Svefnlaus í Seattle: Ferðasaga

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Nú í september heimsótti ég Seattle borg í Washington fylki, Bandaríkjunum. Tilefnið var ekki bara það að heimsækja nýja borg heldur mun yngri systir mín verða þar við skiptinám í vetur í rafmagnsverkfræði við Washington University. Borgin er að sjálfsögðu sögusvið þáttanna Grey’s Anatomy, nautnaseggsins Fraisers Crane og fjölskyldu og kvikmyndarinnar Sleepless in Seattle. Þökk sé meðgöngu á sjöunda mánuði og tímamismun tengdi ég mest við síðasta titilinn.

Ég hafði aldrei áður komið til borgar á vesturströnd Bandaríkjanna en áhrif frá Austur-Asíu og Hawaii voru augljós sem mér skilst að megi líka segja um aðrar borgir sunnar á vesturströndinni eins og í San Fransisco. Nálægðin við sjóinn setur líka sitt mark á borgina, ferskt sjávarfang og sushi er auðsótt og veðráttan breytist oft á dag. Þrátt fyrir að það sé eilítið heitara en í Reykjavík er það eins þar og hér að fólk hefur vanist því að klæða sig í nokkur lög vegna þess að veðrið getur breyst oft yfir daginn. Annað sem borgin á sameiginlegt með Reykjavík er að hún er hæðótt en Seattle er jafnvel brattari en Reykjavík.

Samferðabrautir (E. Car Pool Lanes)

Samgöngur frá flugvelli eru góðar en þaðan liggur hraðbraut með fimm akreinum í báðar áttir. Frá hraðbrautinni sést hressandi auglýsingar um lögmannsþjónustu: 800-DUI-AWAY (DUI = Driving under influence). Ein af akreinunum á hraðbrautinni er car pool lane sem leggur áherslu á að hámarka flutning á fólki frekar en flutning bíla. Í Washington fylki eru car pool akreinarnar (tilraun til þýðinga yfir á íslensku: Samferðabrautir) fyrir bíla eða rútur með tvo eða fleiri – eða þrjá eða fleiri farþega innanborðs, eftir tíma dags og fyrirkomulag á hverri hraðbraut. Ökumönnum á mótórhjólum er líka heimilað að aka um þessar brautir en rannsóknir hafa sýnt að þær hvetji fólk til þess að vera samferða.

Deilihjól og gróðurhvelfingar

Síðustu ár hafa verið tekin skref í átt að því að minnka bílaumferð og auka hlut gangandi og hjólandi, til dæmis með lagningu hjólastíga en í fyrra tilnefndi Bicycle Magazine borgina sem bestu hjólaborg Bandaríkjanna. Deilihjólaleigur eru líka á hverju strái. Uber Jump og Lime E sem leigja rafmagnshjól voru mest áberandi sem skýrist líklega af brekkunum. Allir strætisvagnar eru með hjólagrindur framan á vögnunum með plássi fyrir tvö hjól.

Ég og ferðafélagar mínir gistum í Capitol Hill sem er litríkt hverfi og þekkt fyrir líflegt hinsegin samfélag, skreytt fánum og gangbrautum í regnbogalitum.

Fleira við borgina er ferskt og skemmtilegt, þar eru höfuðstöðvar tæknirisanna Amazon og Microsoft. Amazon hefur byggt gróðurhvelfingar í miðborg Seattle sem kallast The Spheres sem er nánast eingöngu fyrir starfsmenn. Þar er hægt að vinna og fá hugmyndir innan um gróður í umhverfi þar sem skrifborð eða veggir eru hvergi sjáanlegir. Annan hvern laugardag er reyndar opið fyrir almenning að skoða hvelfingarnar.

Á fyrstu hæð Amazon er líka spennandi fyrirbæri sem er aðeins að finna í fjórum borgum í Bandaríkjunumi, verslunina Amazon Go, þar sem vörur eru verslaðar með því að taka þær úr hillunni og labba út. Skynjarar í loftinu nema hvaða vöru þú tókst og rukka kreditkort sem hefur verið tengt við app frá búðinni. Kvittunin er síðan send í símann og appið sýnir líka hversu langan tíma verslunarferðin tók:

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.