Styðja ekki allir sitt lið?

eftir Ritstjórn

Í vikunni birtist skoðanakönnun um landspólitíkina á Íslandi og voru niðurstöðurnar athyglisverðar fyrir margar sakir. Flokkarnir Björt framtíð og Viðreisn hafa haldið áfram að missa fylgi jafnt og þétt frá kosningunum síðastliðið haust. Margar útskýringar kunna að vera á fylgistapinu. Svo virðist sem Viðreisn sé að reyna að laga stöðuna með því að hefja umræðu um íslensku krónuna, með fjármálaráðherra Benedikt Jóhannesson fremstan í flokki. Þegar fjármálaráðherra skrifar greinar um að hann hafni þeim gjaldmiðli sem ráðuneyti hans stjórnar er ljóst að svolítil ónotatilfinning hefur gripið um sig í herbúðum Viðreisnar.

Ónotatilfinningin er samt vel skiljanleg. Stjórnarsamstarf flokkanna tveggja við Sjálfstæðisflokkinn gengur ekkert sérstaklega illa. Jafnvel með aðeins eins þingmanna meirihluta, þá er ljóst að ástandið í landinu er áfram fínt og eins og oft vill vera í góðæri þá fjalla rifrildi stjórnmálaflokka aðallega um það hvernig eigi að eyða peningum en ekki hvernig eigi að afla þeirra.

En stjórnarsamstarfið hefur ekki gott af þessari fylgislækkun Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ef fylgið fellur áfram kunna einstakir þingmenn eða ráðherrar að leita skjótra leiða til að vekja athygli á sér eða málstað sínum. Þeir sjá hag sinn kannski í því að kjósa gegn ríkisstjórninni í ákveðnum málum til þess eins að þiggja athyglina. Það kann ekki góðri lukku að stýra í stjórnarsamstarfi.

Það vakti líka athygli í skoðanakönnuninni sem birtist í vikunni að flokkur fólksins mældist sjötti stærsti flokkurinn, með yfir 6% fylgi. Fylgið hans er þar með meira en fylgi Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Þegar ástæðan fyrir þessu fylgi er skoðuð virðist sem Inga Sæland sé aðalástæðan. Í júlí var haldinn svokallaður Sumarfundur fólksins í Háskólabíó þar sem Inga sjálf, Ellert B Schram og Ragnar Þór Ingólfsson voru ræðumenn. Um mitt sumar í miðju góðæri tókst Ingu að fylla Háskólabíó með fundi um stjórnmál. Hvað sem stefnumálum líður og hversu frjálslynd þau eru, þá er ljóst að Inga hefur gott fingerspitzengefühl fyrir því hvað það er sem brennur á ákveðnum hópi fólks í landinu.

Allir áhugasamir um EM kvenna

Ánægjulegt hefur verið undanfarnar vikur að fylgjast með íslenska kvennalandsliðinu á EM í Hollandi þótt ævintýrið hafi verið á enda nú í þessari viku. Frammistaðan á mótinu var ágæt í fyrsta leiknum en síðustu tveir leikirnir voru hrein og skær vonbrigði fyrir alla stuðningsmenn liðsins. Það er eitthvað sem leikmennirnir sjálfir vita best af öllum og taka vonandi með sér inn í næstu undankeppni. Það glæðir sumarið svo miklu lífi að hafa landsliðin með á svona stórum íþróttaveislum á meginlandinu.

Umfjöllunin um kvennalandsliðið hefur líka verið frábær í alla staði og nær allir fjölmiðlar landsins hafa verið með greinargóða og skemmtilega umfjöllun um mótið. Þessi athygli leiddi líka til þess að þegar stelpurnar duttu úr leik, varð gagnrýnin í þeirra garð gríðarlega mikil. Þetta er hins vegar einungis jákvætt teikn. Mestu kröfurnar gerir fólk til þeirra sem það þykir vænt um. Mestu væntingarnar hefur fólk til þeirra sem það veit að getur gert betur. Þetta á við um landsliðið. Ef enginn Íslendingur hefði kippt sér upp við lélega frammistöðu í leikjum á EM, þá væri það einfaldlega vegna þess að öllum væri sama. Enginn er kröfuharðari í garð knattspyrnuliða en eigin stuðningsmenn þess.