Svona gætu repúblikanar rænt völdum

eftir Oddur Þórðarson

Ég hef fylgst með bandarísku forsetakosningunum síðan þær hófust fyrir fleiri mánuðum síðan. Í kvöld ná þær hámarki sínu – kjördagur! Þessi pistill birtist klukkan 06 að íslenskum tíma, daginn eftir kjördag og því gætu úrslitin legið fyrir. Ef ekki, þá er vert að lesa þennan pistil.

Ég hef áhyggjur af tvennu. Í fyrsta lagi hef ég áhyggjur af því að Trump vinni. Yfirleitt fer það svo að þeir sem ég held með tapa, þannig ég hef varann á. Í öðru lagi hef ég áhyggjur af því að Joe Biden vinni með of litlum mun. Þá munu kosningarnar ná hámarki í kvöld, en eiga sér framvindu næstu vikurnar og jafnvel mánuðina og sú framvinda gæti orðið ansi skelfileg.

Stjórnskipan Bandaríkjanna gerir ráð fyrir því að forsetaskipti verði milli kjördags, fyrsta þriðjudag í nóvembermánuði, og 20. janúar þegar næsti forseti, eða þá sitjandi forseti, sver embættiseið. Það er einfaldlega bara ekki gert ráð fyrir því að forseti haldi því til streitu að hann hafi unnið þegar óljóst er hvort svo sé. 

Óhefðbundin hefð

Eitt af því sem kemur í veg fyrir að bandarískt þjóðfélag leysist ekki bara upp í óeirðir og glundroða í lok hverra kosninga, er hefð sem hvorki er stjórnarskrárbundin né bundin í nein önnur lög. Heldur sú einfalda hefð að viðurkenna tap sitt á kosninganótt og draga sig úr kosningunum sjálfum. Hillary Clinton gerði þetta árið 2016, Mitt Romney árið 2012, John McCain fjórum árum áður o.s.frv.

Heilbrigði alls bandaríska lýðveldisins byggir á þeirri stoð að annar frambjóðandinn rjúfi ekki hefðina og dragi sig úr kosningunum á kosninganótt, þegar útséð er að hann geti ekki unnið nægilega marga kjörmenn. Í þeirri stoð hriktir allverulega núna.

Í forsetakosningunum árið 2000, þegar George Bush yngri hafði betur gegn Al Gore var svo mjótt á mununum að Al Gore vildi að atkvæðin í Flórída yrðu endurtalin. Þetta fór alla leið fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna sem sagði að ekki kæmi til endurtalningar. Þá lúffaði Gore, og játaði sig sigraðan opinberlega – hafandi tapað forsetakosningum í ríki þar sem 300.000.000 manns búa, með aðeins um 500 atkvæðum. Hann hlaut meira að segja fleiri atkvæði á landsvísu en George Bush. 

Gore hefði þó getað sleppt því og látið á það reyna að halda sigri sínum til streitu. Það er vegna þess að það er raunverulega hægt að stela bandarísku kosningunum. Það er hægt að hljóta færri atkvæði en mótframbjóðandinn á landsvísu, njóta hylli færri kjörmanna en fá samt að standa á Kapítól-hæð og sverja embættiseið forseta Bandaríkjanna.

Lýðræði fyrir luktum dyrum

Það eru alls konar kosningar, fundir, hefðir og athafnir sem fara fram fyrir luktum dyrum á milli þess að kosningum lýkur og nýr forseti er sver embættiseið. Vanalega skiptir þetta engu máli og er algjört formsatriði, en ef hvorugur frambjóðandi lýsir yfir tapi og báðir halda því til streitu að þeir hafi unnið kosningarnar, þá geta þessar hefðir, athafnir og atkvæðagreiðslur sem fram fara fyrir luktum dyrum allt í einu skipt máli.

Sá sem tapar forsetakosningunum getur, að kosninganótt afstaðinni, barist með kjafti og klóm fyrir dómstólum, innan ríkja, kjörmannaráðsins og jafnvel innan fulltrúadeildarinnar, fyrir því að honum eða henni verði veittur aðgangur að Hvíta húsinu. Til að mynda er hægt að véfengja póstatkvæði, lýsa yfir grunsemdum um að erlend ríki hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar og fleira í þeim dúr til þess að tefja þá ferla sem stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður á um að fari fram á milli kosninga og embættistöku. Þá getur frambjóðandi tekið upp á því að reyna að fá einstök ríki til þess að ógilda niðurstöður kosninganna, vegna meints kosningasvindls eða áhrifa erlendis frá.

Löglegt valdarán

Nú ef að allur þessi sirkus endar svo, eins og lög geta gert ráð fyrir, í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þá geta þingmenn kosið án þess að taka nokkurt tillit til þess hvernig kjörmannaráðið kaus eða bandaríska þjóðin. Þeir geta kosið hvorn frambjóðandann sem þeir vilja. Það sem meira er, þingmennirnir kjósa ekki hverjir um sig, heldur eftir ríkjum. Þingmenn ríkja ákveða sín á milli hvernig ríkið kýs. Ef fleiri meðal þingmanna þess ríksis eru demókratar, þá kýs ríkið að öllum líkindum frambjóðanda demókrata og öfugt.

Það búa mun fleiri Bandaríkjamenn í ríkjum þar sem demókratar njóta meiri hylli kjósenda, en hins vegar eru mun fleiri ríki þar sem fleiri fylkja sér á bakvið repúblikana. Þannig gætu þingmenn þeirra ríkja í fulltrúadeildinni sem hliðholl eru repúblikönum (sem eru mun fleiri en þau sem eru hliðholl demókrötum), einfaldlega útnefnt frambjóðanda þeirra, alveg sama hvort hann tapaði eða ekki.

Þetta getur í alvöru gerst og er ein leið til þess að ræna völdum í lýðræðisríki með fullkomlega löglegum leiðum. Stjórnarskrárbundinn réttur repúblikana til þess að ræna völdum – bókstaflega. Ef fleiri ríki styddu demókrata þá væri þessu þó auðvitað öfugt farið.

————————————————————————-

Þessi orð mín eru að miklu leyti fengin úr fyrirlestri Van Jones um stjórnskipan Bandaríkjanna og kosningarnar í ár. Hann er lögfræðingur, rithöfundur og fyrrum starfsmaður Hvíta hússins. Ég vil ekki eigna mér hans orð og set því hlekk að fyrirlestri hans hér.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.