Stórasta mynt í heimi

eftir Alexander Freyr Einarsson

Íslenska krónan hefur verið á mikilli siglingu undanfarið ár og styrkt stöðu sína umtalsvert gagnvart helstu samanburðargjaldmiðlum. Eftir að hafa tekið mikla dýfu í kjölfar hrunsins er þessi örsmáa mynt að taka aftur við sér og undanfarna 12 mánuði hefur hún styrkst um 23% gagnvart breska pundinu, 11% gagnvart Bandaríkjadal, 10% gagnvart evrunni og 10% gagnvart öðrum norrænum myntum. Ef litið er tvö ár aftur í tímann hefur krónan styrkst um 16% gagnvart dönsku krónunni, 19% gagnvart þeirri sænsku og heil 25,6% gagnvart þeirri norsku.

Enn er langt í land þar til krónan verður jafn sterk og hún var árin fyrir hrun, þegar Bandaríkjadalurinn kostaði 50-60 krónur og allt í útlöndum virtist vera nánast ókeypis. Þó svo að flestir hugsi líklega með hlýju til ódýrra utanlandsferða þar sem hægt var að versla lúxusvörur á tombóluverði má þó ekki gleyma því að of sterkur gjaldmiðill getur haft afar skaðleg áhrif á efnahagslífið.

Krónunni hefur verið haldið í skefjum

Ekki er hægt að fullyrða að krónan sé of sterk eins og sakir standa en hins vegar er hætta á að hún verði það í náinni framtíð. Til að mynda er deginum ljósara að krónan væri orðin umtalsvert sterkari í dag ef ekki hefði verið fyrir gríðarleg gjaldeyriskaup Seðlabankans á undanförnum árum. Gjaldeyriskaup á millibankamarkaði námu 111 milljörðum árið 2014, 272 milljörðum í fyrra og 251 milljarði það sem af er ári. Gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði nema því samtals 634 milljörðum á innan við þremur árum.

Það er því ljóst að Seðlabankinn hefur eytt miklu púðri í að halda aftur af frekari styrkingu krónunnar, líkt og hann viðurkenndi í síðasta riti Peningamála: „Gengi krónunnar hefur hækkað töluvert að undanförnu þrátt fyrir mikil gjaldeyriskaup Seðlabankans.

Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans, þar sem stýrivextir voru lækkaðir, gaf Már Guðmundsson seðlabankastjóri sterklega í skyn að bankinn myndi nú fara að draga verulega úr gjaldeyriskaupum sínum í ljósi þess að gjaldeyrisforðamarkmiðinu væri nokkurn veginn náð. Seðlabankinn hefur verið að sanka að sér gjaldeyri til að undirbúa sig fyrir næstu skref í losun fjármagnshafta þannig að gengi krónunnar falli ekki of mikið ef fjármagn fer að streyma úr landi. Ef dregið verður úr gjaldeyriskaupum þýðir það bara eitt, krónan er líkleg til að fara á flug.

Fyrir því eru tvær meginástæður:

Í fyrsta lagi hafa gjaldeyriskaup Seðlabankans komið í veg fyrir styrkingu krónunnar með því að auka framboð á krónum í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Ef framboðið af krónum snarminnkar skyndilega mun hún að öðru óbreyttu styrkjast.

Í öðru lagi er allt eins líklegt að útflæði fjármagns við losun hafta verði mun minna en Seðlabankinn og stjórnvöld höfðu óttast. Aðstæður á erlendum mörkuðum eru heldur óspennandi og engin ástæða til að flýta sér með fé úr landi á meðan staðan er nokkuð góð hérlendis. Það þýðir að eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri verður minni en óttast var, sem og þrýstingur til lækkunar á gengi krónunnar.

Hverjir eru ókostirnir við sterkt gengi?

Þó svo að sterkt gengi hafi sína kosti á borð við ódýrari innflutning og hlutfallslega sterkari kaupmátt gagnvart útlöndum fylgja einnig talsverðir ókostir. Meginókostirnir eru tveir:

Veikari samkeppnisstaða helstu útflutningsgreina: Meginútflutningsgreinar okkar Íslendinga eru í dag ferðaþjónusta, sjávarútvegur og stóriðja. Hvað sem fólki kann að þykja um fyrirkomulag sjávarútvegsins er ljóst að hann er ein af grunnstoðum samfélagsins. Sterkara gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum þýðir að íslenskar sjávarafurðir verða að óbreyttu dýrari samanborið við erlendar og það mun skila sér í minni eftirspurn og tilheyrandi áfalli fyrir sjávarútveginn og hagkerfið í heild. Í ljósi þess að tekjur sjávarútvegsins eru allar í erlendri mynt á meðan nær allur kostnaður að frádreginni olíu er í innlendri mynt þarf sjávarútvegurinn að lækka verð í krónum talið ef sala á ekki að dragast saman án þess að geta lækkað t.d. laun á móti. Arðsemin verður því verri, kostnaður er sá sami en sterkari krónu fylgja færri krónur á hverja selda einingu.

