Svefnvana unglingar

eftir Esther Hallsdóttir

Umræða um svefn hefur verið áberandi undanfarið. Sjálf las ég bókina „Why we sleep“ eftir Matthew Walker fyrir rúmu ári síðan og fékk hressilega vakningu. Þökk sé útgáfu bókarinnar og aukinnar umræðu eru sífellt fleiri Íslendingar að verða meðvitaðir um skaðsemi svefnleysis. 

Vonandi verður það til þess að þjóðin sofi meira, en þriðjungur fullorðinna á Íslandi sefur bara sex klukkustundir á nóttu þrátt fyrir að þurfa 7-9 klukkustunda svefn. Staðan er enn verri meðal barna og unglinga, en samkvæmt rannsókn á heilsuhegðun ungs fólks  tæplega 93 prósent 17 ára unglinga ekki átta klukkustunda svefni á skóladögum. 17 ára unglingar sofa að meðaltali sex klukkustundir á nóttu, að helgunum meðtöldum, þrátt fyrir að þurfa 8-10 klukkustunda svefn. 

Afleiðingar slíks svefnleysis eru eins og upplestur úr hryllingssögu. Of lítill svefn eykur líkur á um það bil öllum sjúkdómum sem þú vilt ekki fá, þar á meðal krabbameini, Alzheimers, sykursýki, hjartaáfalli, heilablóðfalli, þunglyndi, geðklofa og geðhvarfasýki. 

Hjá unglingum á viðkvæmum aldri getur svefnskortur haft sérstaklega skaðleg áhrif á geðheilsu og rannsóknir hafa sýnt að svefnskortur meðal unglinga eykur líkur á sjálfvígshugsunum og sjálfsvígum dagana á eftir. Of lítill svefn hefur líka áhrif á minni og úrvinnslu og dregur úr námsgetu. Þreytt börn eiga þannig erfiðara með að læra það sem þeim er kennt í skólanum. Fyrir utan þetta allt er einfaldlega ömurlegt að vera þreyttur á hverjum einasta degi, en það virðist vera staðan hjá langflestum íslenskum unglingum. 

Hver er lausnin? 

Ýmsar hugmyndir hafa komið fram til að stemma stigu við vandanum. Einna háværust hefur umræðan verið um að draga úr skjánotkun unglinga fyrir svefninn og neyslu á orkudrykkjum. Blátt ljós frá skjám seinkar þreytutilfinningu, sem og koffínið úr orkudrykkjum, og getur leitt til þess að börn og unglingar fari seinna að sofa eða eigi erfitt með svefn. Þetta eru án efa mikilvægir þættir sem þarf að skoða. 

Hins vegar hefur önnur tillaga fengið talsvert minni athygli, sem hlýtur þó að teljast ein augljósasta og áhrifaríkasta breytingin til að lengja svefn barna og unglinga: að seinka upphafi skóladagsins.

Dægursveifla barna, það er þeirra innri líkamsklukka, færist framar er þau komast á unglingsaldur og er almennt seinni heldur en dægursveifla fullorðinna. Það þýðir að þau þreytast seinna á kvöldin og líkaminn vill vakna seinna á morgnana. Þessi líffræðilega staðreynd hefur komið letistimpli á unglinga um áraraðir, en það er löngu kominn tími til að þeir fái uppreist æru. 

Rannsóknir gerðar í Bandaríkjunum hafa sýnt fram á að þegar skóladeginum er seinkað sofa börn almennt lengur og í kjölfarið eykst árangur þeirra í námi, þau mæta betur, hegða sér betur, eiga síður við sálfræðileg vandamál að stríða og neyta síður áfengis og vímuefna.[1] Þar í landi hefur fjöldi skóla seinkað byrjun skóladagsins. Samkvæmt íslensku heilsurannsókninni sem vitnað var til hér að ofan mældist svefnskortur framhaldsskólanema í fjölbrautaskólum einmitt minni heldur en nemenda í skólum með bekkjakerfi, enda þurfi þeir síðarnefndu að jafnaði að fara fyrr á fætur. 

Staðreyndin er sú að fjöldi unglinga liggur andvaka í rúminu sínu á kvöldin, getur ekki sofnað fyrr en um eða eftir miðnætti, en þarf síðan að vakna klukkan sjö á morgnana til að mæta í skólann. Þetta stýrist af líffræðilegum þáttum og verður ekki stýrt af vilja.

Seinkum skóladeginum 

Í ljósi þessa er engin spurning í mínum huga að það ætti að seinka skóladeginum, þá sérstaklega á elstu stigum grunnskóla og í framhaldsskóla. 

Nokkrir skólar hafa nú þegar stigið skref í þessa átt. Ingunnarskóli í Grafarholti seinkaði til að mynda byrjun skóladags 6. til 10. bekkjar frá 8:10 til 8:30 árið 2014 og komu börnin að sögn skólastjórnenda hressari og betur upplögð í skólann í kjölfarið. Grunnskóli Vestmannaeyja seinkaði skóladeginum árið 2019 um 10 mínútur, frá 8 til 8:10, og Menntaskóli Borgarfjarðar í Borgarnesi ákvað fyrr á þessu ári að hefja kennslu seinna að deginum eða klukkan níu. Skrefin eru í mörgum tilfellum smá en án efa í rétta átt. 

Fram hafa komið skólastjórnendur með metnaðarfullar hugmyndir um að bæta svefn nemenda, svo sem Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti, sem hefur sagt að skóladagur unglinga ætti að hefjast klukkan 10, eða jafnvel klukkan 11. 

Ég vona að samhliða aukinni vitund um mikilvægi svefns haldi þessi þróun áfram, að fleiri skólar sláist í hópinn og gefi börnum og unglingum tækifæri til að fá dýrmæta svefninn sem þau þurfa svo mikið á að halda. 


[1] Úr bók Matthews Walker, Why We Sleep. 

Esther Hallsdóttir

Pistlahöfundur

Esther er með B.A. gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og starfar hjá UNICEF á Íslandi. Hún er jafnframt ungmennafulltrúi Íslands til Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda. Áður hefur hún setið í Stúdentaráði Háskóla Íslands og í stjórn Vöku fls. ásamt því að gegna formennsku í fjármála- og atvinnulífsnefnd SHÍ.