Sumarið sem aldrei varð

eftir Kristinn Svansson

Það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni að við glímum við einhverja mestu flóttamannakrísu frá því að seinni heimsstyrjöldin reið yfir. Talið er að þá hafi um 60 milljónir Evrópubúa freistað þess að flýja styrjöldina og fátæktina sem henni fylgdi. Í dag eru það hins vegar ekki Evrópubúar sem forðast óöryggi og halda til annarra landa í leit að einhverju betra, heldur er flúið til Evrópu.

Flóttamannavandi samtímans á að mestu leyti rætur sínar að rekja til Miðausturlanda, nánar tiltekið til atburðar sem hlotið hefur heitið arabíska vorið. Atburðar sem kenndur er við árstíð blómstrunar og endurfæðingar en hefur þvert á móti leitt til óstöðugleika, ótta og dauða.

Íbúar Miðausturlandanna höfðu áður búið við samfélag þar sem lífsgæði voru samanburðarhæf við ríku og þróuðu ríkin. En nú hertist tak stjórnvaldanna á alþýðunni með hverjum deginum, og almenningi ofbauð. Spilling virtist vera á hverju strái, mannréttindabrot voru daglegt brauð og stéttarskiptingin varð ýktari. Atvinnuleysi var mikið og ójöfnuður jókst á meðan stjórnvöld og valdamenn böðuðu sig í gulli, því sem næst. Almenningur var að fá nóg.

Eldurinn sem átti að þýða ískaldan veturinn

Upphaf vorsins er almennt talinn vera atburður sem átti sér stað í Túnis þann 18. desember árið 2010. Vörur saklaus manns að nafni Mohamed Bouazizi, sem sá einn um 8 manna fjölskyldu með sölu grænmetis, voru gerðar upptækar af hinu illa ríkisvaldi. Þegar hann leitar síðan réttar sín vegna illrar meðferðar lögreglunnar neitar ríkisvaldið honum um áheyrn. Bouazizi fær nóg, talar ekki við nokkurn mann, fer að ráðhúsinu og kveikir í sér. Ómeðvitað átti bál Bouazizi eftir að breiða úr sér út um alla álfuna. Röð kröfugangna, mótmæla, bæði friðsamlegra og ofbeldisfullra, uppreisna og borgarastyrjalda skópu nýjan svip heimshlutans.

Þau stórfelldu félagslegu öfl sem leyst voru úr læðingi mörkuðu djúp spor í flestum ríkjum heimshlutans. Sýrland hefur setið ofarlega í fréttaflutningi helstu miðla enda óumdeilanlegt að þar hefur byltingin valdið hvað mestri eyðileggingu og harmleik. Þó að sviðnari jörð er vart hægt að finna en í Sýrlandi er ljóst að byltingin teygði anga sína víðar og urðu sum lönd fyrir meiri áhrifum en önnur.

2016_07_26 Kiddi Timeline2

Í Túnis, þar sem Bouazizi bar eld að sjálfum sér, var ríkjandi ríkisstjórn steypt af stóli. Í kjölfarið fylgdi mikið umrót á stjórnháttum landsins sem lauk með nýrri stjórnarskrá. Árið 2014 kusu íbúar landsins síðan í fyrsta sinn í lýræðislegum forsetakosningum síðan landið fékk sjálfstæði árið 1956.

Egypska byltingin fylgdi síðan mótmælunum í Túnis. Í henni hrökklaðist þáverandi forseti Egyptalands Hosni Mubarak frá völdum en hann hafði farið fyrir stjórn Egyptalands hátt í þrjátíu ár. Breyttir tímar virtust í nánd, tími lýðræðis með vilja fólksins í fararbroddi. En von fólks um betri framtíð féll fljótt í skugga valdaráns, sem framkvæmt var af her landsins. Herinn steypti þar af stóli lýðræðislega kjörnum leiðtoga landsins, Mohamad Morsy, og í stað hans settist Abdel Fattah el-Sisi, herforingi, í valdastólinn. Árið 2014 voru forsetakosningar haldnar og bar Sisi sigur úr bítum með 96% atkvæða. Lítið hafði breyst.

Mótmæli í Jemen hófust 27. janúar 2011 og fylgdu þau fordæmi mótmælanna í Túnis og Egyptalandi. Upphaflegar kröfur mótmælenda voru skýrar: langþreyta fólks á viðvarandi atvinnuleysi, slæmum efnahagslegum skilyrðum, spillingu og fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá landsins til þess styrkja völd ríkjandi stjórnar enn frekar. Kröfur mótmælenda stigmögnuðust og brátt voru þeir farnir að krefjast afsagnar forsetans Ali Abdullah Saleh. Hann gafst þó ekki upp þegjandi og hljóðalaust. Eftir kröftug mótmæli sem staðið höfðu um nokkurra mánaða skeið var hernum sigað á mótmælendur þann 18. mars í höfuðborg Jemen. 52 manns létu lífið.

