Svíþjóð: Kapítalíska velferðarríkið

eftir Hjalti Óskarsson

Svíþjóð er í huga margra fyrirmyndarríki vegna mjög góðra lífskjara. Svíar lifa lengi, búa við lága glæpatíðni og mikinn launajöfnuð. Margir líta gjarnan til Svíþjóðar og vilja taka upp sambærilega stefnu – háa skatta og stórt velferðarkerfi. Svíþjóð er áhugavert að því leiti að þrátt fyrir háa skatta til að fjármagna velferðarkerfið hefur hagvöxtur aukist hraðar en í flestum löndum Evrópu, sé litið til seinustu 20 ára og vilja margir meina að það sé vegna stefnu þeirra í velferðarmálum. Í þeim hópi er meðal annars Bernie Sanders, sem nú keppir um tilnefningu Demókrata til forsetaefnis í Bandaríkjunum. Auk þess kemur Svíþjóð reglulega upp í stjórnmálaumræðu á Íslandi þegar rætt er um lönd sem Íslendingar vilja bera sig saman við.

Ég tel að ákveðins misskilnings hafi gætt í umfjöllun um Svíþjóð. Ef saga Svía og samfélag er skoðað kemur í ljós að það er fyrst og fremst öflugt markaðshagkerfi sem hefur búið til svigrúm fyrir öflugt velferðarkerfi. Það má því auðveldlega nota Svíþjóð sem gott dæmi um hversu vel stefna frjáls markaðar, viðskipta og sterks eignaréttar leiðir til aukinna lífskjara eins og raunar hefur verið gert. Svíþjóð varð ríkt á hundrað ára tímabilinu milli 1870 og 1970 og átti það sér stað á sambærilegan máta og hjá öðrum þjóðum sem notið hafa mikillar hagsældar. Með þróun í átt að markaðshagkerfi og með því að tryggja eignaréttindi. Svíþjóð er náttúruauðlindaríkt land, en án vel skilgreinds eignaréttar hefur gnægð náttúruauðlinda ein og sér ekki gert þjóðum kleift að vaxa og er það því grundvöllur þess að Svíþjóð fór frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í að verða eitt ríkasta land heims frá fyrri hluta 19. aldar og fram á 20. öld. Þessir þættir, auk menningarlegra þátta, varpa ljósi á hvernig hægt var að koma á fót stóru velferðakerfi og fjármagna með háum sköttum samhliða markaðshagkerfi.

Mistök í stefnumótun

Hagþróun Svíþjóðar hefur þó ekki alltaf verið upp á við. Tímabilið frá sjöunda áratug tuttugustu aldar og fram á þann tíunda var tímabil stöðnunar í sænska hagkerfinu. Frá seinni hluta 19. aldar og á fyrri hluta hinnar tuttugustu voru aðstæður í hagkerfinu góðar fyrir fyrirtækjarekstur. Mörg af þekktustu fyrirtækjum Svíþjóðar í dag voru stofnuð á þessu tímabili, til að mynda IKEA, Volvo og Ericsson. Vandamálin upp úr sjöunda áratugnum hafa mikið verið rædd og yfirleitt eru þau rakin til lélegrar hagstjórnar og mikilla afskipta ríkisins af atvinnulífinu. Hagfræðingar eru nokkuð sammála um hvaða þættir það voru sem leiddu til stöðnunar, en ekki er almenn sátt um hvað hver þáttur vegur mikið. Til að mynda hvort hægt sé að kenna stóru velferðakerfi einu um, slæmum hagstjórnarákvörðunum eða samverkandi áhrifum. Frá miðjum áttunda áratugnum tók ríkið að niðurgreiða atvinnugreinar sem áttu í vandræðum. Slíkar aðgerðir geta losað um erfiða stöðu til skamms tíma en í stað þess að vinna á rót vandans er honum viðhaldið sem dregur úr framleiðni til lengri tíma. Mikið af reglugerðum voru settar á vinnumarkaðinn sem jók kostnað umfram framleiðniaukningu. Skattar voru hækkaðir en á sama tíma var skattaafsláttur gefin vegna vaxtagreiðslna af lánum sem leiddi til mikillar aukningar í lántöku. Verðbólga og gengisfellingar á tímabilinu ýttu enn frekar undir lántöku sem bjó til fasteigna- og fjármagngsbólu sem átti svo eftir að springa árið 1990. Mikil afskipti ríkisins komu því í veg fyrir að kerfið gæti aðlagast sem dró úr vexti. Hagkerfið varð ófrjálsara, reglur voru óstöðugar og breytingar óútreiknanlegar. Umhverfið versnaði fyrir fyriræki og dró mikið úr frumkvöðlastarfsemi sem lýsir sér í því að stærstu fyrirtækin eftir 1995 voru ennþá að miklu leiti þau sömu og fyrir 1970. Á tímabilinu frá frá 1970 til 1995 fór Svíþjóð frá því að vera fjórða ríkasta land heims, mælt í vergri landsframleiðslu á mann, niður í hið fjórtánda.

