Svona yrði Trump steypt af stóli

eftir Oddur Þórðarson

Seinasta þriðjudag gætti ansi stórra tíðinda úr bandrískum stjórnmálum. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins, tilkynnti að gera eigi rannsókn á embættisrekstri Donald Trump Bandaríkjaforseta. Þetta er gert með það að markmiði að steypa Trump af forsetastóli. Hann er sagður hafa beitt þrýstingi á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka og safna gögnum um Joe Biden, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandaefni Demókrata til forsetakosninganna árið 2020. Með þeim þrýstingi hafi hann í annarlegum tilgangi sínum ógnað þjóðaröryggi Bandaríkjanna og heiðri kosningakerfisins alls í Bandaríkjunum. Svona komst Pelosi sjálf að orði, líkt og segir í frétt The Washington Post. 

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings

Trump neitar því, að hafa með hótun sinni um að stöðva $400 milljóna framlag til þróunaraðstoðar, beitt úkraínsk stjórnvöld þrýstingi til eins eða neins. Hann segist hafa einungis stöðvað fjárframlagið í þeim tilgangi að vekja evrópsk stjórnvöld til vitundar um hversu hátt framlag Bandaríkjamanna til þróunaraðstoðar sé í samanburði við það sem veitt er af stjórnvöldum í Evrópu.  


Impeachment”

Líkt og kemur fram í fréttum vestanhafs og í hinum enskumælandi heimi er talað um að nú fari fram svokölluð „impeachment inquiry” á embættisfærslum Trump. Ómetnaðarfull og stutt leit að góðri þýðingu skilaði engum góðum niðurstöðum (orðskrípið embættismissir er þó notað í þýðingu á bandarísku stjórnarskránni) en sjálf merking hugtaksins er morgunljós. Fulltrúadeild þingsins mun nú eftirláta einskonar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bandarísku fulltrúadeildarinnar að rannsaka gjörðir Donalds Trump í embætti. Það er í raun og veru verið að leggja fram vantrauststillögu á hendur Bandaríkjaforseta. Að lokinni rannsókn mun neðri deild bandaríska þingsins (fulltrúadeildin) kjósa um þessa vantrauststillögu samkvæmt stjórnarskránni. Muni hreinn meirihluti kjósa um að vantrauststillagan sé réttmæt og að forseti hafi brotið í bága við stjórnarskrána verður öldungadeild bandaríska þingsins falið að skera endanlega úr um hvort Trump sitji áfram sem forseti eða ekki. Til þess að hrekja forseta úr embætti þurfa ⅔ öldungadeildarþingmanna að kjósa með tillögunni.

…high crimes and misdemeanors.”

Forseta, varaforseta og öllum borgaralegum embættismönnum Bandaríkjanna skal vikið úr embætti þegar þeir eru kærðir til embættismissis eða dæmdir fyrir landráð, mútugjafir eða mútuþágu eða aðra meiriháttar glæpi og afbrot.

Svo segir í II. grein, 4. hluta íslenkrar þýðingar á bandarísku stjórnarskránni. Hér kemur fram hvaða gjörðir geta orðið til þess að forseta Bandaríkjanna geti verið steypt af stóli. Landráð, mútugjafir eða mútuþágu og aðra meiriháttar glæpi og afbrot. Það er ansi auðvelt að túlka margt sem „meiriháttar glæpi og afbrot” í starfi forseta. Fjölmiðlar jafnt sem aðrir stjórnmálamenn geta teygt og beygt slík hugtök og eru duglegir við að varpa ólíku ljósi á orð og gjörðir forseta og stjórnmálamanna með ólíkum afleiðingum. Um það snúast stjórnmál. Þess vegna kemur kannski ekki á óvart að aldrei hafi neinn Bandaríkjaforseti þurft að verjast vantrausti nema fyrir einmitt þessar sakir. „…meiriháttar glæpi og afbrot” eða „…high crimes and misdemeanors.” En Trump gæti orðið þriðji forseti Bandaríkjanna í sögunni til þess að þurfa að verjast vantrausti og þarmeð sá þriðji í sögunni vegna túlkunar stefnenda á þessu ákvæði um „…meiriháttar glæpi og afbrot

I did not have sexual relations with that woman”

Bill Clinton forseti Bandaríkjanna árin 1992-2000. Sver hér fyrir að hafa ekki átt í óvíðeigandi sambandi við Monicu Lewinsky.