Að sama skapi hefur ferðaþjónustan verið lykilþáttur í aukinni hagsæld undanfarinna ára. Gríðarleg fjölgun ferðamanna til landsins átti sér stað að einhverju leyti vegna aukins hróðurs Íslands sem áfangastaðar en einnig vegna hagstæðs gengis. Með sterkari krónu verður Ísland dýrara fyrir hvern einasta ferðamann og þar af leiðandi er líklegt að einhverjir þeirra kjósi að fara annað. Slíkt myndi hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna og hagkerfið í heild og ekki síst vegna þeirra gífurlegu fjárfestinga sem hefur verið hrint í framkvæmd í þessum iðnaði. Þó svo að sjónvörp, ísskápar og bílar verði ódýrari fyrir Íslendinga er ljóst að versnandi staða þessara greina myndi hafa mjög neikvæð áhrif og koma í veg fyrir áframhaldandi aukna hagsæld.

Stóriðjan stendur frammi fyrir sömu rekstrarörðugleikum við sterkara gengi krónunnar. Stóriðjan vinnur með hrávöru sem gengur kaupum og sölum á heimsmarkaðsverði í erlendri mynt og það þýðir færri krónur á hverja selda einingu líkt og í tilfelli sjávarútvegsins.

Þensla og versnandi skuldastaða gagnvart útlöndum: Þegar innflutningur á vörum og þjónustu er meiri en útflutningur má segja að Íslendingar séu að fá lánað erlendis frá til að auka eigin neyslu. Þetta var tilfellið fyrir hrun þegar íslenska hagkerfið var drifið áfram af miklum halla á vöru- og þjónustujöfnuði sem fór upp fyrir rúm 17% af landsframleiðslu árið 2006. Hagvöxturinn var keyrður áfram af einkaneyslu með fjármagni erlendis frá en endaði með ósköpum. Árin eftir hrun hafa farið í að greiða þennan mismun til baka, meðal annars með umtalsverðum viðskiptaafgangi, en hann mun dragast verulega saman eftir því sem krónan styrkist og á endanum breytast í halla.

Mikilvægt er fyrir hagkerfið að búa við heilbrigðan hagvöxt sem byggist á sterkum útflutningsgreinum frekar en að keyra hann áfram á aukinni einkaneyslu með tilheyrandi skuldasöfnun gagnvart útlöndum. Það þýðir ekki að nauðsynlegt sé að skila umtalsverðum afgangi af viðskiptum við útlönd á ári hverju en hins vegar mun samfelldur áralangur viðskiptahalli hafa skaðleg áhrif til lengri tíma.

Við viljum vera samkeppnishæf

Þegar lagt er mat á samkeppnishæfi þjóða er gjarnan miðað við svokallað raungengi, sem samanstendur af gengi gagnvart erlendum gjaldmiðli og hlutfallslegu verðlagi í heimalandinu samanborið við erlendis. Frá ársbyrjun 2015 hefur raungengi verðlags hækkað um rúm 11% og raungengi  launa, þar sem hlutfallsleg laun eru sett inn í stað verðlags, hefur hækkað um 29%. Sú staðreynd að verðbólga hér á landi hefur verið mun minni en búist var við í kjölfar kjarasamninga hefur þess til viðbótar komið í veg fyrir frekari styrkingu raungengis verðlags.

Himinhá hækkun raungengis launa sýnir hins vegar versnandi samkeppnisstöðu innlends vinnuafls gagnvart því erlenda. Ef verðbólgan fer á flug og laun halda áfram að hækka mun samkeppnisstaða Íslands versna til muna og það sama gildir ef nafngengi krónunnar heldur áfram að styrkjast. Það kann vel að vera að gengið sé „rétt“ um þessar mundir, eða í einhvers konar jafnvægi, en blikur eru á lofti um að áframhaldandi styrking sé í vændum líkt og fjallað hefur verið um hér að ofan.

Meginatriði þessarar umfjöllunar er að frekari styrking krónunnar kann að vera varhugaverð. Vissulega hefur of veikur gjaldmiðill neikvæð áhrif á lífsgæði í ljósi þess hversu stór hluti neyslu okkar byggist á innflutningi. Of sterkur gjaldmiðill hefur hins vegar þensluhvetjandi áhrif og gæti þar að auki stórskaðað meginstoðir íslensks efnahags. Of mikil styrking hefur sögulega endað með falli krónunnar líkt og við sáum síðast í kjölfar efnahagshrunsins og þá stöðu vill enginn upplifa. Því er mikilvægt að krónan finni gott jafnvægi þar sem útflutningsgreinar okkar halda áfram að blómstra og innflutningur er innan skynsamlegra marka. Þannig myndast ekki óhófleg þensla sem kemur í bakið á okkur síðar.

 

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson.

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.