Árásin átti eftir að reynast örlagarík og leiddi til mikils brottfalls úr hernum og afsagna í ríkisstjórninni. Stjórn landsins hafði runnið ríkisstjórninni úr greipum. Að lokum samþykkti Saleh samning þess efnis að vald hans færðist til varaforsetans Abd Rabbuh Mansur Hadi.

Lýðræðislegar forsetakosningar voru haldnar í Jemen þann 21. febrúar árið 2012 og var Hadi eini frambjóðandinn. Hann fékk 99,8% atkvæða og var þar með 33 ára valdatíð Saleh lokið. Vegur lýðræðis virtist loksins markaður og Jemen hafði tekist að hrekja frá völdum táknmynd eldri tíma. Sælan var hins vegar skammvinn og var ríkisstjórn Hadi hrakin frá völdum af Houthi uppreisnarmönnum í byrjun ársins 2015.

Líkt og mótmælin í Jemen hófust mótmælin í Barein friðsamlega í byrjun árs 2011. Kröfur mótmælenda snérust aðallega að auknu pólitísku frelsi og mannréttindum ásamt jafnrétti fyrir Sjía múslima landsins, en Súnní múslimar eru langáhrifamesti þjóðfélagshópur landsins. Það var ekki fyrr en öryggisveitir landsins gerðu skyndiárás að samkomustað mótmælenda á Perlutorgi í höfuðborginni Manama, með þeim afleiðingum að fjórir lágu í valnum og hundruðir særðust, að kröfur mótmælenda breyttust. Nú kröfðust þeir endaloka konungdæmis Hamad bin Isa Al Khali-fa.

Mótmælin stigmögnuðust þar til þann 14. mars þegar yfirvöld fengu liðsauka frá nágrönnum sínum í Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem sáu um að binda enda á mótmælin. Daginn eftir lýsti Hamad bin Isa Al Khalifa því yfir að neyðarlög hefðu tekið gildi í landinu. Mótmæli héldu áfram síðar en með litlum árangri, mótmælendur fengu ekki sínu framgengt. Konungdæmið ríkti enn og kröfur þeirra urðu að engu.

Valdbeiting yfirvalda gagnvart friðsælum mótmælum sem dró yfir 100 manns til dauða voru harðlega gagnrýnd og fordæmd af alþjóðasamfélaginu. Í júní sama ár var gefin út skýrsla sem fór yfir atvik mótmælanna. Í skýrslunni voru staðfestar skipulagðar pyntingar ríkisstjórnarinnar til að kæfa niður mótstöðu mótmælenda. Frásagnir skýrslunnar voru óhugnanlegar en þar kom meðal annars fram að föngum væri gefið raflost, þeir beittir barsmíðum og einnig að augu fanga hefðu verið stungin úr.

Mótmæli í Líbíu hófust 15. febrúar 2011 og leiddu þau af sér hörð átök á milli mótmælenda og stuðningsmanna Muammar Gaddafi. Átökin þróuðust fljótlega út í blóðuga borgarastyrjöld sem dró þúsundir manna til dauða. Alþjóðasamfélagið fordæmdi ríkisstjórn Líbíu. Þann 17. mars 2011 lýsti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna yfir flugbanni á líbísku yfirráðasvæði vegna mikils mannfalls óbreyttra borgara. Í ályktuninni sem Öryggisráðið samþykkti var að finna heimild til frekari hernaðaraðgerða. Tveimur dögum síðar hófu Frakkar, Bandaríkjamenn og Bretar loftárásir gagnvart fylgismönnum Gaddafi.

Að lokum unnu uppreisnarmenn sinn sigur og Gaddafi var hrakinn frá völdum eftir að hafa setið 42 ár við stjórntaumana. Uppreisnarmenn hefðu fengið sínu framgengt með aðstoð vesturveldanna. Í kjölfar þess tómarúms og óstöðugleika sem skapast hafði við brotthvarf Gaddafi hófu mismunandi hópar sína valdabaráttu. Árið 2014 skall á ný borgarastyrjöld sem átti eftir að leiða þúsundir manna til dauða. Mistekist hafði að búa Líbíu undir þá tíma sem fylgdu eftir dauða Gaddafi og hefur Barack Obama sagt orðrétt að það hafi verið hans mestu mistök í forsetatíð sinni.

