„Strákar, færið ykkur!”

eftir Elín Margrét Böðvarsdóttir

„Hæ, ég heiti Elín og ég er femínisti.”

„Hæ Elín,” svarar hópur fólks sem á við sama vandamál að stríða og ég. Við erum saman komin til að ræða vandann okkar á milli og hvað við getum gert til þess að bæla niður þörf okkar fyrir að berjast fyrir kvenréttindum, rétt eins og samfélagið þrýstir á okkur að gera.

Þó svo að þetta dæmi hér að ofan sé nokkuð ýkt þá er þetta ekki algalið. Mörgum í samfélaginu þykir það svo mikið tabú að vera femínisti að það er ekki fjarri raunveruleikanum að femínistar kjósi að leita sér hjálpar og stuðnings vegna skoðana sinna eða bæli þær niður. Það er eins og einhver bölvun hvíli á þessu hugtaki; femínismi.

….

Þessi sömu orð skrifaði undirrituð í Verzlunarskólablaðið árið 2013, í grein sem bar titilinn „Það er tabú að vera femínisti.” Þarna var ef til vill full djúpt í árinni tekið en ég hef í það minnsta séð ástæðu til að skrifa umræddan pistil í umrætt skólablað á sínum tíma, en Verzló hafði þá stundum það orð á sér að vera „karlaveldi.” Það er þó sem betur fer að breytast eftir því sem ég best veit og ég hefði sennilega aldrei skrifað þennan pistil með þessum hætti í dag.

Nú, ekki nema fjórum árum síðar, er kannski nær að halda því fram að þessu sé öfugt farið: „Það er tabú að vera ekki femínisti,” og á ég þá við samfélagið í heild en ekki aðeins Verzlunarskólann.

Þarf að „hleypa konum að”?

Tilgangurinn með skrifum mínum í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, er þó síður en svo að rífast um hugtakið femínisti. Ætli það sé ekki ennþá jafn umdeilt og það var árið 2013 og satt best að segja er mér slétt sama hvort fólk kýs að kalla sig femínista eða ekki. Það í sjálfu sér skiptir ekki nokkru máli í stóra samhenginu.

Gríðarlega hröð þróun hefur verið í jafnréttismálum á Íslandi undanfarin ár og leyfi ég mér að fullyrða að ákveðin viðhorfsbreyting hafi átt sér stað í samfélaginu á nokkuð skömmum tíma. Það er mikið fagnaðarefni, en gætum okkar þó að fara ekki of geyst. Hér kunna einhverjir að vera ósammála mér, en gott og vel.

Á sama tíma og ég fagna þeim framförum sem hafa orðið í jafnréttismálum hér á landi, þykir mér miður þegar það er talið nauðsynlegt að grípa til ýmis konar ráðstafana til að „hleypa konum að.” Hinar og þessar íhlutanir og svona og hinsegin kynjakvóta, tel ég ekki vera ákjósanlegustu leiðina í átt að auknu jafnrétti. Hér á landi eru karlar og konur jöfn að lögum og eiga að njóta sömu réttinda og tækifæra í hvívetna. Því spyr ég mig; hvers vegna þurfum við fleiri lög og reglugerðir, gagngert í þeim tilgangi að „hjálpa” konum að ná lengra?

Þess ætti auðvitað ekki að þurfa, en jú; ennþá ríkir ójafnrétti á ýmsum sviðum samfélagsins. Vilja margir meina að róttækar aðgerðir séu eina leiðin til að ná árangri enda hafi sagan sýnt okkur að það dugi ekkert minna. Og það er alveg rétt. Ekki dettur mér í hug í eina sekúndu að gera lítið úr þeirri baráttu sem kom okkur á þann stað sem við erum á í dag. Þó ýmislegt megi enn gera betur tel ég þó að íhlutanir á borð við kynjakvóta séu ekki sú róttæka aðgerð sem vænlegust sé til vinnings.

Við eigum frekar að bæta réttarkerfið, menntakerfið og þjónustu við þolendur (og gerendur) hvers kyns ofbeldis, svo fátt eitt sé nefnt. Ekki setja á kynjakvóta og segja; „strákar! færið ykkur, hér kemur stelpa sem þarf að komast að en hún kemst ekki nema að þið stígið til hliðar.” Það viðhorf þykir mér ósanngjarnt gagnvart báðum kynjum.

Sjálf hef ég ekki minnsta áhuga á að komast á þann stað sem ég stefni á í lífinu á grundvelli kyns míns. Að sama skapi vil ég ekki að kyn mitt reynist mér hindrun. Það er óþolandi að kyn sé yfir höfuð með inni í jöfnunni. Þannig á það ekki að vera og þannig vil ég ekki þurfa að haga mínu lífi.

Persónulega þætti mér sem konu það frekar vera niðurlægjandi að vera hleypt að af því að það „var kominn tími á konu” eða af því það þurfti að jafna kynjahlutfallið. Bjóddu mér að minnsta kosti ekki sæti í stjórn þíns fyrirtækis af því þig vantar konu. Bjóddu mér sætið ef þú óskar eftir kröftum mínum, reynslu og hæfileikum.

Kennum feðraveldinu

Fyrst og fremst ættum við að leyfa samfélagslegu viðhorfi halda áfram að þróast í rétta átt en ég er sannfærð um að sú þróun sé þegar að eiga sér stað. En auðvitað megum við ekki sofna á verðinum. Ef til vill eru þetta draumórar í mér en ég er þá tilbúin að éta það ofan í mig. Hættum að kenna feðraveldinu um alla skapaða hluti, við græðum ekkert á því, reynum frekar að kenna feðraveldinu.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér á landi njótum við ákveðinna forréttinda þegar kemur að jafnréttismálum og að á sama tíma njóti hér sumir meiri forréttinda en aðrir. Öll getum við þó lagt eitthvað af mörkum í jafnréttisbaráttunni með einum eða öðrum hætti. En plís getum við sleppt því að gera það með þvingunaraðgerðum?

Ég ætla að ljúka þessum pistli á fleiri orðum úr greininni sem birtist í Verzlunarskólablaðinu um árið. Ólíkt upphafsorðum þessa pistils, þá stendur þetta viðhorf mitt algjörlega óbreytt:

Ég er orðin leið á að allir femínistar séu settir undir sama hatt og þeirri mýtu að allir femínistar hafi sömu skoðanir.

Ég er femínisti af því að ég tel óréttlátt að ekki sé komið fram við konur á jafnréttisgrundvelli alls staðar í samfélaginu. Ég er femínisti af því að ég vil að konur geti haft aukin völd á heimsvísu, til jafns við karla. Ég er femínisti af því að mér finnst að konur megi vera sexý án þess að litið sé á þær sem kynlífsleikföng, druslur eða þeim líkt við klámstjörnur. […] Ég er femínisti af því að mér finnst að stelpur megi ganga í skóla. Ég er femínisti af því að ein af hverjum þremur konum í heiminum verður fyrir ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni, kyns síns vegna. Ég er femínisti af því að í mörgum löndum heims eru engin lög sem banna nauðganir, þvinguð hjónabönd og morð á eiginkonum. Ég er femínisti af því að ég get haft áhrif og lagt mitt af mörkum. Ég er femínisti af því að ég er manneskja.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

Pistlahöfundur

Elín Margrét er nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fréttamaður á Stöð 2. Hún starfaði áður sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu og ritstýrði Stúdentablaðinu skólaárið 2016-2017. Hún er einn stofnenda og fyrrverandi varaformaður ungmennaráðs UN Women á Íslandi og hefur einnig tekið þátt í starfi Vöku fls.