr ríkissjóði sem er fjármagnaður með persónulegum tekjum allra landsmanna, og tollverndin passar að ódýrari matur erlendis frá veiti þeim innlenda litla sem enga verðsamkeppni. Þannig fá bændur svigrúm til þess að verðleggja vöruna sína alveg að tollverðinu án þess að eiga hættu á að missa frá sér viðskipti, og einnig stuðning frá skattgreiðendum fyrir að vera að leggja ómakið á sig.

Tvær þjóðir í heiminum styrktu landbúnaðinn sinn meira en Íslendingar samkvæmt mælingum OECD árið 2015: Svisslendingar og Norðmenn. Var þannig stuðningur Íslendinga þrefalt meira en ríkja Evrópusambandsins – af PSE staðlinum að dæma.

Staðreyndin er því sú að Íslendingar þurfa að greiða miklu meira fyrir flestar kjöt- og mjólkurvörur en ef venjulegir viðskiptahættir væru um landbúnaðinn – og við skulum ekki byrja að tala um Mjólkursamsöluna.

Það hlýtur því að gleðja lesendur – sem flestir borga skatta og þurfa að öllum líkindum að borða – að alþingismenn hafi lítinn áhuga á að breyta þessari staðreynd. Svo lítinn, að þeir mæta ekki einu sinni í vinnuna til þess að kjósa um breytingu á því kerfi sem snertir lífsgæði hvers og eins Íslendings jafnmikið og gildir um landbúnaðinn. Þannig greiddu 19 alþingismenn með nýjum búvörusamningnum, 7 á móti og hinir 37 sátu hjá eða voru fjarverandi atkvæðagreiðslunni. Þar með þurfti aðeins þriðjung atkvæða til að tryggja að ein óhagkvæmasta atvinnugrein Íslendinga gæti haldið áfram á spena skattgreiðenda.

Verðugt er að spyrja hvers vegna allir Alþingismenn nema þingmenn Bjartrar framtíðar og Sigríður Á Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, taka svona skýra afstöðu gegn hagsmunum neytenda. Og svarið liggur fyrir. Þegar kemur að bróðurparti innlendrar matvælaframleiðslu mæta neytendur afgangi, og er það af vilja gert. Tökum dæmi.

Neytendur í neðsta sæti

Þegar Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, kynnti frumvarpið svo hægt væri að lögfesta samninginn talaði hann þrisvar um neytendur í tíu mínútna ræðu:

  1. Hér er að mörgu leyti um að ræða tímamótasamninga, ekki bara fyrir bændur heldur einnig neytendur, fólkið í landinu. Með samningunum er verið að auka byggðafestu í landinu og auðvelda nýliðun. Helstu markmið samninganna eru eftirfarandi:
  2. Stuðla að aukinni framleiðslu búvara, bæta samkeppnishæfni landbúnaðarins og afkomu bænda, stuðla að fjölbreyttu framboði heilnæmra gæðaafurða á sanngjörnu verði til neytenda, efla landbúnað sem atvinnugrein í dreifðum byggðum, standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar og stuðla að sjálfbærri landnýtingu.
  3. Virðulegi forseti. Ávinningur þjóðarinnar af samningunum er fyrst og fremst að tryggja okkur fjölbreytt vöruúrval, á heilnæmum afurðum á sanngjörnu verði. Með því að greiða þetta niður og lækka framleiðslukostnaðinn er um leið verið að lækka matarverð til neytenda.

Rök hæstvirts ráðherra fyrir ábata neytenda var því lægra matarverð og fjölbreyttara framboð heilnæmra gæðaafurða á „sanngjörnu verði“. Þetta er rangt. Þegar allur stuðningur er tekin saman er verð á þeim matvælum sem hans njóta með því hæsta sem fyrir finnst. Þetta mun ekki breytast með nýju samningunum þar sem styrkirnir verða nánast jafnháir og auk þess eru tollar á osta hækkaðir úr um 430 kr/kg í yfir 1000 krónur, verðtryggt.