Mótmæli hófust í Sýrlandi 15. mars 2011 í kjölfar handtöku og pyntingar lögreglunnar á 15 ungmennum sem höfðu ritað slagorð á veggi sem níddu ríkisstjórnina. Mótmælendur kröfðust afnáms neyðarlaga sem ríkt höfðu í 48 ár og höfðu verið beitt til handahófskenndra handtakna og til að koma í veg fyrir pólitíska andspyrnu. Þeir kröfðust einnig meira frelsis og endaloka spillingar ríkisstjórnarinnar. Ákafi mótmælanna jókst hratt. Þann 18. mars lentu mótmælendur í útistöðum við lögregluna. Fjórir létust. Það var svo 20. mars sem skríll bar eld að höfuðstöðvum Ba‘ath flokksins. Lögreglan brást við með því að hefja skothríð á hópa fólks. 15 létu lífið.

Eftir ógeðfelld viðbrögð stjórnvalda við mótmælunum breyttust kröfurnar snarlega. Nú vildi fólkið sjá sjálfan forsetann, Bashar al-Assad, stíga frá. Hundruðir þúsunda mótmælanda héldu út á götu og kröfðust afsagnar Assad. Valdbeiting stjórnvalda í þeim tilgangi að bæla niður mótmælin ýttu aðeins undir elju mótmælenda.

Eftir því sem að ólgan jókst hóf ríkisstjórnin að beita stórfelldum hernaðaraðgerðum til að bæla niður mótspyrnu. Hægt og bítandi fóru uppreisnarsveitir að myndast, betur vopnaðar og skipulagðar. Ofbeldi og átök á milli fylgismanna Assads og uppreisnarmanna um borgir, bæi og landsvæði héldu áfram og áttu einungis eftir að versna. Átökin leiddu á endanum til blóðugrar borgarastyrjaldar sem hefur dregið tæplega hálfa milljón manns til dauða.

Það sem hófst sem einungis enn önnur uppreisn Arabíska vorsins leiddi til mannskæðrar borgarastyrjaldar og átti eftir að verða taflborð valdabaráttu stórvelda heimsins. Afskiptasemi stórveldanna hafa gefið átökunum nýja vídd. Eiginhagsmunapot þeirra hafa stuðlað að frekari og blóðugri átökum en ella. Bandaríkin, Bretar og Frakkland styðja við uppreisnarmenn á meðan Assad og ríkisstjórn Sýrlands nýtur stuðnings Íran, Hezbollah og Rússlands.

Í öllu umrótinu og ringulreiðinni sem skapaðist í Sýrlandi sá nýr leikmaður sér leik á borði: ISIS. Hryðjuverkasamtökin hafa markvisst unnið að því að söðla undir sig land í Sýrlandi og Írak í þeim tilgangi að koma á kalífdæmi með Sjaría lög að leiðarljósi.

Vori lokið en sumar hvergi í nánd

Tímabilið sem fylgdi í lok vorsins hefur stundum, réttilega, verið kallað Arabíski veturinn. Arabíska vorið náði vissulega fram nýjum ríkisstjórnum og breyttum stjórnarháttum en því mistókst að tryggja viðvarandi frið. Miklar vonir voru bundnar við að nýir lýðræðislega kjörnir fulltrúar myndu færa fram betri stjórnarhætti og lífsskilyrði fyrir fólkið sem barðist hafði fyrir breytingum. Án góðrar áætlunar um örlög álfunnar leiddi hið breytta ástand hins vegar einungis til ringulreiðar. Hið Arabíska vor hefur raunar verið rænt af öfgakenndum fylkingum Íslamista sem notfæra sér óstöðugleikann til að skapa sér kalífdæmi. Víða eru uppreisnarsveitir orðnar öflugri en herir ríkjanna sem úrkynjast hafa í ósamhæfðar og í raun óhæfar hersveitir.

Aðskilnaður ríkis og trúar fer minnkandi. Deilur á milli Sádi-Arabíu, sjálfsskipaðs verndara Súnní múslima, og Írans, leiðtoga Shia múslima, gera slæma stöðu enn verri. Utanaðkomandi aðilar hafa dregist inn í átökin, Bandaríkjamenn leiða flughernað gagnvart ISIS og Rússar styðja hart við bakið á Assad Sýrlandsforseta. Arabar eru í sífellt meira magni að verða sundruð þjóð flóttamanna, útlaga og innflytjenda.

 

Ljósmyndin var fengin frá hinum ótrúlega vef Google.

Kristinn Svansson

Pistlahöfundur

Kristinn er laganemi við Háskóla Íslands og er stúdent úr Menntaskólanum við Sund. Hann starfar hjá Símanum í dag. Kristinn hefur mikinn áhuga á lögfræði, líkamsrækt, ferðalögum og góðum bjór. Skrif Kristins í Rómi beinast einna helst að lögfræði, sögu og málefnum líðandi stundar.