Stóra Fake-News tilraunin

eftir Björn Már Ólafsson

Í september fara fram kosningar á sveitastjórnarstigi í Noregi. Kosningarnar myndu undir eðlilegum kringumstæðum ekki kalla á alþjóðlega athygli fjölmiðla en norska ríkisútvarpið NRK sá til þess að svo var ekki með umdeildri rannsókn á framhaldsskólanemum.

Í hálft ár hefur þáttur á vegum NRK dreift fölskum fréttum á samfélagsmiðlum til nemenda við Lillestrøm Videregående Skole í Osló. Markmiðið var að skoða svo niðurstöðurnar í skólakosningum (sem Íslendingar hafa tekið upp að norskri fyrirmynd) og kanna hvort fölsku fréttirnar hefðu haft áhrif.

Fyrir valinu varð norska Senterpartiet – sem er systurflokkur íslenska Framsóknarflokksins. Vinsæll flokkur í sveitum landsins, styður ríkisstyrki við landbúnað og hefur á síðustu árum verið gagnrýninn á EES-samninginn. Í síðustu skólakosningum í Lillestrøm Videregående Skole fékk flokkurinn aðeins um 2% fylgi og því beið NRK ærið verk að auka fylgi flokksins sem að öllu jöfnu höfðar illa til ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttirnar sem birtust á samfélagsmiðlum nemendanna voru oftast undir nafnlausri Facebook-síðu sem hét Klimastrike Lillestrøm – og var þar notast við vinsældir Climate Strike hreyfingarinnar til að ná til unga fólksins. Var ætlunin að nota umhverfisvitund unga fólksins til að fá fólk til að kjósa flokkinn. Fréttirnar fjölluðu um að Umhverfisflokkurinn MDG (Miljøpartiet de Grønne) vilji banna notkun svitalyktaeyðis í skólum, takmarka internetnotkun nemenda, Framfaraflokkurinn (FrP) vilji reikna út kolefnisfótspor núverandi innflytjendastefnu og að Verkamannaflokkurinn vilji bora eftir olíu í hinum umdeildu Lofoten-Vesterålen-Senja svæðum. Þá beitti NRK einnig áhrifavöldum í þessari tilraun sinni. Aðeins skólastjórinn í framhaldsskólanum var upplýstur um tilraunina og samþykkti hana fyrir sitt leyti.

Málið hefur vakið upp mikla reiði, bæði á meðal nemenda við skólann og fulltrúa í ungliðahreyfingum flestra flokka og það skal engan undra. Það að nota nemendur sem tilraunadýr í verkefni sem þessu er alvarlegt og vekur upp alvarlegar siðferðislegar spurningar.

Ein alvarlegasta gagnrýnin er sú að um þriðjungur nemenda hefur náð 18 ára aldri og hefur þar með kosningarétt í komandi sveitarstjórnarkosningum. Er því ekki bara um að ræða saklausa tilraun á nemendum heldur hefur verið haft áhrif á raunverulegan kjósendahóp án þess að hópurinn vissi nokkuð af tilrauninni. Þegar tilrauninni var lokið var þegar búið að opna fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu í sveitarstjórnarkosningunum og því ekki útilokað að kjósendur í skólanum hafi kosið án þess að vita af tilrauninni.

Niðurstaða kosninganna var að Senterpartiet bætt við sig rúmlega 1 prósentustigi og fengu 3,1% fylgi í skólakosningunum. Þótt aukningin hafi verið um 50% þá er úrtakið aðeins 400 nemendur og því ekki hægt að halda því fram að Fake-News áróðurinn hafi haft mikil áhrif. En ef þetta sýnir okkur eitthvað þá er það að ungt fólk í dag er með betri skilning á hættunum sem leynast á samfélagsmiðlum þegar kemur að pólitískum auglýsingum og misvísandi skilaboðum. Það má raunar spyrja sig hver sé raunverulega viðkvæmasti hópurinn fyrir Fake-News og nafnlausum áróðri á internetinu? Er það virkilega ungt fólk sem hefur nær allt sitt stutta líf þurft að lifa í samfélagi þar sem samfélagsmiðlar eru allsráðandi, eða er það eldri kynslóðin sem fékk tæknibyltinguna í andlitið eins og hurð sem opnaðist of hratt?

Lærdómurinn sem flestir draga af þessu í Noregi er þó sá að NRK gekk langt út fyrir eðlilegt starfssvið sitt með tilrauninni. Meðal annars hefur Erna Solberg, forsætisráðherra landsins, sagt að tilgangurinn hafi ekki helgað meðalið með tilrauninni. Það eru klók orð.

Ungt fólk á ekki að vera tilraunadýr með þessum hætti fyrir rannsóknir sem eldra fjölmiðlafólki dettur í hug að framkvæma. Fólk sem hefur náð 18 ára aldri sérstaklega, á ekki að þola að fjölmiðill sem í skjóli hræðslu samfélagsins við Fake-News umræðuna notfæri sér þennan kjósendahóp í rannsóknum sem fjölmiðlinum dettur í hug að framkvæma.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.