Stjórnsýslufræðingurinn og Páley

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur aldeilis verið á milli tannanna á fólki undanfarna daga. Gagnrýnin hefur mestmegnis snúið að þeirri ákvörðun að halda uppteknum hætti við upplýsingagjöf til fjölmiðla um kynferðisbrot á þjóðhátíð. Það vakti ekki eins mikla athygli þegar Eva Marín­ Hlyns­dótt­ir, lektor í op­in­berri stjórn­sýslu við Há­skóla Íslands, dró siðferði Páleyjar, lögreglustjóra, í efa vegna þess að hún varð uppvís af því að senda út tilkynningu til fjölmiðla af sínu persónulega netfangi. Tilkynningin fjallaði um skoðanakönnun er gerð var um hug Sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi gagnvart því að Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, leiddi lista Sjálfstæðismanna í komandi alþingiskosningum. Hið lítt umtalaða mál er þó mikilvægt út af fyrir sig og nauðsynlegt að skoða.

Nú kann það að vera að það hefði verið hentugra ef Páley, eða einhver annar stuðningsmaður Elliða Vignissonar hefði útbúið sérstakan tölvupóst til þess að halda utan um samskipti við fjölmiðla, einfaldlega til þess að losna við gagnrýni sem þessa. Hitt er þó annað mál, hvort gagnrýni sem þessi hafi verið réttlætanleg eða ekki.

Við Íslendingar erum fámenn þjóð og þá staðreynd efast enginn um. Það veldur því að fólk hér á landi tekur yfirleitt að sér mörg hlutverk samtímis. Fólk er í vinnunni sinni, foreldraráði, stjórn íþróttafélags og mögulega í stjórn annarra félagasamtaka samtímis. Slíkt má sennilega rekja til þess að við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að við erum athafnasöm, okkur langar að gera sem mest og upplifa sem mest. Það er jákvætt og sést til að mynda í því að yfirleitt fettir fólk ekki fingur út í slíkt, þó undantekningar séu stundum gerðar meðal ákveðinna einstaklinga þegar fólk gegnir trúnaðarstöðum eða einhverju hlutverki fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk.

Grundvallarspurning um einstaklinginn

Undir er þó grundvallarspurning sem fjallar um einstaklinginn og stöðu hans. Við þurfum að spyrja okkur hvort það sé lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum sem svæfir börnin sín eða mætir í brúðkaup vina sinna? Eða er það Páley sem er lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum þegar hún er í vinnunni en einstaklingurinn Páley þess á milli? Einstaklingur sem hefur skoðanir fyrir sig og sinnir persónubundnum athöfnum eins og við hin. Spurningin er því um leið, hættir fólk að vera borgarar þegar það tekur við ákveðnum störfum hjá hinu opinbera?

Auðvitað er ákveðin lína sem menn þurfa að draga þegar kemur að ólíkum hlutverkum, einkum og sér í lagi þegar kemur að hagsmunaárekstrum. Í þessu tilfelli virðist Páley þó einfaldlega, sem einstaklingur, vera nýta rétt sinn til þess að taka þátt í lýðræðisferlinu og það hlýtur að vera af hinu góða. Fyrir mér vakna því frekar spurningar um siðferði stjórnsýslufræðingsins sem vill takmarka lýðræðisþátttöku þeirra sem gegna ábyrgðarstörfum fyrir hið opinbera.

Það er betra að þekkja skoðanir fólks

Nú kunna að vera einhverjir sem telja það betur fara að fjölmiðlamenn, ýmsir embættismenn og aðrir sem gegna ábyrgðarstöðum ættu að fela skoðanir sínar. Þá telja menn yfirleitt til þau rök að það komi í veg fyrir að skoðanir hafi áhrif á störf þeirra. Ég spyr hins vegar, er það virkilega svo, að einstaklingur verði skoðanalaus við það að þegja um skoðanir sínar? Ég held ekki og tel jafnvel betra að vita hvar fólk stendur. Er ekki betra að hafa samhengi hlutanna í huga þegar maður leggur mat á þá?

Staðreyndin er nefnilega sú að enginn er óháður eigin skoðunum sama hvað viðkomandi reynir og þá er heiðarlegra að almenningur viti hverjar þær eru, hvort sem þær eru til vinstri eða hægri eða upp eða niður.

Praktíska hliðin er svo enn annað atriði. Ef við ætluðum að takmarka þátttöku dugmikilla Íslendinga við einn hlut sé ég ekki betur en að við myndum stórdraga úr öllum þeim þáttum samfélagsins sem reiða sig á sjálfboðaliðastarf. Inn í því mengi telst nánast allt stjórnmálastarf, íþróttastarf, björgunarstarf og almennt mest öll þátttaka í félagasamtökum.

Við lifum í litlu samfélagi og fólk gegnir mörgum hlutverkum hverju sinni. Það hefur bæði kosti og galla en það væri ógeðfellt að takmarka athafnafrelsi fólks einfaldlega vegna þess að það gegnir ákveðnu hlutverki. Við eigum að virkja framkvæmdagleði einstaklingsins en ekki letja hana.

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.