Hvað vöruframboðið varðar þarf rétt að stíga inn í matvörubúðir í Evrópu til að sjá muninn á framboðinu af ostum, rjóma og þar eftir götunum, til að átta sig á því að hæstvirtur ráðherra fer ekki með rétt mál. Jafnframt hefur öll vöruþróun í mjólk komið til vegna samkeppni, nú síðast frá Örnu, sem ríkisverndaða fyrirtækið Mjólkursamsalan hefur lögbundna heimild til þess að kaffæra ef viljinn er fyrir hendi.

Þetta vita allir alþingismenn, og þeir vita líka að nýi samningurinn er engu skárri en þeir gömlu. Þannig lögðust erkióvinirnir Alþýðusambandið og Viðskiptaráð bæði gegn samningunum og ætti það eitt að vera tilefni til endurskoðunar.

Lögin tóku þó einhverjum breytingum áður en þau voru samþykkt. Bætt var við bráðabirgðarákvæði um að skipa samráðshóp þar sem samningarnir verða endurskoðaðir og skal þeirri vinnu lokið eigi síðar en árið 2019. Í þetta skiptið virðast neytendur fá að sitja við borðið en í ákvæðinu stendur: ,,Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni…“. Hins vegar ráða bændur hvort endurskoðaðir búvörusamningar verði samþykktir eða ekki – og gildir þá nýsamþykktur samningur. Því er varla hægt að búast við breytingum neytendum í vil, heldur bændum.

Björt framtíð neytenda með komu Viðreisnar?

Orð Svans Kristjánssonar, prófessors í stjórnmálafræði, um að kosning pírata gegn búvörusamningnum hefði orðið til þess að rústa kosningabaráttu flokksins í þremur af sex kjördæmum landsins eru einkennandi fyrir íslenska pólitík. Flestir flokkar landsins að undanskyldri, Bjartri framtíð, virðast byggja stefnu sína strategískt upp til þess að höfða til landsbyggðarinnar.

Í því samhengi verður áhugavert að sjá hvort hinn nýstofnaði stjórnmálaflokkur, Viðreisn, sem hefur sett það sem eitt af helstu stefnumálum sínum að tala fyrir breytingum á landbúnaðarkerfinu standi í lappirnar með það mál eða lyppist niður andspænis sérhagsmunabaráttu bænda.

Það er hins vegar ekki ljóst. Leiðtogi flokksins í norðurkjördæmi Reykjavíkur, Þorsteinn Víglundsson, hefur til að mynda verið í góðri stöðu til þess að beita sér gegn núverandi kerfi sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) en í umsögn samtakanna var stuðningi við landbúnaðinn fagnað. Ýmsir aðilar innan SA eiga miklum hagsmunum að gæta þegar kemur að búvörusamningunum og hann hefur talið sig þurfa að huga að þeim fremur en neytendum, en þegar hann er kominn á þing hverfa þessir hagsmunir ekki.

Ef flokknum tekst þó að halda þessu stefnumáli sínu til streitu verður um leið ljóst að Viðreisn er ekki aðeins klofningur úr Sjálfstæðisflokknum vegna Evrópumálsins heldur einnig klofningur hægri vængsins á höfuðborgarsvæðinu við hægri vænginn á landsbyggðinni. Slíkt myndi vekja upp áhugaverðar spurningar í íslenskum stjórnmálum og mögulega verða til þess að hinir hefðbundnu flokkar á báðum vængjum þyrftu nú að færa stefnu sína strategískt í átt til höfuðborgarsvæðisins til þess að krækja í það fylgi aftur sem Viðreisn og Björt Framtíð munu koma til með að ná í kosningunum.

Áhugavert verður að sjá hvað gerist að loknum kosningum en það er vonandi að nú loksins vakni fjórflokkurinn upp og endurskilgreini sig strategískt í átt til höfuðborgarinnar, þar sem flestir neytendur búa. Verði af því er líklegt að breytingar á landbúnaðarkerfinu og önnur stór mál náist í gegn. Það yrði mikill gleðidagur fyrir Íslendinga.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.