Snúið til fyrri stefnu

Á seinustu 25 árum hefur sænska hagkerfinu þó vaxið fiskur um hrygg og hefur hagvöxtur verið hærri en meðalvöxtur í Evrópusambandinu á sama tímabili. Kreppan upp úr 2008 hafði ekki eins mikil áhrif á Svíþjóð og á aðrar Evrópuþjóðir. Þennan vöxt má rekja til umbóta sem farið var í upp úr 1995. Umbæturnar fólu í sér að létt var á reglugerðum, skattar voru lækkaðir og atvinnuvegir einkavæddir aftur. Einkavæðingin náði frá leigubílaþjónustu, rekstri á flug- og lestarsamgöngum og rafmagns- og fjarskiptaþjónustu. Einnig var farið í einkarekstur á skólum þar sem tekið var upp ávísanakerfi. Fyrirtækjaskattar hafa verið lækkaðir, nú seinast 2013 þegar þeir voru færðir niður í 22%. Auk þess hefur tekjuskattskerfið verið einfaldað og hæstu skattþrepin lækkuð. Vöxt seinustu ára er því hægt að rekja til þess að ákveðin skref voru tekin til þess að auka á atvinnufrelsi og samkeppnishæfni í atvinnulífinu. Hér er því ekki um sér sænska lausn að ræða. Heldur einfaldlega afleiðing þess að þungar reglugerðir voru afnumdar og atvinnufrelsi aukið. Samstaða var milli bæði vinstri og hægri flokka um að stefnan sem tekin hafði verið upp úr 1970 hafði slæm áhrif og að umbæturnar sem farið var í yrðu ekki dregnar til baka. Athyglisvert er að bent hefur verið á að Sósíal-Demókratar hafi að mörgu leiti leitt þróunina í átt að frelsisvæðingu hagkerfisins. Svíþjóð er því að færast nær kapítalismanum sem gerði ríkinu kleift að verða mjög auðugt til að byrja með. Til stuðnings þessari niðurstöðu var Svíþjóð annað samkeppnishæfasta land heims samkvæmt Global Competitiveness Index árin 2010-2011 og stendur enn mjög ofarlega eða í 9. sæti, sem rennir frekari stoðum undir jákvæðar afleiðingar afregluvæðingar í Svíþjóð árin eftir 1995.

Hvað má læra af Svíþjóð?

Lærdómurinn sem draga má frá Svíþjóð þegar kemur að vexti hagkerfis er því ekki frábrugðin því sem læra má frá öðrum löndum. Markaðshagkerfi og sterkur eignaréttur leiðir til aukinnar hagsældar. Frá erfiðleikunum upp úr 1970 og hvernig Svíar náðu að losa sig úr þeim er lærdómurinn svipaður. Eins og nefnt var fyrr er erfitt að greina á milli þess hvort erfiðleikarnir hafi stafað eingöngu af velferðarkerfinu eða eingöngu vegna mistaka í hagstjórn. Líklega hefur blanda af mistökum í hagstjórn samhliða stóru velferðarkerfi valdið erfiðleikum. Líklegt er því að í löndum með háa skatta og stórt velferðarkerfi geti léleg hagstjórn valdið meiri skaða en ella. Til þess að ríki geti staðið undir stóru velferðarkerfi er því atvinnufrelsi, góð hagstjórn og stöðugt og fyrirsjáanlegt umhverfi lykilatriði.

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson.

Hjalti Óskarsson

Pistlahöfundur

Hjalti er búsettur í Stokkhólmi og stundar meistaranám í hagfræði við Stokkhólmsháskóla. Áður útskrifaðist hann úr grunnnámi í hagfræði úr Háskóla Íslands og sat í ritstjórn Hjálma, tímarits hagfræðinema við HÍ. Helstu áhugamál hans eru hagfræði, stjórnmál, þungarokk, knattspyrna, vel bruggaður bjór og viskí.