Aðeins tvisvar hefur komið til þess að fulltrúadeild samþykki vantrauststillögu á hendur forseta. Fyrst gegn Andrew Johnson árið 1868 og síðar gegn Bill Clinton árið 1998. Í báðum tilfellum voru tillögurnar felldar í öldungadeildinni. Andrew Johnson var gert að sök að hafa ógnað öryggi og stöðugleika Bandaríkjanna með því að reka stríðsmálaráðherra sinn á róstursömum tímum. Borgarastyrjöld hafði geisað í Bandaríkjunum árin á undan. Johnson slapp með aðeins eins atkvæðis mun í kosningu öldungadeildar en Bill Clinton slapp þó með meiri mun, en aðeins um 45% þingmanna öldungadeildarinnar kusu að víkja Clinton úr embætti. Líkt og frægt er var Bill Clinton gert að sök að bera ljúgvitni þegar upp komst um samband hans við Monicu Lewinsky, þáverandi starfsnema Hvíta hússins, og kynferðislega áreitni í garð Paulu Jones, starfsmanns hans er hann gengdi embætti ríkisstjóra Arkansas-fylkis. 

…I am not a crook”

Nixon Bandaríkjaforseti gerir sig reiðubúinn að tilkynna um afsögn sína í beinni sjónvarpsútsendingu.

Í tilfellum Jackson og Clinton fór það að mestu eftir flokkslínum hverjir kusu með vantrausti og hverjir ekki. Sömu sögu er þó ekki að segja um Richard Nixon. Nixon er eini forseti Bandaríkjanna til þessa, sem sagt hefur af sér embætti. Þetta gerði hann árið 1974 eftir að hafa játað aðild að Watergate-málinu svokallaða. Í stuttu máli hafði hann yfirumsjón og bar ábyrgð á viðfangsmikilli njósnaaðgerð gegn andstæðingum sínum í Demókrataflokknum. Menn á hans vegum hleruðu síma og fjarskipti flokksskrifstofu Demókrata sem aðsetur hafði í Watergate-byggingunni í Washington D.C. Hann virðist hafa sagt af sér af ótta við að hans eigin flokkssystkin myndu snúast gegn sér þegar kjósa ætti um vantrauststillögu honum á hendur. Það voru enda ekki bara Demókratar í minnihluta sem kölluðu eftir að embættisfærslur Nixon yrðu rannsakaðar heldur líka réttsýnir Repúblikanar sem blöskraði framferði Nixon. Nixon forðaði sér því úr forsetastól Bandaríkjanna á eigin forsendum áður en bandaríska þingið fékk tækifæri til þess að steypa honum þaðan. 

PRESIDENTIAL HARASSMENT!”

Þessi orð notaði Trump sér til varnar á Twitter þegar fréttir bárust um að hefja ætti rannsókn á embættisrekstri hans. Yfirvegað og forsetalegt eins og honum einum er lagið. Það er erfitt að spá fyrir um hvað muni gerast í tilfelli Trump. Svona ferli hafa yfirleitt tekið einhverja mánuði en það gæti þó breyst núna. Demókrötum gæti legið á að klára þetta mál til að geta betur einbeitt sér að forvali forsetaframbjóðenda þar innanborðs. Margt getur enn gerst og gögn í svona málum liggja nú sjaldnast öll fyrir á einum og sama tímanum. Við erum enn á upphafsskrefum þessa stjórnarfarslega ferlis. Hefð hefur skapast fyrir því að þingmenn bandaríska þingsins kjósi eftir flokkslínum í svona málum. Ólíklegt þykir að Repúblikanar, sem eru í meirihluta í öldungadeildinni, fari að kjósa með því að forseti úr eigin röðum skuli víkja.

Líkt og ég sagði áðan er erfitt að spá fyrir um framgang mála. Komi þó einhver ný gögn í ljós, til viðbótar við meintan þrýsting Trump gegn úkraínskum stjórnvöldum, verður gaman að fylgjast með viðbrögðum forsetans. Það yrði auðvitað ein stærsta frétt aldarinnar ef sjálfum Bandaríkjaforseta yrði steypt af stóli. 

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.