Sumarið í hámarki

eftir Ritstjórn

Núna um helgina má segja að sumarið 2016 nái hámarki. Þau sem búsett eru í höfuðborginni munu án nokkurs vafa minnast sumarsins sem eitt hið besta undanfarinn áratug, eða lengur. Sú skoðun mun líklega ekki hljóða jafnhátt út á landi, sérstaklega ekki fyrir norðan. Hins vegar virðist það vera raunin að þegar sumarið er gott í höfuðborginni – er sumarið gott á Íslandi. Þegar það er vont í höfuðborginni, burt séð frá því hvort hitamet séu slegin dag eftir dag á Akureyri, Mývatni eða Egilsstöðum, þá er það iðulega versta sumar í manna minnum.

Að mestu skýrist þessi munur á því að meginþorri Íslendinga tróðu sér á sama stað á meðan hinir eru dreifðir um alla okkar ferkílómetra, en svo eru líka allir okkar blessuðu fjölmiðlar í bænum. Svona eiginlega allir.

Þetta hefur verið viðburðarríkt sumar hér á Íslandi en hæst stendur upp úr EM ævintýrið okkar og að við skiptum um forseta í fyrsta sinn í hundrað og fimmtíu ár (og tekur nýr forseti við á morgun). Síðan nálgast þingkosningar óðfluga og loforðin og atkvæðaveiðarnar aukast í sífellu (nýjasta útspilið má sjá í framlagi ríkisins til ÍSÍ). Þar mun hæst glymja í nýju fallbyssu Sigmundar Davíðs, sem telur sig eiga afturgengt í leikhúsið á Austurvelli, og hálfóhugnalegt er að hugsa sér hvað hann muni segja, lofa eða gera á næstu vikum. Það verður samt gaman að fylgjast með hvernig umræðan mun æxlast – og hlökkum við hjá Rómi til að taka þátt í henni.

Þó þetta sumar hafi verið undantekning hvað varðar atburði í stjórnmálum, innlendis og erlendis, er miklu skemmtilegra að nýta þessa sjaldgæfu sólríku og hlýju daga úti, en að blaðra alla daga inni um pólitík.

Því viljum við óska ykkur lesendur góðir góðrar skemmtunar og biðja alla að fara hægt um gleðinnar dyr – en farið um þær engu að síður.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.